15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

82. mál, póstafgreiðsla í Vík

Lárus H. Bjarnason:

Mér skilst svo, sem Víkurmönnum megi standa á sama um það, á hvern hátt þeir fá þær umbætur á póstgöngunum, sem hér er farið fram á, hvort þeir fá póstafgreiðsluna með þingsályktunartillögu eða með viðaukatillögu á fjárlögunum, — og eg vil styrkja háttv. þm. V.-Sk. til þess að hann fái póstafgreiðslu í Vík. Mér virðist það sanngjarnt, þegar litið er til þess, hvað Vestur Skaftafellssýsla er langt úr leið. En eg vil því að eins hjálpa honum til þess, að hann fari vanalega leið. Því vil eg stinga upp á því við hann, að hann taki nú málið út af dagskrá, og snúi sér í staðinn til fjárlaganefndarinnar. Vilji fjárlaganefndin ekki sinna málaleitun hans, skal hann fá mitt atkvæði, hverja leið sem hann þá fer, hvort heldur hann tekur þá tillöguna upp aftur eða ber fram viðaukatillögu við fjárlögin.