03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

86. mál, Landsbankarannsókn

Lárus H. Bjarnason:

Hæstv. ráðherra var að orða mig við »Reykjavík«, kallaði hana mitt blað og svo frv. Þó að einu gildi, hvaðan gott kemur, get eg þó sagt honum og háttv. þm. Akureyrar, sem var að burðast með eitthvað líkt, að eg á að eins eina aktíu eða 25 kr. í blaðinu, en er hinsvegar einn af 3 mönnum í stjórn hlutafélagsins, er eftirlit hefir með útgáfu blaðsins. Blaðbrennuna, sem þm. Ak. mintist á, hef eg ekki heyrt getið um fyr. Að öðru leyti er ekki ástæða til að svara hæstv. ráðherra. Hann hefir í dag oftast nær talað um alt annað en mál það, er fyrir lá. Framkoma hans er alveg eins og manns, sem átt hefði að tala um mynd, en í þess stað hefði talað um rammann. Eg hef meðal annars með tilvitnunum í opinber blöð, í reikninga bankans og í skýlaus lög, fært sönnur á mál mitt.

Hæstv. ráðherra þykist aftur og aftur réttlæta þessa óvæntu ráðstöfun, sem háttv. þm. Ísf. játar, »að skiftar skoðanir séu um í meiri hlutanum«, með því að bankastjórnin hafi enga gjörðabók haldið, að ársreikningar bankans hafi ekki verið lagðir undir úrskurð landstjórnarinnar, að byggingarreikningur bankans hafi ekki verið úrskurðaður, og að eitt lán hafi verið veitt án nægrar tryggingar, en þessar ástæður eru, eins og eg er búinn að sýna og sanna, allsendis ófullnægjandi til þess að setja bankann undir opinbera rannsókn, enda stjórninni innan handar að afla sér nægilegra upplýsinga um þetta efni án slíkrar rannsóknar.

Hæstv. ráðherra var að tala um, að eitthvert aðskotadýr hefði skrifað byggingarreikning bankans, eins og það standi ekki á sama, hver reikninginn skrifar; bankastjórnin ber ábyrgð á honum, hver sem það gerir, alveg eins og hæstv. ráðherra ber ábyrgð á nefndarsetningunni, þó að hún eigi að vera skrifuð á Ísafoldarskrifstofu. Eg endurtek það, að það er fult eins mikil ástæða til að líta eftir Íslandsbanka eins og Landsbankanum, þó að hæstv. ráðherra vilji ekki við það kannast, því að Íslandsbanki hefir rétt til þess að gefa út innleysanlega seðla, hann ávaxtar mikið sparisjóðsfé, og hefir rétt til að gefa út bankavaxtabréf fyrir margar miljónir. Hæstv. ráðherra hefir borið ýmsar dylgjur á bankastjórnina, eins fyrir því, þó hann hafi verið að slá úr í öðru orðinu, en það kemur ekki mál við mig. Þó get eg ekki stilt mig um að dá hæstv. forseta upphátt — eg hefi oft dáð hann, en þó aldrei eins og í dag — fyrir það, með hvað miklu jafnaðargeði hann tekur öllum þeim dylgjum, sem hér er beint að banka hans og stjórn bankans. Að vilja réttlæta þessa óforsvaranlegu ráðstöfun, eins og hæstv. ráðherra gerði, með því, að það sé hugsanlegt, að eitthvað sé athugavert, er á borð við það, ef bæjarfógetinn í Reykjavík færi inn á heiðarlegustu heimili, og gerði þar heimilisrannsókn, og réttlætti svo rannsóknina á eftir með því, að hugsanlegt væri, að einhver af heimilisfólkinu hefði stolið. Hæstv. ráðherra kvaðst, þá er tilrætt var um mál þetta í Nd., ekki vera við því búinn að svara; fyrir því var ráðstöfun hans ekki þá þegar fordæmd. En nú, þegar hann hefir haft marga daga til að hugsa um málið og undirbúa sig, og getur þó eigi fært sér fleira eða meira til afsökunar, en hann hefir gert hér í dag, þá sýnir það einmitt bezt hve þarflaus og óforsvaranleg þessi ráðstöfun er. Háttv. þm. Ísf. sagði, að engin hætta stafaði af ráðstöfun þessari úr þessu, en þó svo væri, þá er ekki ástæða fyrir meiri hlutann til þess að styðja að því, að ráðherrann haldi lengra á slíkri braut, því að hún er hættuleg, ekki aðeins fyrir landið, heldur og fyrir meirihlutann og stjórn hans, sem sumstaðar virðist standa hærra verði en alt annað, og það er aðeins fyrir þá sök, að margir góðir menn bæði í meiri og minni hlutanum hafa lagst á eitt til þess að leitast við að friða hugi manna, að voðanum hefir orðið afstýrt að þessu sinni. Því er það fráleitara en flest annað, sem sagt hefir verið hér í deildinni í dag, að eg sé að gjöra þetta mál að flokksmáli með dagskránni. Það er ekkert flokksbragð að þeirri dagskrá. Meiri hlutinn getur samþykt hana eins og minni hlutinn. En það er eitthvað annað bragð að hinni dagskránni. Þá fyrst, er hún er samþykt, er málið orðið að flokksmáli. Hinsvegar er það satt, sem sami háttv. þm. sagði, að hæstv. ráðherra hefir ekki beint játað það, að hann hafi séð sig um hönd, en hann hefir gert það óbeinlínis og átakanlegar en með orðum með ráðstöfunum sínum eftir á, og fyrir það á hann lof skilið. Raunar væri það enn lofsverðara, ef hann vildi gangast beint við því, eins og góður drengur, að óheppilega hefði til tekist, og lofsverðast, ef hann vildi lofa því eins og góðu börnin, að gera aldrei neitt slíkt aftur.