05.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

79. mál, gagnfræðaskóli á Ísafirði

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson):

Eg ber þessa tillögu, sem hér liggur fyrir, fram samkvæmt erindi, sem liggur á lestrarsalnum.

Það mætti kalla þessa tillögu stórtíðindi. Það er ekki af því, að ekki hafi komið lík mál fyrir þingið áður, heldur af því að þetta er fyrsta skipti, sem ósk hefir komið úr Vestfirðingafjórðungi um slíkt, sem hér ræðir um. Þó að allir hafi verið að biðja um skóla og skóla og aftur skóla, þá hefir samt aldrei heyrst rödd í þessa átt úr Vesturlandi. Að þessu leyti er tillagan algerlega ný.

Eg skal ekki fara neitt út í það að grafast fyrir, hversvegna þessi fjórðungur hafi verið svo þögull, þegar hann er borinn saman við aðra landshluta. En menn kynnu máske að svara því svo, að áhugi á mentamálum væri þar minni en annarstaðar. Getur verið að það hafi verið orsökin. En þegar svo loksins rödd kemur fram um svona stofnun, sem hér er farið fram á, þá sýnist full ástæða til að synja þeirri ósk ekki allrar áheyrnar. Því að hún bendir á að mönnum sé nú orðið það ljóst í Vestfirðingafjórðungi, að brýn þörf sé á aukinni alþýðumentun á Vesturlandi.

Eg skal játa, að það hefir jafnan verið fyrir mér ærið umhugsunarefni að leggja út í að setja á fót stofnanir, sem bökuðu landsjóði mikinn kostnað. Og eg býst við, að háttv. þingmenn, sem hafa unnið með mér áður, viti að eg hefi ávalt verið sá varfærni maður um slíkt.

Eg býst við, að eg tali af meiri þekking á Vesturlandi heldur en flestir aðrir. Og eg tek það fram, að það er meiri þörf á alþýðufræðslu á Vesturlandi en annarstaðar.

Eg veit að mér muni verða svarað því, að fjárveitingarvaldið og löggjafarvaldið hafi gert mikið fyrir landið í heild sinni, til þess að greiða fyrir alþýðu manna að fá einhverja mentun; því að nú eru orðnir 3 gagnfræðaskólar hér á landinu, einn í Reykjavík, annar í Hafnarfirði og þriðji á Akureyri. Eg skal játa, að þeir sem þetta segja, hafa mikið til síns máls. Eg get þá aftur svarað því, að þeir græða langmest á skólunum, sem næstir búa. Eg á ekki með þessu við, að eg vildi hafa gagnfræðaskóla í hverri sýslu, en þykir hinsvegar ekki ósanngjarnt, að Vestfirðingafjórðungur fengi líka sinn skóla, úr því einn er á Norðurlandi og tveir svo að kalla í Reykjavík. Það sjá allir, sem um þetta hugsa, að Vestfirðingafjórðungur er ekki einungis vanræktur, heldur algerlega afskiftur í þessu tilliti.

Eg hefi litið fljótlega eftir því í fjárlagafrumvarpinu, sem liggur fyrir þessu þingi, hvað veitt er til mentamála í öðrum hlutum landsins, og þar sést, að á fjárhagstímabilinu á að veita 7000 kr. hvort árið til kvennaskólans í Reykjavík, og 3500 kr. hvort árið til Flensborgarskólans. Til bændaskólans á Hvanneyri á að veita 6200 kr. og þar að auki 46000 kr. fyrra árið til húsabyggingar. Og loksins á Lýðháskólinn á Hvítárbakka að fá 2100 kr. hvort árið. Það er með öðrum orðum, að ætlast er til, að Suðurland fái hér um bil 83000 kr. yfir fjárhagstímabilið til skóla. Og þó hefi eg slept öllu því, sem veitt er til almenna mentaskólans í Reykjavík, en það er á milli 30 og 40,000 kr., og er hann þó einnig gagnfræðaskóli, sem kemur Suðurlandi að mestum notum. En eg hefi þó ekki talið hann með, því þessi skóli verður víst að álítast vera fyrir allt landið í heild sinni. Taki maður nú Norðurland, þá er fyrst kvennaskólinn á Blönduósi; hann á að fá 4000 Kr. á fjárhagstímabilinu. Til gagnfræðakenslunnar á Akureyri á að veita 25,000 Kr. og bændaskólinn á Hólum á að fá næstum því 40,000 Kr., en þar í er innifalinn kostnaður við skólahússbyggingu.

Eg vildi nú biðja háttv. þingmenn að benda mér á einhverja mentunarstofnun í Vestfirðingafjórðungi. Þar er algerlega autt borð! Nei, það er ætlast til að veittar verði 1500 kr. hvort árið til verklegrar búnaðarkenslu í Ólafsdal. En þær 3000 kr. eru líka alt og sumt, sem Vesturland fær til að mentast fyrir.

Eg vil ekki að háttv. þingdeildarm. skilji þetta frumvarp svo, að eg hafi flutt það af hreppapólitískum ástæðum. Mér hefir ekkert slíkt komið í hug, og það er langt frá að eg öfundist yfir þeim skólastofnunum, sem eru í öðrum landshlutum, en eg get ekki gert að því, að mér finst Vestfirðingafjórðungur vera nokkuð afskiftur.

