17.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ráðherrann (H. H.):

Í fjárl.frv. þessu eru tekjur landsins áætlaðar 2,612,530 kr. á fjárhagstímabilinu 1910—11, og er það 311 þús. kr. lægra, en tekjurnar reyndust 1908—9, og um 100 þús. kr. lægra en reyndist 1906—7. Gjöldin eru áætluð 2961004 kr., og því gert ráð fyrir um 348 þús. kr. tekjuhalla. En þann tekjuhalla er gert ráð fyrir, að jafna með bráðabirgðarhækkun á aðflutningsgjaldi, sem annað frv. stjórnarinnar hljóðar um, og þyrfti jafnvel eigi á neinni slíkri hækkun að halda, ef treysta mætti því, að tekjurnar færu eins fram úr áætluninni, eins og þær hafa gert undanfarin 4 ár. En jafnvel þótt tekjurnar séu í þessu frumv. svo varlega áætlaðar, að t. d. aðflutningsgjald er sett um 146 þús. kr. lægra, heldur en búast mætti við eftir meðaltali 3 síðustu ára, þá hefir ekki þótt undir því eigandi.

Þessi áætlaði tekjuhalli stafar engan veginn eingöngu af framkvæmd nýrra fyrirtækja, heldur af vaxandi árlegum kostnaði til landsþarfa, þarfa, sem hljóta að vaxa með vaxandi menningarviðleitni. Sérstaklega hefir aukist mjög kostnaður til mentamála, en einnig önnur gjöld hafa aukist mjög á síðari árum, svo sem ljóst má sjá á töflu þeirri, sem prentuð er í athugasemdunum við tollhækkunarfrumv., og sýnir samanburð á gjöldum landsjóðs eftir fjárlögunum fyrir þau fjárhagstímabil, sem af eru 20. öldinni við þetta fjárlagafrumvarp, að því er snertir einstaka málaflokka. Sem dæmi má nefna, að á þessu stutta tímabili aukast gjöldin til

1900—1901. Nú.

Læknamálefna úr l97 þús. uppí 283 þús.

Vegamála - 166 — — 252 —

Samgangna á sjó - 121 — — 169 —

Ritsíma og talsíma 377 —

Vita úr 14 — — 85 —

Kirkjumála - 47 — — 91 —

Kenslumála - 204 — — 382 —

Um þessa síðustu upphæð er þó það að athuga, að við hana ætti að bæta gjöldunum til bændaskóla, iðnskóla o. fl., sem nú telst með útgjöldum til verklegra framkvæmda, þá yrði kenslumálakostnaðurinn á frv. 513 þús. kr. til móts við 232 þús. kr. árin 1900—1901. Til vísinda og bókmenta gengur nú 122 þús. kr., þá 58 þús. Til verklegra fyrirtækja nú 395 þús. kr., þá 109 þús. kr., eða ef frá er dregið það, sem að réttu lagi heyrir til kenslumála, nú 264 þús. kr., þá 82 þús. kr. Yfirleitt stafar útgjaldaaukinn af nýjum lagafyrirmælum og umbótum í helztu velferðarmálum þjóðarinnar. Það er misskilningur, að hann stafi mest af samgöngumálakostnaði. Þess verður að gæta, að samgöngufyrirtæki gefa af sér beinar tekjur, sem draga verður frá gjöldunum til þeirra. — Þannig er í frumv. landssjóðs taldar tekjur af póstferðum, ritsímum og talsímum, svo og vitagjaldi: 345 þúsund krónur, og heggur það stórt skarð í kostnaðinn. En gjaldaaukningin skiftist niður á ýmsa aðra liði, og skal eg nefna nokkur ný gjöld og viðbætur við gjöld fram yfir það, sem nú nægir á yfirstandandandi fjárhagstímabili:

1. Afborgun og vextir af láni landssjóðs 89911 kr. með jöfnum greiðslum í 15 ár. Það væri ef til vill réttara, að afborga 1/15 hluta lánsins á ári auk vaxta, þó að greiðslan verði hærri fyrst í stað, því við það verða vextir, sem greiðast samtals, dálítið minni, og má breyta því á þinginu.

