12.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

80. mál, skólabækur

Flutningsm. (Stefán Stefánsson, 6. kgk. þm.):

Tillaga sú, sem hér liggur fyrir og eg hef leyft mér að bera fram fyrir hina háttv. deild, er ekki mikil fyrirferðar á pappírnum. Ýmsum kann og að virðast í fljótu bragði, að hún skifti ekki miklu máli og það standi ekki á miklu hvað um hana verður.

En eg ætla að reyna að leiða rök að því, að hér er um stórmál að ræða, mál, sem hlýtur að hafa hin stórvægilegustu áhrif á þjóðlíf vort og öll þjóðernisþrif á komandi tíð.

Öllum, sem íslenzkt hjarta bera í brjósti, mun koma saman um það, að íslenzkan, tungan sem forfeður vorir hafa talað og ritað um þúsundir ára, — móðurmálið okkar — sé hið langdýrasta, sem við eigum til í eigu okkar, sé það sem gerir oss ríka mitt í fátækt vorri og einstæðingsskap.

Það er tungan eða þeir menn, sem bezt hafa með hana farið, sem varpað hafa frægðarljóma yfir þetta afskekta land og þessa fámennu þjóð.

Það er tungan, sem öllu öðru framar einkennir okkur sem þjóð.

Hún er vort aðalþjóðernismark, sannkallað aðalsmerki vort, og þessu merki verðum vér að halda hátt meðal þjóðanna, annars eru dagar vorir þá og þegar taldir. Þegar ísl. mál hverfur af vörum okkar, þá erum við glataðir sem þjóð, við hverfum þá von bráðar sem dropi í þjóðahafið, því að:

Tungan geymir í tímans straumi

trú og vonir landsins sona,

dauðastunur og dýpstu raunir,

darraðarljóð frá elztu þjóðum;

heiftar eima og ástarbríma,

örlagahljóm og refsidóma,

land og stund í lifandi myndum

ljóði vígðum geymir í sjóði.

En hvernig förum við að ráði okkar; hvernig förum við með þennan dýrgrip, sem á að vera oss öllu hjartfólgnari?

Í byrjun aldarinnar, sem leið var málið komið í hinu mestu niðurlægingu. Þá vöktust upp nokkrir ágætismenn, sem björguðu málinu og um leið bókmentum vorum og þjóðerni. Þeir hreinsuðu úr því útlenda sorann og skiluðu því eftirkomendum sínum sem skíru gulli.

En sú gullöld stóð ekki lengi.

Málið tók að spillast og nú er svo komið að rétt einstöku menn rita hreint mál og fagurt. En hvað veldur þessu?

Hvaðan er þessi spillingaralda runnin?

Eg lái mönnum ekki, þó þeim verði bylt við, þegar eg leyfi mér að fullyrða að þessi spillingaralda eigi að miklu leyti upptök sín í skólunum okkar! — Í skólunum, sem við höfum stofnað og haldið við með miklum kostnaði til þess aðallega að þeir væru gróðrarstíur og vermireitir alls hins bezta og göfugasta með þjóð vorri. Þetta er því furðulegra sem vér höfum átt ágæta menn í kennarastöðum, sem hafa ritað og talað ágætt mál. En við höfum ekki vandað til skólanna sjálfra. Það hefir algerlega vantað íslenzkar kenslubækur í öllum greinum. Þegar synir vorir koma í skóla þá eru réttar að þeim danskar kenslubækur. Öll skólafræði eru fengin þeim í dönskum umbúðum. Jafnvel íslenzk fræði eru kend eftir dönskum bókum; t. d. íslenzk bókmentasaga. Og þetta kendi sá maður, sem einna bezt var að sér í íslenzku máli á allri öldinni, sem leið. Slíkt var tilfinnanlegt og ekki undarlegt, að lærðir menn geta ekki talað eða ritað nema með dönskukeim; auðvitað eru undantekningar frá þessu.

Nú á 20. öld vantar íslenzkar bækur í hér um bil öllum fræðigreinum, sem kendar eru við skólana.

Það er öllum ljóst, hvað þetta er óheppilegt. Löggjafarvaldið hefir heldur ekki lokað augunum fyrir því. Síðan 1895 hafa verið veittar 600 kr. á ári til þess að semja og gefa út kenslubækur. En þessi styrkveiting hefir ekki komið að fullum notum. Af þeim 8400 sem veittar hafa verið á fjárlögunum hafa að eins tæpar 1000 kr. verið notaðar. Þetta stafar af tvennu. Í fyrsta lagi er féð of lítið. því að það er vandaverk að semja kenslubækur og þá er ekki von að menn gjöri það, þegar þeir eiga það óvíst, hvort þeir muni geta gefið bækurnar út og fengið þó dálítið fyrir vinnu sína. Í öðru lagi hefir enginn verið til að sjá um þetta. Það hefir engin verið til þess að fá menn til þess að semja kenslubækur og síðan annast um að þær yrðu gefnar út.

Á þessu á þessi tillaga, sem eg hef leyft mér að flytja hér á þinginu að ráða bót.

Eg hef hugsað mér fyrirkomulagið á leið að skipuð yrði nefnd, sem svo íhugaði hvaða bækur ætti að gefa út. Þessi nefnd ætti svo að snúa sér til þeirra manna, sem hún áliti færa til starfsins, og fá þá til að semja kenslubókina. þegar bókarhöfundurinn hefði lokið starfi sínu, ætti hann að senda bókina til nefndarinnar, sem svo gerði sínar athugasemdir og ef eitthvað þætti ábótavant, mætti senda höfundi bókina aftur til þess að laga misfellurnar. Þegar bókin væri búin að ganga gegnum þennan hreinsunareld, ætti nefndin að útvega útgefanda að henni.

Þetta mundi auðvitað hafa nokkurn kostnað í för með sér og ætti sá kostnaður að sjálfsögðu að greiðast af fé því, sem veitt yrði af landsjóði til útgáfu kenslubóka. Nefndin ætlast eg til að haldi starfi sínu áfram, þangað til allar kenslubækur væru fengnar fyrir hina æðri alm. mentaskóla vora. Þeir menn, sem kæmust í þessa nefnd, yrðu að vera smekkvísir og umfram alt gæta þess, að gott mál væri á bókunum. Á seinni tímum hafa komið út ýmsar kenslubækur hér á landi, en aðalgallinn hefir æfinlega verið sá hve mál hefir verið vont á þeim. Og íslenzk kenslubók á vondu máli er verri en dönsk bók. Því að unglingum dettur ekki í hug að læra útlendar bækur utanbókar, en það er öðru máli að gegna um það sem ritað er á íslenzku. Þar geta oft langir kaflar fest sig ósjálfrátt í hug þeirra og þá læra þeir málgallana og vitleysurnar um leið.

Ef menn ekki vilja sinna þessu, og geta horft á það afskiftalausir að tunga vor spillist og glatist, tel eg alt tal okkar um sjálfstæði orð — orð innantóm og hégómann einberan.