16.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

84. mál, skoðun á síld

Framsögum. (Ágúst Flygenring):

Eg hefi litlu við að bæta nefndarálitið um frumv. til laga um skoðun á síld, þingskj. 168. Eins og háttv. deildarmenn sjá þar, hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu, í samráði við flutningsmann frumvarpsins, að hann taki frumv. aftur. Meiri hluti nefndarinnar áleit það óframkvæmanlegt að meta alla síld, sem flutt er héðan af landi; og alls ekki víst að gagnið yrði samsvarandi þeim mikla kostnaði, sem af matinu hlýtur að leiða. Hins vegar vildi nefndin þó taka tillit til óska manna í þessu efni, og áleit æskilegt að reynsla fengist fyrir því, hver áhrif síldarmat mundi geta haft á markað þeirrar vöru. Því leggur nefndin til að mat á síld verði frjálst fyrst um sinn, og að veitt verði fé á fjárlögunum til tveggja yfirmatsmanna norðanlands, er hefðu yfirumsjón og eftirlit með síldarmati.

Mat á útfluttum fiski hefir reynst svo vel hér sunnanlands, að það er nú talið nauðsynlegt. Það hefir haft þann hagnað í för með sér, að það hefir verið hægt að selja fiskinn fyrir fram eftir matsvottorði. — Hvort þetta gæti orðið eins um síld, er vafasamt. En þó svo væri ekki, kann vel að vera að síldarmatið næði þó tilgangi sínum, ef það yrði til þess, að síldin fengi betra verð á útlendum markaði.

Hér er um mikilsvarðandi atvinnuveg að ræða, sem vert er að hlynna að. Bæði hefir landsjóður tekjur af honum og einstakir menn, og verkafólk sömuleiðis. því álítur nefndin rétt, að þeim sem þess óska gefist kostur á að fá síld sína metna af yfirmatsmönnum, sem jafnframt væru í einu orði sagt nokkurs konar ráðunautar í þessum efnum.

Stjórnin gefur þessum yfirmatsmönnum erindisbréf, og er þá búist við að hún taki til greina óskir þær, er kynnu að koma fram frá þeim, er hlut eiga að máli.

Skyldumat er óframkvæmanlegt og óvíst að hve miklu gagni það kæmi. En eg vona að tilganginum verði náð á þennan hátt og að þetta sé heppilegri leið en að taka stórt stökk alt í einu. Einkum þegar þess er gætt, að skyldumat gæti haft voðaleg óþægindi, töf og skaða í för með sér fyrir útvegsmenn, þegar illa stendur á.

Af þessum ástæðum mæli eg með því, að háttvirt deild samþykki tillöguna.