05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

76. mál, farmgjald

Júlíus Havsteen:

Þetta er eitt af þeim mörgu málum, sem vér fáum frá neðri deild á elleftu stundu. Það er fjarri því, að eg vilji segja að neðri deild hafi slórað, en hún hefir tekið of mörg mál fyrir — og sumum þeirra hefði líka mátt sleppa, og þar á meðal þessu farmgjaldsfrumvarpi. Hér er verið að leggja nýtt gjald á landsmenn, er sérstaklega er hart að göngu fyrir kaupmannastéttina. Og gerir henni óleik, þótt eigi sé það ýkja hátt, auk þess sem það kemur mjög ójafnt niður á hinar ýmsu vörutegundir. Annars er það varhugavert að vera að auka tollana, meðan maður hefir ekkert annað tolleftirlit en vottorð upp á æru og samvizku; þau geta nú reynzt misjafnlega. Auk þess eiga slík mál sem þetta að vera undirbúin af stjórn og koma frá henni, en ekki frá einstökum þingmönnum, eins og frumvarp þetta. Þá er það og einkennilegt að vera að kasta þessu frumv. inn í þingið áður en skattamálanefndin hefir lokið störfum sínum, sem búast má við að ráði til gagngerðra breytinga á öllu skattafyrirkomulaginu. Frumvarpið gerir ráð fyrir hjálp frá tollheimtumönnum í öðrum löndum, en hvernig getur maður búist við að þeir fari að hjálpa okkur fram yfir það, sem komið er, og svo er það látið ganga út yfir skipstjóra, ef lögunum ekki er hlýtt, enda þótt það oft og einatt sé ómögulegt fyrir skipstjóra að gera að því, þótt lögunum eigi sé fylgt. Eg skal ekki fara út í einstök atriði, þar sem þetta er 1. umræðu málsins, en yfirleitt er frumv. þannig úr garði gert, að eg álít nauðsynlegt að skipa í það nefnd, verði það ekki felt frá 2. umræðu, sem eg kysi helzt. Eg legg því til að 3. manna nefnd sé skipuð í málið að umræðu lokinni.