07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. 1. og 6. kgk. þm. hafa fært þær ástæður fyrir því að samþykkja beri frumvarp þetta, að þá aukist veltufé bankans, og þá komist yfirráðin yfir honum í hendur Íslendinga. Eg skal fyrst víkja að síðari ástæðunni, þó að háttv. 1. kgk. þm. sannaði það raunar bezt sjálfur, að það er engin ástæða, því að hann tók það fram, sem líka er laukrétt, að í bankaráðinu hafa Íslendingar 4 af 7 atkvæðum, og eg býst við að Íslendingar verði í meiri hluta í stjórn bankans áður langt um líður. Auk þess hefir ráðherrann mikið vald yfir bankanum, getur jafnvel ónýtt samþyktir hluthafafundar. Og loks eru litlar líkur til þess, að hluthafarnir samþykki nokkuð, er geri Íslandi skaða, því að hagsmunir landsins og bankans ættu víðast hvar að fara saman, en rekist íslenzkir og erlendir hagsmunir á annað borð á, má bera Íslendinga ofurliði, þó að frumv. kæmist á, með því að kaupa upp öll þau hlutabréf, sem ekki væru landsjóðseign. Til þess að tryggja oss yfirráðin yfir bankanum að fullu, þyrftum vér því að kaupa meira en helming hlutabréfanna, en frumv. þetta fer að eins fram á að kaupa 2/5 hluta þeirra. Annars er gert alt of mikið úr valdi hluthafafundanna. Á þeim hluthafafundum Íslandsbanka, sem hingað til hafa verið haldnir, hefir ekkert annað verið gert en að samþykkja reikninga bankans og kjósa fulltrúa í bankaráðið.

Það er heldur ekki rétt, að veltufé bankans aukist við hlutabréfasölu þessa, því að meginið af því fé, er bankinn fengi fyrir hlutabréfin, myndu ganga til þess að borga erlendar skuldir, enda hefir annar bankastjórinn, er nefndin hefir átt tal við, játað að svo mundi fara. Sami peningurinn verði ekki bæði brúkaður hér til útlána og til skuldaborgunar í útlöndum. Ef það er rétt, að bréfin standi í 103% erlendis, eins og háttv. 1. og 6. kgk. þm. halda fram, þá þarf bankinn sannarlega heldur ekki að vera að leita til landsjóðs til þess að fá þau seld; honum er þá miklu nær að selja þau í útlöndum. En þó þau standi í 103%, þá er sannvirði þeirra ekki nema 95— 96%, því að frá þessum 103% verður að draga vexti fyrir 1908 og það sem af er 1909. En hvað sem um það er, þá er eitt víst, að annaðhvort standa bréfin vel, og þá er bankanum lafhægt að selja þau í útlöndum, eða þau standa ekki vel, og þá eru þau of dýrt keypt á 101%. En samkvæmt yfirlýsingu bankastjóra má ekki setja lægra verð á þau í frumv. en 101%, og þá verðum vér fyrst og fremst og fremst að gefa 60.000 kr. á milli þeirra og skuldabréfanna, sem vér látum bankann hafa í staðinn fyrir 98%. Í öðru lagi eigum vér að borga 4½ % vexti af 2 milj. kr. eða 90.000 kr. fyrsta árið, og loks eigum vér að afborga skuldabréfin árlega með 40.000 kr. Og yrði það alls fyrsta árið 190.000 kr. Frá þessari upphæð má draga hinn væntanlega arð, sem ómögulegt er að segja hve mikill verður. En það liggur í hlutarins eðli, að hann verður hlutfallslega minni af 5 milj. en 3 milj., því að því minna kemur í hvers hlut, sem honum er skift í fleiri staði. Ekki er ósennilegt að hann lækki að minsta kosti um 1½ %, ogyrði hann þá 5%, sem af 2 milj. kr. er 100.000 kr., og yrði þá tap Íslands fyrsta árið 90.000 kr.

Seðlaútgáfurétturinn þarf sannarlega heldur ekki að verða landinu ónýtur, þótt þessum kaupum sé slept, ef Ísland að eins kann að gera sér mat úr honum, þegar leyfi bankans að 24 árum liðnum rennur út. Þegar leyfi danska þjóðbankans var á enda, lögðu Danir með lögunum frá 12. júlí 1907 750.000 kr. árgjald á bankann, sem endurgjald fyrir seðlaútgáfuréttinn, og þó er hlutaféð alls ekki nema 27 milj. kr. Það gæti orðið dálagleg upphæð, ef vér heimtuðum hlutfallslega jafnmikið af Íslandsbanka á sínum tíma. Auk þess á Þjóðbankinn að greiða ríkissjóði ¼% af arði sínum, eftir að 5% hafa verið lagðir í varasjóð og hluthafar fengið 6% og ennfremur ½% af því, sem hann græðir við að seðlar týnast, og loks á bankinn að launa 2 bankastjóra, sem skipaðir eru af konungi. Það er því minni nauðsyn til að taka tilboði þessu nú, sem borin er fram þingsályktunartillaga í neðri deild um að skipa milliþinganefnd í bankamálin. Þá má og geta þess, að Landsbankinn á óbrúkaðar 2 milj. kr., sem hann hefir fengið fyrir seld skuldabréf, og ef hann fær nú heimild til þess að gefa út 3. flokk af bankavaxtabréfum og getur selt þau, þá eykst veltufé hans stórkostlega, og þá um leið peningamagnið í landinu, og býst eg við að flestir leggi meira upp úr því, að peningarnir fáist, en hinu, hvaðan þeir koma.