19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

79. mál, gagnfræðaskóli á Ísafirði

Framsögum. (Sigurður Stefánsson):

Við byrjun 1. umr. tók eg það fram, sem styðja mátti þetta mál, og engin af orðum mínum hafa verið hrakin með nokkrum rökum. Eg þarf því engu við að bæta nú um það, að þetta er gott mál og nauðsynjamál til þess að vekja mentalíf á Vesturlandi. En meiri hluti nefndarinnar var þó á því, að fara ekki lengra út í þetta mál að þessu sinni, bæði vegna þess að fjárhagur landsins er þröngur og einkum vegna þess að í bráðina mætti bæta úr þessum tilfinnanlega skorti á mentunarstofnun á Vesturlandi með því að auka fjárstyrk til unglingaskóla á Ísafirði.

Get eg að því leyti verið nefndinni samdóma, að fjárhagur landsins muni nú fyrst um sinn verða ærið þröngur, og því athugavert að stofna til kostnaðarsamra stórfyrirtækja, og með því að meðnefndarmenn mínir hafa heitið því fylgi sínu, að leggja nokkurt fé til aukinnar unglingafræðslu á Ísafirði í sambandi við barnaskólann, þá vildi eg ekki rjúfa nefndina og tek því tillöguna aftur í þeirri von, að þingið styðji fram haldsskólann á Ísafirði með meiru fé en hingað til.