07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Ágúst Flygenring:

Eg lýsti því yfir við 1. umræðu, að eg væri málinu hlyntur. En þar eð háttv. framsm. tók fram, að hagsmunir landsmanna væru ekki trygðir með þessu gagnv. Íslandsbanka, þá er það á móti minni skoðun, því þá eiga landsmenn þó um helming af hlutafénu, og það álít eg að sé næg trygging fyrir því, að útlendir hluthafar verði atkvæðum bornir á hluthafafundum. Það er því full vissa fyrir því, að landið fær umráð yfir bankanum, verði hlutabréfin keypt.

Hvað snertir þingsályktunartillöguna í Nd. og hina rökstuddu dagskrá hér, sem báðar fara í sömu átt, skal eg játa það, að eg er þeim ekki mótfallinn, en þær eru gagnslausar. Það er ekki hægt að ráða fram úr þessu máli, svo að nokkurt gagn sé að, öðruvísi en með hjálp þingsins. Háttv. framsögum. tók það fram, að lítið útlit væri fyrir, að bréf bankans væri í áliti, þar sem þau ekki væru seld, en hér liggja til aðrar ástæður — þetta kemur bæði af því, að bankinn hefir haft fé handa á milli, svo hann hefir ekki beinlínis þurft að selja hingað til, og að öll hlutabréf hafa verið í lágu verði síðustu 3—4 árin um öll Norðurlönd. Þó hafa bréf Íslandsbanka verið með þeim hærri í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn, og eru að hækka í verði, því bankinn hefir verið rekinn með dugnaði, og hefir gott álit á sér í Danmörku.

Þá var talað um milligjöfina: það er að vísu ekki hægt að sanna með tölum, hvort nokkur milligjöf ætti að vera eða ekki, en þó alt útlit fyrir að þessi milligjöf sé ekki of há. Afborgun og vextir af þessum 60 þús. verða aldrei hærri en það, sem bankinn gefur meira í vexti, en landið þarf að gjalda af sínum bréfum vonandi.

Allar bankastofnanir, eins og allar verzlanir, hafa arð eða tap eftir því gengi, sem í hvert skifti er í atvinnuvegum eins lands. Verði þessum banka vel og hyggilega stjórnað framvegis, og því ráða landsmenn, ef þeir á annað borð vilja öðlast yfirráðin yfir honum, þá ætti hann að gefa hærri vexti en 5%. Það eru fylstu líkur til að hlutabréfin gefi altaf yfir 5%, og þá er það gróði, sem gengur upp í afborgunina. Þá hefir landið stórt »plús« að meðtöldum yfirráðunum yfir bankanum, sem eg get ekki gert lítið úr.

Það er rangt að bankinn þurfi ekki þetta fé, af því að því fé, sem bankar fá nú, sé varið til að kaupa útlendar vörur og borga erlendar skuldir .En við það er ekkert að athuga; það eykur efnalegt sjálfstæði landsmanna, að skulda fremur hér það sem þeir skulda en í útlöndum, og greiðir fyrir nauðsynlegum viðskiftum, að geta borgað vörur sínar strax, heldur en að taka þær til láns. Og það þurfa ekki að vera mikil höft á viðskiftalífinu til þess, að af þeim stafi fjártjón og mikil verðhækkun.