25.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

80. mál, skólabækur

Framsögum. (Stefán Stefánsson, 6. kgk. þm.):

Eg leitaðist við, þá er mál þetta var til umræðu hér í deildinni á dögunum, að færa rök að því, að hér væri um nauðsynjamál að ræða, og skal eg ekki endurtaka ástæður þær, er eg taldi þá. Eg get því verið stuttorður að þessu sinni. Svo sem háttv. deildarmenn sjá af nefndarálitinu, er tillaga nefndarinnar nokkru víðtækari en hin upprunalega var. Tilgangur minn með tillögunni var, að reyna að bæta úr hinum tilfinnanlega skorti, sem nú er, á hentugum kenslubókum fyrir hina æðri almennu mentaskóla. En eftir tillögu eins nefndarmanns hefir nefndin bætt því við tillöguna, að kenslubókanefnd þessi skuli og hafa eftirlit með útgáfu kenslubóka fyrir barna- og unglingaskóla. Eg var nokkuð hikandi við að víkka þannig starfssvið nefndarinnar, því að bæði gat eg hugsað, að tillagan myndi þá eiga örðugra uppdráttar hér á þingi, og jafnframt myndi það draga úr framkvæmdum nefndarinnar að því er æðri skólana snertir, ef störf hennar yrðu þannig aukin, en eigi að síður félst eg á viðbótina, þar sem mér var það ljóst, að mikil bót er að því að láta slíkar bækur ganga í gegnum góðra manna hendur. Með því að löggilda þær einar bækur fyrir lægri skólana, er nefndin legði til að löggiltar yrðu væri og trygging fengin fyrir því, að þar væru ávalt notaðar hinar beztu kenslubækur, sem völ væri á í landinu. En þar sem mér er kunnugt um, að sumir eru mótfallnir þessari viðbótartillögu, tel eg réttast að tillagan sé borin upp í tvennu lagi, og vildi eg leyfa mér að benda hæstv. forseta á það.

Nefndin hefir ekki gert ráð fyrir neinni sérstakri borgun fyrir starf nefndar þessarar. Hún áleit að hér gæti aðeins verið um dálitla þóknun að ræða, eitthvað víst fyrir örkina, t. d. líkt og fyrir prófarkalestur. Aðalstörf bókanefndar þessarar yrðu: að ákveða, hvaða bækur skuli rita, að útvega menn til þess að rita bækurnar, að yfirfara og laga handritin, og að sjá um að bækurnar yrðu gefnar út. Fyrir þetta þyrftu nefndarmenn ekki að fá há laun, og borgunina gætu þeir fengið af fé því sem veitt er til útgáfu skólabóka. Í nefndinni ættu og að sjálfsögðu að eiga sæti áhugasamir skólamenn, er vildu vinna starf þetta, þótt lítið væri fyrir það borgað. Nefndarskipun þessi þyrfti því ekki að hafa mikil fjárútlát fyrir landsjóð í för með sér. Eg vona því að tillagan verði samþykt, að minsta kosti 1. liðurinn.