30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

75. mál, bygging jarða og ábúð

Júlíus Havsteen:

Það er gleðilegt að háttv. þm. Ísf. bjóst ekki við að þetta frumv. næði fram að ganga á þessu þingi. Eins og eg sagði í fyrri ræðu minni, höfum vér aðalinntak þessa frumv. í öðrum og miklu betri lögum, einum af okkar allra beztu lögum (12. jan. 1884). Ákvæðin þar eru auðvitað um þjóðjarðir, en eg get ekki sagt um hvernig einstakir menn fara með sína leiguliða, naumast eins vel og landstjórnin. Að því er snertir ákvæðin um jarðabætur, þá ná húsabætur einnig þar inn undir. En svo á að afnema kúgildin; það finst mér undarlegt, og menn eru oft of fljótir á sér að breyta góðum og gömlum venjum og lögum, sem staðið hafa langan aldur. Menn eru fljótir að hlaupa eftir dæmi þeirra þjóða sem eru nýjungargjarnastar, t. d. Finna og Ameríkumanna, en vér förum ekki eftir þeirri þjóð, sem er mest og bezt allra þjóða, Englendingum, sem eru fastheldnir á allar gamlar og góðar venjur. — Eg álít að það sé nauðsynlegt að halda kúgildunum, því flestir verða þeim fegnir, að m. k. framan af búskapartíma sínum, og þó sumir ef til vill vilji losast við þau, þá er það ekki fyr en þeir hafa búið nokkurn tíma. Venjan um kúgildin er mjög gömul, eldri en Jónsbók og virðist í fyrstu hafa farið eftir samkomulagi. Einnig yrðu þessi lög um afnám kúgildanna til skaða fyrir landsjóð; og eg mótmæli því að leigan sé of há. Landsdrottinn á einlægt nokkuð á hættu, hvað kúgildin snertir, og hef eg haft nokkur dæmi fyrir mér frá þeim tíma að eg var amtmaður, fyrir því að landsjóður hefði alt annað en ábata af kúgildum sínum. En eg skal ekki fara lengra út í þetta, því eg hef þá von að frumvarpið nái ekki fram að ganga á þessu þingi, og er mér í rauninni sama, hvort nefnd verður sett í málið eða ekki.