12.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

83. mál, verslunarlöggjöf

Flutningsmaður (Sig. Stefánsson):

Eg játa það, að þó eg komi fram með þessa tillögu, brestur mig næga þekking á þessu máli og ýmislegt annað, sem þarf til þess að skýra það svo sem því hæfir.

Eg held að allir, sem athuga verzlunarlöggjöf vora, hljóti að viðurkenna, að þessum málum er komið í óvænt efni. Aðalundirstaðan undir verzlunarlöggjöf vorri er tilskipunin 1854. En ýms lög áhrærandi þetta mál eru síðar út komin, án þess að fylgt hafi verið nokkurri fastri stefnu eða meginreglu. Nú er margt af þessum eldri fyrirmælum orðið úrelt og á eftir tímanum. Þetta er kunnugra en frá þurfi að segja.

Það er eitt atriði, sem altaf hefir verið á dagskrá alþingis, en það er um réttindi hérlendra kaupmanna gagnvart útlendum kaupmönnum. Það hefir komið fram í ýmsum myndum, en hefir þó ekki hlotið staðfestingu konungs. Þetta er allflestum þingm. ljóst, og því rétt að taka þetta nú til rækilegrar athugunar.

Ef við lítum á verzlunarlöggjöf vora og berum hana saman við verzlunarlöggjöf nágrannaþjóða vorra, þá sést að margt er ábótavant hjá oss; margt vantar, sem aðrar þjóðir telja nauðsynlegt, t. d. búsetu hérlendra kaupmanna, skilyrði til að öðlast verzlunarleyfi o. s. frv. Ýmist vantar ákvæði hjá oss, eða þau ákvæði sem eru, eru miður heppileg. Eg hygg að flestir muni líta svo á, að þó Ísland liggi langt í burtu frá öðrum mentalöndum, þá geti þó gilt hér ýms sömu meginákvæði í verzlunarlöggjöfinni og hjá nágrannaþjóðunum.

Eg hefi reynt að afla mér upplýsinga um verzlunarlöggjöf nágrannaþjóða vorra, og get ekki betur séð en við að ýmsu leyti gætum farið að dæmi þeirra, og lagað vora löggjöf hér að lútandi, auðvitað með tilliti til þess sem sérstaklegt er hjá oss. Í Noregi má enginn reka verzlun á fleirum en einum stað. Hér eru engin höft á því að reka verzlun á fleiri stöðum en einum. Hér gæti því komið til mála að fara að dæmi Norðmanna, þegar þess er gætt, að meira að segja utanríkiskaupmenn þenja sig út yfir meiri hluta landsins og reka stórverzlun í mörgum kauptúnum. Það er auðvitað ekkert á móti því, að útlent auðmagn komist inn í landið, ef reistar eru góðar skorður við að útlendir auðkýfingar fái of mikil tök á landinu og lami alla samkepni. Í Noregi er verzlunarleyfi fastakaupmanna í kaupstöðum bundið við búsetu í kaupstaðnum. Verzlunarleyfi hjá okkur er mjög auðfengið, en eg held að það væri ekkert haft á atvinnufrelsi, þó sá vegur væri gerður nokkuð torveldari. Þessi greiði aðgangur fyrir menn til þess að fá verzlunarleyfi, hefir ekki orðið til þess að bæta verzlun vora eða orðið þjóðinni til gagns; það hefir þvert á móti orðið til tjóns. Eg heyri að lánstraust íslenzkra kaupmanna í útlöndum sé mjög að þrotum komið, og hvers vegna og hverra? Þeirra, sem hafa þotið upp á síðari árum eins og mý á mykjuskán, án þess að hafa nokkra kunnáttu eða þekkingu á verzlunarmálum. Ef erfiðara hefði verið að fá verzlunarleyfi, þá er víst að það hefði dregið úr fjölgun kaupmanna, og ástandið væri þá ekki eins óttalegt, eins og nú er raun á orðin. Það heyrist oft að það sé gott að kaupmenn séu margir. Það er mikið rétt, ef það verður til þess að skapa góða og trygga samkepni. En þó að kaupmaður hangi við verzlun eitt ár, skapar það ekki eðlilega samkepni, og því síður varanlega, því að þegar hann er dottinn úr sögunni; kemur afturkippur á eftir. Það er leiðinlegt að lesa það í erlendum blöðum, hvílíkt óorð er komið á íslenzka verzlunarstétt; það er þó ekki að undra, þar sem kaupmenn hafa risið upp hver um annan þveran, mentunarlausir og þekkingarlausir og félausir. Verzlun þeirra margra hefir orðið mörgum góðum manni til stórtjóns og íslenzku verzlunarstéttinni til vanheiðurs, en engum til uppbyggingar.

