03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

86. mál, Landsbankarannsókn

Ráðherra (B. J.):

Því brá mér sízt vara fyrir, að háttv. þm. sá, sem nú settist (2. kgk. þm.), og eg tel mér sæmd í að hafa átt fyrir kunningja í meira en heilan mannsaldur, færi að svara mér út í hött. Eg hafði aldrei talað um að reikningar bankans kæmu seint; það sem eg sagði var, að hann hefði aldrei í 5 ár verið lagður undir úrskurð og kvittun landstjórnarinnar. Og það hefir verið vanrækt í samfleytt 5 ár. Það er engin hviksaga. Það hefir oft borið við áður, að við reikninginn hafa verið gjörðar miklar athugasemdir, er hafa verið síðan úrskurðaðar af stjórn landsins og hún eftir það kvittað fyrir reikningsskilin. Þetta er mjög mikil tryggingarráðstöfun og sízt þarflaus, þrátt fyrir endurskoðunina. Það sem sami ræðumaður sagði um gjörðabókina, kemur nákvæmlega heim við það, sem eg sagði áðan, að bankastjórnin geri ekki annað en pára í vasabók eða kompu (með blýant?) lánsloforð þau, er hún gefur, og þar með búið, — eða hefir gert það síðari árin, en engin regluleg gjörðabók er haldin, og er þó talað um hana í 8. gr. reglugjörðarinnar frá 1894. Því fer fjarri, að eg hafi nokkru sinni sagt, að bankastjórnin hafi sjálf vakið þennan þys, sem orðið hefir út af rannsóknar ráðstöfun minni; eg talaði um starfsmenn bankans, en ekki stjórn hans. Eg geri ráð fyrir að sá er eg veit glegst um, að hafði sig frammi um þetta, hafi gert það af sjálfs sín hvötum, en ekki að hann hafi verið gerður út til þess af bankastjórninni; það væri aðdróttun, sem mér dettur ekki í hug að koma með. En þegar bankamaður hefst þetta í að, þá er ekki furða, þó það vekti eftirtekt; einkanlega þar sem það var í starfstíma bankans.

Svar fyrirspyrjanda um 35,000 króna lánið var sömuleiðis alveg út í hött, því þar var ekki mér að svara; eg sagði aldrei, að bankinn hefði gert þetta, sem á hann var borið, heldur að hávirðulegur fyrirspyrjandi hefði flutt eða látið flytja þá sögu í blaði sínu. En þegar slíkar sögur ganga, og það í málgagni hávirðulegs konungkjörins þingmanns, þá er ekki ólíklegt að einhverjir kunni að hugsa, að sé þetta svo, þá geti einnig dæmin verið fleiri þessu lík.

Að bankastjórnin kemur með þessa auglýsingu sína á 4. degi, gerir ekki annað en sanna mitt mál, því hefði henni þótt gjörðir stjórnarinnar geta orðið hættu valdandi, þá hefði hún auðvitað átt að senda auglýsinguna út á fyrsta degi.