19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Agúst Flygenring:

Eg vildi leyfa mér að minnast örfáum orðum á br.till. minar á þgskj. 493. Eins og háttv. deild er kunnugt var símalínan til Vestmannaeyja feld í Nd., og verð eg að álíta, að það hafi verið misráðið. Eg gæti skilið gjörðir þingsins, ef ekki hefði verið búið að veita fé til símans austur að Garðsauka. En úr því að búið er að veita það fé og telja má víst, að síminn verði lagður strax í sumar, þá sýnist mér satt að segja ófært að fella þennan síma, sem jafnvel háttv. framsm. játar að sé tekjuvænlegur. Eftir þeirri reynslu, sem hefir fengist af símum landsins, hefir það sést, að símskeytin til útlanda gefa mestar tekjurnar, og þar næst milli hinna ýmsu kauptúna og kaupstaða innanlands. Eg þykist viss um að Garðsaukasíminn muni hvorki borga sig beinlínis eða óbeinlínis, vegna þess að hann liggur að eins gegn um sveitahérað, sem er að miklu leyti strjálbygt. Á leiðinni er að eins einn smákaupstaður, Eyrarbakki, sem nota mundi símann nokkuð, en að öðru leyti yrði hann mjög lítið notaður af sýslum þeim er hann liggur í gegnum. Eg get því ekki betur séð en að hér sé í raun og veru farið illa með landsins fé, úr því verið er að kasta því í síma, sem með engu móti getur borgað sig fyr en hann er kominn alla leið þangað sem hann á að komast og öll tekjuvonin ætti að vera bygð á. Að vera því andvígur að halda símanum svo langt áfram, að hann geti borgað sig, hlýtur að vera bygt á misskilningi eða skilningsleysi. Það er auðvitað ekki hægt að skýra frá með tölum, hve miklar tekjur þessi sími mundi fá, ef hann næði þangað sem hann á að ná — til Vestmannaeyja —, en það verður að álíta að þær yrðu miklar, því hér er ekki að eins að ræða um allstóran verzlunarstað og að fjöldi manna sæki þangað atvinnu sína, heldur sækir þangað fjöldi skipa — eða mundi sækja —, ef sími næði þangað út. Þar skamt frá eyjunum og annars við suðurströnd landsins er að jafnaði stór floti af skipum, sem að sjálfsögðu mundu nota símann mikið, enda heyrir maður alt af skipstjóra — bæði farmenn og fiskara — kvarta undan því, að þeir geti ekki sent símskeyti einmitt frá Vestmannaeyjum. Það má búast við því, að þegar sími væri kominn til Vestmannaeyja, yrði bygð á eyjunum »Signalstation«, sem tæki við skeytum frá skipum utan af sjó, svo að þau þyrftu ekki að leita inn á höfn til þess að senda fregnir af sér, fregnir um að þeir séu ofansjávar, hvernig þeim líður, aflabrögð o. s. frv. Svo er gert annarsstaðar, t. d. við Noreg og Skotland og víðar; eru þess konar skeyti afar áríðandi, ekki að eins fyrir útvegsmennina, heldur einnig fyrir vini og fjölskyldur sjómannanna. Eg er sannfærður um að sími til Vestmannaeyja mundi borga sig betur heldur en allir aðrir símar — jafndýrir þessum spotta — hér á landi, og mest af þeim tekjum yrðu útlendir peningar. Flest skip sem til Íslands sigla fara fram hjá Vestmannaeyjum; öll skip sem sigla í Faxaflóa og allflest sem fara til Vesturlandsins, og mörg þeirra er fara til Norðurlands. Eg er viss um, að ef slík Signalstation væri í Vestmannaeyjum, sem eg gat um, og jafnvel þó svo væri ekki, bara ef símastöð væri þar, þá væri öllum skipum boðið að senda þar fregnir af sér, bæði þegar þau kæmu til landsins og þegar þau létu í haf frá landinu. Eg vildi að eins vekja athygli á þessu, án þess að eg ætli mér að fara fram á fjárveiting til slíkrar Signal-stöðvar; hún mundi að sjálfsögðu verða reist þar síðar, eftir að sími væri kominn þangað út.

Hvað viðvíkur því, sem hv. frsm. sagði um loftskeytasambandið til eyjanna, þá er það mjög leiðinlegt að engar áætlanir skuli vera til, svo að ómögulegt er nú að segja neitt af eða á um það, hvort sé ódýrara. Reyndar blandast mér varla hugur um, að það fyrirkomulag mundi reynast dýrara, því auk þess sem slíkar stöðvar er loftskeyti útheimta eru mjög dýrar, þá veit eg, að alstaðar þar sem aðferð Marconis er notuð, er miklu meiri kostnaður að því er starfsmenn snertir, og verður því allur reksturskostnaður meiri en með síma. Hér er líka að eins að ræða um stuttan spotta, sem ekki kostar mjög mikið, og álít eg því heppilegra að maður þar héldi sig við jörðina.