Í Danmörku er það skilyrði fyrir því að öðlast verzlunarleyfi, að hafa fæðingjarétt og hafa unnið heiðarlega fyrir sér í 5 undanfarin ár. Hér þurfa þeir ekki að hafa verið eitt ár og hvað þá heldur unnið heiðarlega fyrir sér. Í Danmörku verða menn líka að vera búsettir í kaupstaðnum, ef þeir reka verzlun í búðum. Í Svíþjóð er fæðingjaréttur skilyrði fyrir verzlunarleyfi, en útlendingar þurfa konunglegt leyfisbréf. Í þessu efni standa meira að segja Færeyingar oss miklu framar. Kaupmenn er þar verzla verða að vera þar búsettir, 25 ára að aldri, og hafa óflekkað mannorð.

Allt þetta vantar í löggjöf vora.

Samkvæmt lögum 7. nóv. 1879, 5. gr., er hverjum búanda heimilt, er sýslunefnd telur til þess hæfan, að verzla með allan varning, nema vínföng og áfenga drykki, ef hann leysir leyfisbréf og greiðir 50 kr. fyrir. Meining þessa ákvæðis var sú, að létta undir með bændum meðan kaupstaðir voru fáir og langt til þeirra. En um leið og það átti að bæta úr þörfinni, var það auðvitað tilætlunin, að góðum bændum, er vel kynnu með þetta að fara, væri aðeins veitt þetta leyfi. En nú á síðustu árum hefir svo að segja hver leppalúðinn fengið þetta leyfi, þótt hann væri ekki skrifandi eða bænabókarfær. Auðvitað má segja það hart og ófrjálslegt að setja ströng lög, sem hefta atvinnufrelsi manna, en samt sem áður er það skylda löggjafarvaldsins, þegar reynslan mælir með því, að athuga hvort ekki sé rétt að breyta þannig löguðum ákvæðum, er valda miklu ógagni. Mér er það kunnugt, að til eru margir sveitakaupmenn, er hvorki hafa unnið sjálfum sér eða bygðarlaginu minsta gagn með verzlun sinni.

Alt of auðfenginn réttur til að verzla getur komið í bága við það, að kaupmenn séu heiðarlegir og mentaðir menn, er geti orðið landi sínu til gagns.

Eg hefi oft áður flutt frumv. um búsetu fastakaupmanna, og er sannfærður um að ákvæði í þá átt gætu að mörgu leyti orðið til góðs fyrir þjóðina.

Búsetufrumvörp undanfarinna þinga hafa einkum miðað að því, að útrýma dönskum selstöðuverzlunum hér á landi, en nú eru það ekki einungis dönsku selstöðuverzlanirnar, sem reisa þarf rönd við, heldur þyrfti að finna ráð við því að utanríkis auðkýfingar þyrptust hingað og verzluðu hér með leppum, en flyttu mest allan arðinn af verzlun sinni til annara landa. Það er ekki af því að mér sé illa við að fá útlent auðmagn inn í landið, heldur hitt, að eg vil að landið hafi meiri not af útlendu fé, sem verzlun er hér rekin með, en nú er. En þó að þetta mál væri sett í milliþinganefnd, eða stjórninni falið að semja slík lög, sem tillaga mín fer fram á, þá dylst mér ekki að það er mikið verk, sem ekki er hægt að leysa af hendi á skömmum tíma. Það er auðsætt, að stjórnin þyrfti að fá færa menn sér til aðstoðar við undirbúning slíkra laga, og sú aðstoð kostaði fé.

Þótt eg ekki hafi borið fram tillögu um milliþinganefnd í þessu máli, skyldi eg ekkert hafa á mót því að hv. Nd. breytti þingsályktunartillögu þessari í það form, verði hún afgreidd héðan sem eg vona.