30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

75. mál, bygging jarða og ábúð

Sigurður Stefánsson:

Eg játa að eg hefi ekki getað kynt mér þetta frumv. sem skyldi og borið það saman við lögin frá 1884, en við fljóta yfirvegun, finst mér liggja í því mikil réttarbót og álít það því mjög þarflegt. Aðalbreytingarnar eru þrjár, nfl. atriðin um jarðabætur, um bygging húsa á jörðum og um afnám kúgildanna; ákvæðin sem nú gilda um þessi atriði eru þannig löguð, að réttar leiguliða er þar mjög lítið gætt. Leiguliðar geta að vísu fengið að einhverju leyti endurgjald fyrir jarðabætur, en það er mjög vafningasamt. Eins er það um hýsingar, og er oft svo, að þeir, sem bezt húsa, verða verst úti. Um kúgildin er það að segja, að eg álít að það sé röng krafa á leiguliða. Leigan er okurleiga og leiguliðar vilja víst alment losast við þau. Eg tel því þetta frumv. ágætt; þó eg þykist vita að þingtíminn því miður ekki leyfi að lokið sé við það, þá vona eg að háttv. deild taki því með virktum og veiti því sæmandi undirbúning, og eg vil því gera að uppástungu minni að málið verði sett í 3 eða 5 manna nefnd að lokinni umræðunni.