03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

86. mál, Landsbankarannsókn

Lárus H. Bjarnason:

Nú held eg að hæstv. ráðherra sé farinn að tala »ósjálfrátt« þar sem hann segir, að minni hlutinn hafi verið farinn að kveikja uppþot út af ráðstöfunum hans, tveim dögum áður en »Reykjavíkur«-blaðið kom út, með öðrum orðum, við eigum að hafa verið farnir að nota vopnið á móti honum, áður en hann var búinn að búa vopnið til, því að eins og allir vita, varð nefndarskipunin ekki til fyr en hinn 26. f. m. að kveldi.

Annars vil eg leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra, hvort það sé satt, að að þessu máli hafi verið hreyft á flokksfundi meirihlutans 27. f. m. og ráðherra fengið þar bágt fyrir og hefir þá líklega yfirlýsing hans í Nd. 28. f. m. verið árangurinn af þeim fundi. Ef svo er, þá kemur þar til enn eitt atvikið meðal margra áður talinna, sem sýnir það, að þetta er ekki flokksmál. Og þá er það, eins og eg hefi sagt, líka meðfram meiri hlutanum að þakka, að ekki varð meira úr hættu þeirri, sem vofði yfir bankanum fyrir aðgerðir hæstv. ráðherra.

Það er svo fráleitt sem mest má verða, að minni hlutinn hafi viljað æsa menn upp á móti bankanum, að það var þegar afráðið, að vér skyldum gjöra alt sem í voru valdi stæði til að draga úr hættunni.

Ef vér hefðum viljað nota rannsóknarskipunina sem bitvopn á hæstv. ráðherra og meirihlutann, þá hefðum vér náttúrlega fyrst af öllu símað fregnina til útlanda, en það hefir jafnvel hvorki hæstv. ráðherra né háttv. þm. Ak. borið oss á brýn. Hæstv. ráðherra má ekki dæma núverandi minnihluta eftir fyrverandi minnihluta.