12.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

83. mál, verslunarlöggjöf

Ágúst Flygenring:

Eg get tekið í sama strenginn sem háttv. 5. kgk. þm. um það að tími sé kominn til að draga saman öll ákvæðin í eitt, þau ákvæði er snerta verzlun okkar og líka siglingar, og þá um leið bæta þau og auka einkum að því er snertir þau atriði er hann mintist á.

Háttv. flutningsmaður fann það að lögunum frá 7. nóv. 1879 að þau hafi komið að litlu gagni, þar sem hver maður sem vildi hafi ávalt fengið verzlunarleyfi, án þess að nokkur trygging hafi verið fyrir ráðvendni hans og dugnaði o. s. frv. En eg veit ekki betur en að þingið hafi gefið tilefni til að hafa alt slíkt sem frjálsast; það hefir t. d. örsjaldan neitað um löggildingar nýrra verzlunarstaða, þó sýnilegt hafi verið að slíkir staðir hafi verið óhæfilegir. Það hefir vakað fyrir flestum að bezt væri að sem flestir verzluðu, til þess að samkepnin yrði sem mest. Að því hefir verið róið öllum árum, reyndar alveg út í bláinn.

Nú er verið að tala um háskann af útlendum verzlunum og hlutafélögum. En síðustu 10—12 árin hafa útl. verzlunarhlutafélög sannarlega ekki sogið mikið gull út úr Íslandi. Menn slá því fram, að þau séu hér til að draga fé út úr landinu, og auðvitað er það meiningin fyrir þeim að fá vexti af því fé sem þau starfa með, en þeim hefir nú ekki tekist það. Þau hafa þvert á móti orðið að skilja allmikið eftir hér í byggingum og þessl. þegar þau hafa hætt, og það er vitanlegt að þau hafa öll tapað hér stórfé. Hvað búsetu fastakaupmanna snertir, þá væri Ísland nú að öllum líkindum mikið fátækara, ef búseta kaupmanna hefði verið lögleidd hér fyrir nokkrum árum.

Eg er að vissu leyti samdóma háttv. flutningsmanni um það að leppmenska sé óheppileg. En það er mjög örðugt að gera við henni og koma í veg fyrir hana. Til þess það sé hægt þarf þjóðin eftir hans meiningu að komast á hátt siðferðislegt stig, en sem eg hefi litla von um að náist meðan við lifum. Hvernig er annars þessu varið hjá öðrum þjóðum, sem standa ofar í menningarstiganum? T. d. má geta þess hvað skip snertir, að Englendingar og Norðmenn o. fl. færa upp í »statistik«, hve mörg skip þeir eigi undir »framandi« flaggi, og er það alls ekki álitið ósiðferðislegt hjá þessum þjóðum. Eg verð annars að telja þetta leppmenskuhjal barnaskap.

Eins og eg tók fram get eg verið háttv. flutningsmanni og háttv. 5. kgk. þm. samdóma um það, að nauðsynlegt sé, að fá ýms ný ákvæði til viðbótar inn í verzlunarlöggjöf vora um leið og »kodificerað« er þetta sem til er. En eg get ekki talið rétt að fela stjórninni að sjá um það. Hún kemst ekki með nokkru móti yfir alt sem henni er falið með öllum þeim sæg af þingsályktunartillögum, sem rignt hafa niður á þessu þingi, og þó hún fengi styrk til að útvega sér aðstoð sérfróðra manna, þá gef eg lítið fyrir það; þeir hafa, þeir fáu sérfróðu, sjálfir venjulega nóg að gjöra og mega ekki sjá af miklum tíma til annara starfa en sinu eigin.