07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Steingrímur Jónsson:

Þegar mest var rætt um stofnun hlutabanka fyrir nokkrum árum, voru margir menn nyrðra og þar á meðal eg hikandi í því máli, álitu það varhugavert, en þó óhjákvæmilegt, væri ekki hægt að gera Landsbankann þannig úr garði, að hann fullnægði peningaþörfum landsmanna. Það var innileg ósk nyrðra, er bankinn var stofnaður, að landsjóður gerðist hluthafi fyrir mikilli upphæð í honum, og vantaði meira að segja lítið á, að meiri hluti væri fyrir því á þingi. Fyrir því álít eg rétt, að kaupa hlutabréfin nú, þar sem þau fást með aðgengilegum kjörum, því að á þann hátt fáum vér umráð yfir bankanum. Það er ekki til neins fyrir háttv. 5 kgk. þm. að vera að halda því fram, að hluthafafundirnir ráði litlu, hluthafafundirnir sem einmitt kjósa hina starfandi stjórn bankans. Gerist landsjóður hluthafi fyrir 2 milj. kr., eru Íslendingum trygð full umráð yfir bankanum, því að þegar við þessar 2 milj. landsjóðs bætist sú ½ milj., sem einstakir íslenzkir menn eiga, er óhugsandi annað en að Íslendingar verði ávalt í meirihluta á hluthafafundunum. Eg varð alveg forviða er eg sá hve gálauslega nefndin fullyrðir, að 2 milj. tryggi ekki meiri hluta, því að það er að minsta kosti »Tankeexperiment« og annað ekki, að 2 milj. + því, sem einstakir menn íslenzkir eiga, sé ekki næg trygging fyrir meiri hluta á hluthafafundunum.

Heimild sú, er bankanum var gefin 1907, var aðallega gerð í því skyni að auka veltufé bankans og styrkja lánstraust hans. Hinn háttv. framsögum. hafði það á móti kaupunum, að féð, sem bankinn fengi fyrir bréfin, myndi aðallega ganga til þess að borga erlendar skuldir. Ef bankinn væri í svo miklum útlendum skuldum, sem hann þyrfti að borga, en gæti ekki án þess einhver hlypi undir bagga með honum, þá yrðum vér að gjöra það, en það vill nú svo vel til, að hann getur borgað hinar erlendu skuldir sínar, án slíkrar hjálpar, en þó því að eins, að hann dragi seglin svo mikið saman, að viðskiftalíf landsmanna hlýtur að bíða stórhnekki við.

Þriðja mótbáran sem nefndin leggur áherzlu á er sú, að verð hlutabréfanna sé of hátt. Hún segir að landsjóður eigi að borga 60 þús. kr. í milligjöf, og fari auk þess varhluta af ágóðahlutum. Þetta er ekki haft rétt eftir lögunum.

Í þeim stendur að eins, að ekki megi kaupa hlutabréfin hærra verði en 101, og ekki selja bréf landsjóðs lægra en 98. Þar með er ekki sagt, að bréfin skuli kosta þetta, ef þau verða ekki þess virði, þegar salan fer fram. En á hinn bóginn hafa bréfin allajafna staðið fyrir ofan 101, nú í 103; það er að eins peninga-»krisinn« sem hefir gert það að verkum, að þau hafa farið niður úr því.

Þá sagði háttv. framsögum., að ekki væri útlit fyrir að bankinn þyrfti á þessu fé að halda, þar sem hann hefði annan rétt, sem hann léti ónotaðan að miklu leyti, nefnilega seðlaútgáfuréttinn. En seðlaútgáfan fer ekki eftir því sem þarf af lánum eða því hvað gefa má út af seðlum, heldur eftir því, hve mikið bankinn getur haft úti í umferð. Hugsum okkur að kaupmaður fái lán í banka hér til að borga með skuld í Höfn. Hann fær lánið í seðlum og sendir þá til Hafnar. Þar eru þeir seldir banka og okkar banki verður að innleysa þá aftur með peningum. Af þessu dæmi er augljóst, að seðlaútgáfurétturinn getur ekki aukið veltufé bankans, nema landsmenn séu svo efnaðir, að þeir geti haft þá í vösum sínum hér heima til muna. Háttv. 5. kgk. þm. sagði, að bankinn þyrfti ekki að sækja þetta fé til landsjóðs. Það er rétt, enda er hugmyndin ekki komin frá bankanum heldur frá peningamálanefndinni í Nd. Íslandsbanki hefði getað verið búinn að selja bréfin, að vísu máske ekki nema með skaða, en nú getur hann selt þau, og verður líklega neyddur til að selja þau fyrir hvaða verð sem er, því honum er nauðsyn að auka fé sitt. En svo virðist mér rétt að lita á það, hverjar afleiðingarnar mundu verða, ef ekkert yrði af kaupunum. Sú fyrsta yrði, að bankinn neyddist til að selja öðrum, til að útvega sér veltufé. En svo er annað, sem hætt er við að mundi leiða af því, og það er, að hjá Íslandsbanka risi upp talsverð samkepnistilhneiging gagnvart Landsbankanum. Mér virðist blærinn á nefndarálitinu benda til þess, að verðir Landsbankans beri ekki góðan hug til Íslandsbanka, og að stjórn Íslandsbanka hafi ástæðu til að álíta, að það sé vilji þingsins að Landsbankinn setji Íslandsbanka út í horn eða herði að honum. Þetta gæti orðið háskalegt, ekki af því að hætt sé við, að Íslandsbanki bæri hærra hlut, heldur af því að skæð samkepni milli bankanna gæti haft óútreiknanleg áhrif á hag landsmanna, þar sem bankaviðskiftin grípa nú svo mjög inn í allan efnahag þeirra. Að endingu vil eg benda á eitt atriði í þessu máli, sem ekki er lítils virði. Ef það hefði tekist, með því að samþykkja þetta frumvarp, að fá umráð yfir Íslandsbanka, þá hefði okkur verið það í lófa lagið, að samræma bankana þannig, með breytingu á fyrirkomulagi þeirra, að öll samkepni milli þeirra yrði úr sögunni, og þeir yrðu eins og tvær deildir af sama banka, nokkurs konar þjóðbanka Íslands. Þetta er hugmynd, sem er þess verð að hún sé athuguð. Verkum mætti skifta svo með bönkunum, að t. d. Landsbankinn væri sparisjóður og hypotekbanki, en Íslandsbanki seðlabanki og víxilbanki. Ef þessu væri kipt þannig í lag, þá væri vel farið. Og með því að samþykkja þetta frumv. hefðum vér stigið fyrsta sporið í þessa átt.