23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

3. mál, fjáraukalög 1906 og 1907

Steingrímur Jónsson:

Eg á 3 breytingartillögur við þetta frumv. og vil leyfa mér að mæla með þeim nokkur orð.

Fyrst er breyt.till. við 7. gr. 1. lið. Það er að eins orðabreyting, sem eg vona að háttv. deildarmenn verði mér samdóma um að sé til bóta. Mér þykir fara betur, að liðurinn verði orðaður: »Fyrir gullkranz á kistu Christians konungs IX.« o. s. frv.

En þá eru breytingartillögumar við 11. gr. Það eru verulegar efnisbreytingar, og eru faldar í því, að reikningsábyrgð á manntalsbókarreikningi Skaftafellssýslu falli niður árin 1906 og 1907, í stað 1906 að eins, og að upphæðin hækki jafnframt úr kr. 312,65 í kr. 460,98.

Stjórnin hefir lagt til, að ábyrgðarupphæðin, kr. 312,65, væri gefin upp fyrverandi sýslumanni í Skaftafellssýslu fyrir árið 1906. En nú vill sami sýslumaður einnig fá uppgjöf fyrir árið 1907. — Ástæðan til þessa er sú, að þegar sýslumaður kom sjálfur til sýslunnar, eftir að honum hafði verið veitt hún og annar hafði þjónað embættinu um tíma fyrir hans hönd, þá var sá maður búinn að reikna út manntalsbókargjöldin, en hafði farið eftir rangri verðlagsskrá, þeirri, sem þá var í gildi þegar útreiknað var. Stjórnin gerði athugasemd út af þessu, og sýslumaður svaraði því svo, að þetta hefði verið reglan í Skaftafellssýslu. En svo kom svar stjórnarinnar ekki aftur fyr en um seinan, þegar sýslumaður var búinn að innheimta manntalsbókargjöldin eftir röngum útreikningi aftur fyrir árið 1907. Það má því segja, að sýslumaður hafi haft nokkra afsökun, og sýnist eins mikil ástæða til að láta ábyrgðina falla niður fyrir árið 1907, sem næsta ár á undan, því að síðari villan stafaði af þeirri fyrri.

Eg þarf víst ekki að skýra þetta atriði frekar og legg það á vald háttv. deildar.