2. Til fátækramála (ný gjöld) 6000 kr.

3. Til geðveikrahælis (hækkun) 13000 kr.

4. Til póstmála (hækkun) 9500 kr.

Um þessa síðustu upphæð er það að segja, að hún er ætluð sumpart til nýrra póstafgreiðslumanna, en þó einkum til launabótar eldri póstafgreiðslumönnum. Búið er við, að póststjórnin missi marga hina færustu þeirra, ef laun þeirra verða ekki bætt, og væri það ilt. Það er mjög óheppilegt, að hafa opinbera starfsmenn á svo lágum launum, að landsstjórnin getur ekki haldið einurð sinni gagnvart þeim af ótta fyrir því, að þeir sem nú eru fleygi starfinu frá sér, og enginn sæmilega hæfur maður fáist til að takast það á hendur.

5. Viðbót til gufubátsferða til Hornafjarðar hefir verið áætluð 12 þús. krónur. Það fé, sem síðast var veitt, reyndist ekki nægilegt til þess, að neitt gæti orðið úr sérstökum ferðum þangað, en vegna sárrar þarfar þess héraðs, er lagt til þessarar hækkunar og stungið upp á því, að veita alls 21 þúsund krónur til sérstaks gufubáts, sem helzt ætti að ganga sunnanlands milli Reykjavíkur og Hornafjarðar, með viðkomustöðum á fleiri brimhöfnum á Suðurlandi, sem afskiftar eru samgöngum.

Meðal annara gjaldahækkunar, um fram það, sem nú er veitt, skal eg nefna:

Vitar 67 þús. kr.

Prestlaunasjóður 48 þús. kr.

Lagaskólinn 11 þús. kr.

Kennarakensla 14 þús. kr.

Kvennaskóli 6 þús. kr.

Barnaskólar 9 þús. kr.

Farskólar 10 þús. kr.

Bygging barnaskólahúsa 28 þús. kr.

Umsjón fræðslumála 3½ þús. kr.

Kensla heyrnar- og málleysingja 1500 kr.

Lýðskólinn um 1 þús. kr.

Landsbóka- og landsskjalasöfnin um 11 þús. kr.

Fornmenjar- og gripasöfn um 3 þús.

Búnaðarfélagið 6 þús. kr.

Skógrækt 6 þús. kr.

Verzlunarskólinn 4 þús. kr.

Til bygginga á bændaskólunum á Hólum og Hvanneyri 74,600 kr.

Um hina síðustu fjárveitingu skal þess getið, að hún er óhjákvæmileg, ef skólarnir eiga að koma að tilætluðum notum, eftir því sem lögin mæla fyrir; eru teikningar og áætlanir tilbúnar, og verða lagðar fyrir þingið ásamt ítarlegum skýrslum um nauðsyn bygginganna.

Alls nema þessar nauðsynlegu hækkanir frá því á núgildandi fjárlögum 435,136 kr., og er því ekki von, að tekjurnar fylli í skörðin.

Upphæðin til gufuskipaferða er sett eins og áður, þó að ferðirnar hafi orðið 10 þús. kr. ódýrari á ári en áætlað var. En eg hefi fengið nýtt tilboð frá Kaupmannahöfn um gufuskipaferðir til Reykjavíkur 14. hvern dag fyrir þessa upphæð. Mun það tilboð verða lagt fyrir væntanlega fjárlaganefnd og einstök atriði þess skýrð.

Eg álít óþarft, að fjölyrða meira um frumv. að sinni, er auðvitað fús til, að gefa háttv. þingd. allar þær upplýsingar, sem mér er unt að gefa.

Vona eg, að háttv. deild taki frumv. vel og samþykki stefnu þess og tillögur.