Sú upphæð, sem veitt er til skóla á Suður- og Norðurlandi, er um hálft annað hundrað þús. kr. En fari maður upp í stjórnarráðið og gæti að, þá má sjá þar, að Ísafjarðarsýsla ein leggur árlega næstum eins mikið af mörkum til landsjóðs, og nemur öllum þessum upphæðum samantöldum. Svo það verður ekki sagt að Vestfirðingar sé slæmir gjaldendur til landsjóðs, þar sem aðeins ein sýsla greiðir alt þetta fé. En það er þá ekki nema eðlilegt að þessi héruð vildu fá að sjá dálítið af mentastraumum landsins veitt til sín.

Þessir skólar, sem eg hefi getið um, eru auðvitað ætlaðir Vestfirðingum eins og hverjum öðrum. En þeir háttv. þm., sem kunnugir eru þessum skólum, vita víst fullkomlega, að skólarnir á Möðruvöllum, Hólum og í Flensborg hafa með mestu naumindum getað fullnægt þeirri aðsókn, sem að þeim hefir orðið og enda orðið að vísa mönnum þráfaldlega burt vegna þrengsla. Mér er ókunnugt um, hvort þetta hefir orðið líka á Akureyri. En það bendir þó á að mentunarlöngun þjóðarinnar sé hvergi nærri fullnægt.

Eg skal taka það fram, að það, sem einmitt gerir aðsóknina að skólunum svo mikla, eru ekki góðar fjárhagsástæður foreldranna, meðan verið er að ala börnin upp og börnin eru á þeirra vegum; það er heldur ekki fræðslulöggjöf landsins. Hér ræðir um alt annað. Það er mentunarþrá æskumannanna sjálfra eftir að þeir fara úr foreldrahúsunum, og þessari þrá fullnægja þeir á þann hátt, að þeir láta sumarvinnuna sína ganga upp í skólavistarkostnað sinn á veturna. Skólavistin fyrir norðan og í Flensborg hefir verið svo ódýr, að piltarnir gátu með sumarkaupi sínu borgað hana. Það er öldungis víst, enda viðurkent af flestum sem vit hafa á, að æskumaðurinn hefir meira gagn af eins árs skólaveru, sé hann ekki því ver undirbúinn frá barnsaldrinum, heldur en drengir geta haft af enda þrem árum innan fermingarinnar.

Það er þessara hluta vegna að gagnfræðaskólarnir hafa verið svo vel sóttir hér á landi; þeir hafa verið svo sniðnir eftir hæfi þjóðarinnar.

Í sambandi við það, sem eg sagði um aðsókn og þrengsli í skólunum, skal eg geta þess, að þó almenni mentaskólinn sé gagnfræðaskóli, þá er hann í raun og veru lokaður fyrir þjóðinni með óhentugum reglugerðarfyrirmælum, og aðeins unglingaskóli fyrir Reykjavík. Í hann eru engir teknir nema á barnsaldri, og það er nóg til að loka honum fyrir öllum þorra landsmanna, þetta veit eg að allir kannast við, eins og líka að landsmenn hika við að senda sonu sína til Reykjavíkur áður en þeir eru fermdir.

Það skiftir miklu, að skólavistin á alþýðuskólunum geti orðið nemendunum sem ódýrust. Þegar Ísafjörður og Reykjavík eru borin saman, hvað snertir kostnað á öllu lífsviðurværi, þá er mér það fyllilega ljóst, að flestar lífsnauðsynjar eru miklum mun ódýrari á Ísafirði en hér í Reykjavík; það má taka t. d. kjöt og fisk og ýmislegt fleira. Mjólk er ef til vill dýrari, en það er þá engin ofætlun ungum mönnum, að lifa mjólkurlausir þann tíma. Á Ísafirði yrði skólinn auðvitað aðallega fyrir Ísfirðinga. En Ísafjörður er þó í mjög tíðu sambandi við mikinn hluta fjórðungsins og íbúar þessara sýslna eiga mjög mikil viðskifti við Ísafjörð, svo það er enginn efi á, að það yrði miklu hægari aðgangur að skólanum á Ísafirði, en t. d. hingað suður eða norður á Akureyri.

Eg veit það með vissu að fjöldi ungra manna, sem vildu komast í skólann, gætu unnið fyrir sér á Ísafirði að sumrinu, og lært að vetrinum, og þyrftu þannig engin ferðalög og þeim fylgjandi kostnað að hafa.

Eg skal ennfremur geta þess, að bæjarstjórnin á Ísafirði hefir í hyggju að byggja stórt hús undir barnaskóla, og mætti hugsa sér, að hún mundi verða fús til að haga þeirri byggingu svo, að hægt yrði að hafa hennar einhver not í sambandi við gagnfræðaskóla. Það er ekki við því að búast, að Ísafjörður taki á sig stóran kostnað fyrir aðrar sýslur eða landshluta.

Eg játa að þetta yrði æði mikill kostnaður fyrir landsjóð, og eg tek það fram á ný, að eg hefi verið og vil vera sá varfærni maður, þegar um útgjöld úr landsjóði er að ræða. Eg vil þessvegna hreint ekki að neitt flýtisverk verði gert á þessu máli, né flanað að því á nokkurn hátt. Þessvegna fer eg ekki fram á að stofnun þessi sé reist á næsta fjárhagstímabili, heldur aðeins undirbúin. Eg mundi ekkert hafa á móti því, að nefnd yrði skipuð í það, þegar umræðunni er lokið.

Eg sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleirum orðum um málið að svo stöddu.