22.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

81. mál, unglingaskólar

Framsögum. (Sigurður Stefánsson):

Það er alls eigi meiningin, eins og virtist vaka fyrir háttv. 5. kgk. þm., að landsjóður fari að kosta neinu til húsbygginga við þessa skóla, heldur að eins að koma til móts við óskir landsmanna með styrk til kenslunnar. Eg álít það beina skyldu fjárveitingarvaldsins að hafa hönd í bagga með stjórn þeirra stofnana, er styrktar eru með fjárframlögum úr landsjóði. Sjálfsagt, eins og háttv. þm. sagði, að hafa skóla þessa sem framhaldskenslu af barnaskólunum, þar sem því verður við komið, en þannig er ekki ástatt alstaðar, að slíkt sé hægt, t. d í strjálbygðum héruðum, þar sem engir barnaskólar eru. Öðru máli er að gegna í kaupstöðum. Á Ísafirði er hið nýja barnaskólahús einmitt bygt með það fyrir augum, að það líka geti rúmað slíkan unglingaskóla. En sú hefir orðið reynslan þar, að aðsóknin að unglingaskólanum hefir orðið meiri en svo, að bæjarfélagið hafi getað risið undir kostnaði þeim bæði til húspláss og kenslukrafta, er af skóla þessum leiddi. Skólann hafa ekki einungis sótt unglingar úr kaupstaðnum sjálfum, heldur líka bæði úr vestur- og norðursýslunni, og jafnvel víðar að. Annars liggur Ísafjarðarskólinn ekki fyrir til umræðu nú, en eg fæ vonandi tækifæri til þess að minnast á hann við umræður fjárlaganna hér í deildinni.