30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

75. mál, bygging jarða og ábúð

Júlíus Havsteen:

Þetta frumvarp hefir þann titil sem forseti las upp og eftir honum að dæma mætti ætla að hér væri um verulegar breytingar að gera, en þegar maður les frumv., þá verða nærri engar breytingar fyrir manni. Aðal breytingin er ákvæðið um afnám kúgildanna, en allt annað sem er í þessu frumv. er í lögunum frá 12. jan. 1884. Að vísu stendur ekki mikið þar um bygging húsa á jörðum, en hún er talin jarðabót og hefir því um húsbyggingar verið farið eftir þeim og stjórnarbréfi frá 25. maí 1880, sem kom fram samkvæmt þingsályktunartillögu 1879. Eg sé ekki betur en að þetta mál sé mjög einfalt, og þarf því eigi að kjósa nefnd í það. Helzt sæi eg að það næði eigi fram að ganga, af því að afnám kúgildanna er einungis til ógagns að minni hyggju, enda til stór skaða fyrir landsjóð, að því leyti er þjóðjarðirnar snertir.