07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

76. mál, farmgjald

Ágúst Flygenring:

Eg vildi að eins með fáum orðum gera grein fyrir því, af hverju eg er á móti þessu frumv. Eg greiddi atkvæði á því að þetta frumv. yrði tekið upp til umræðu hér í deildinni með afbrigðum frá þingsköpum síðast, af því að eg áleit að þetta mál ætti ekki að komast frá þinginu í því formi og eins undirbúið og það var.

Á alþingi 1907 var kosin milliþinganefnd til þess að íhuga skattamál og tollmál landsins og koma fram með tillögur sínar í þeim málum. Þessi nefnd hafði lokið starfi sínu, en mál þau, er hún hafði til meðferðar, þóttu ekki nægilega undirbúin samt — því um mjög mikil vandamál var að ræða —, til þess að þau yrðu lögð fyrir þetta þing.

En nú er hér slitið út úr kerfinu ákaflega mikilsvarðandi mál, og fleygt inn á þingið í lok þingtímans.

Þótt komið hafi til mála að leggja innflutningsgjald á alt vörumagn, sem fluttist til landsins, þá hafa flestir ætlast til að slíkt yrði verðtollur. Því að menn játa að verðtollur komi jafnar niður »procentvis« heldur en tollur eftir vigt.

Þetta hefir ekki náðst með því frumv. sem hér liggur fyrir.

Það er fjarri öllum rétti að taka gjald eftir vigt og það af þeirri einföldu ástæðu, að slíkt gjald kemur algerlega rangt og öfugt niður. Því að dýru vörurnar eru að jafnaði minni fyrirferðar og léttari, en ódýru vörumar eru meiri fyrirferðar og þyngri. Það hefir að vísu — eg skal játa það — verið reynt að laga þetta nokkuð í Nd., t. d. að því er snertir kornvöru og byggingarefni. En mörgu hefir þó verið slept og ekki tillit tekið til ýmsra vörutegunda. Það mætti t. d. nefna kartöflur. Það var sagt að af þeim mundi farmgjaldið eftir þessu frumv. ekki nema meira 1—2% verðhækkun, en eg hef komist úr skugga um að það mundi nema hér um bil 12°/00. Eins er um hey, á því yrði verðhækkun um 7 %, á Soda 25 %. En aftur á móti á vefnaðarvöru, dúkum og sjölum yrði verðhækkunin ekki nema 1/2 % og á silki 1/16 %. Úr því farmgjaldið er eingöngu miðað við þyngd þá raskast auðvitað mest verðið á ódýrum vörum, því þær eru vanalega þyngstar, eins og eg tók fram áðan. Og þó ætti tilætlunin að vera sú að gjaldið kæmi þyngst niður á dýrum vörum, því að þær eru að öllum jafnaði ónauðsynlegri.

Þessu frumvarpi hefir líka verið tekið illa af kaupmönnum. Meginþorri íslenzkra kaupmanna hefir ritað alþingi og í því bréfi fært rök að því, að slíkt farmgjald, sem hér er farið fram á, sé fjarri þeim grundvelli, sem ætti að vera og þess vegna hafa þeir lagt sterklega á móti því, að frumv. yrði samþykt.

Hins vegar verð eg að telja það algerlega rangt að kasta slíku frumv. inn á þingið á síðustu dögum þess, og ætla svo að láta það ganga nefndarlaust og íhugunarlaust sinn gang. Eg vildi helzt að eitthvað yrði gert málinu til tafar ef ekki yrði hægt að fella það. T. d. mætti afgreiða það með rökstuddri dagskrá.