07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Eiríkur Briem:

Vegna naumleika tímans var auðvitað ekki hægt að taka fram í nefndarálitinu öll þau atriði, sem einstakir nefndarmenn höfðu á móti frumv. Eitt af þessum atriðum var einmitt það, sem háttv. 4. kgk. þm. minntist á síðast í ræðu sinni, sambandið milli hlutabankans og Landsbankans. Nú er landsjóður eigandi Landsbankans; ef hann yrði líka að miklu leyti eigandi hlutabankans, yrði það óumflýjanlegt að skoða samvinnu bankanna frá öðru sjónarmiði. Eg býst því við, að þessu frumv. verði breytt strax á næsta þingi, ef það verður að lögum nú. Eg skal í sambandi við þetta geta þess, að þegar Íslandsbanki var stofnaður, var það fyrst meiningin að Landsbankinn væri lagður niður; en honum var bjargað á síðustu stundu með breyt.till. í Ed. Þegar landsjóður væri orðinn eigandi að báðum bönkunum, þá væri óþarft að skifta sömu verkunum milli þeirra eins og nú er, þar sem báðir hafa veðdeild, sparisjóð o. fl. Annaðhvort yrði þá Landsbankinn lagður niður, eða verkunum skift einhvern veginn milli bankanna, þannig að hlutabankinn væri t. d. seðlabanki. En hvernig sem þessu verður nú fyrir komið, þá er það einmitt þetta, sem menn verða að gera sér grein fyrir, áður en slíkt frv. er samþykt. Það er eins og bætt sé við hálfsagða setningu, ef menn samþykkja slíkt, án þess að gera jafnframt ráð fyrir fyrirkomulagi bankans þegar báðir eru orðnir eign landsjóðs.