17.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Ólafsson:

Háttv. frams.m (B. J.) tók það fram í ræðu sinni, að ekki væri vert að hafa framhald fyrstu umr., eins og vant hefir verið undanfarin þing, eða eldhúsdag, sem kallað er, af því ekki væri ástæða til þess þar sem stjórnin færi frá völdum. En þetta er misskilningur, að ekki sé þörf á að halda eldhúsdag. Vér minni hl. menn héldum komandi stjórn, eða hennar flokkur, meiri hlutinn, mundi gera grein fyrir fjármálastefnu sinni, eða framleggja eitthvert prógram, einkum ætti þetta ekki að vera erfitt, þar sem háttv. framsögumaður fjárlaganna (B. J.), er sá maður, sem stendur nú til að komist til valdanna og minni hlutinn getur, ef til vill, átt tilefni til að halda eldhúsdag yfir fjármálastefnu hinnar nýju stjórnar; en frá þessu er oss algerlega bægt, ef háttv. meiri hluti ætlar nú þegar að skera niður 1. umr.

Vér höfum fengið hér í hendur nefndarálitið; það kom svo seint, að eg hefi ekki getað fengið tíma til að lesa það alt, sízt rækilega; en satt að segja bjóst eg við því miklu stórfengilegra, og mér er engin launung á því, að nefndarálit þetta er óefað hið lang ómerkilegasta fjárlaganefndarálit, sem eg hefi séð síðan alþing var stofnað. Í því sjást ekki nein princip. En svo hugsaði eg; nefndarálitið er eins og umgerð tóm af andliti; breytingatillögurnar munu fylla það út og gefa því svip og drætti. En br.till. komu ekki fram hér í deildinni fyrri en nú eftir að háttv. framsm. (B. J.) hóf ræðu sína og ná ekki enn nema að 15. gr. Eg sé í nefndarálitinu, að talað er um meiri hluta og minni hluta, en hver þessi meiri hluti er, veit maður ekki. Er það framsögumaður og hans flokkur? eða eru það þeir sem fylgja núverandi stjórn? Þetta fær maður enga hugmynd um, því að þeir hafa allir nefndarmennirnir skrifað athugasemdalaust undir nefndarálitið.

Það er skiljanlegt, að háttv. framsm. vill flýta fjárlögunum svo sem auðið verður, þar sem hann verður að fara utan á sunnudaginn kemur. En hitt álasa eg nefndinni fyrir, að hafa látið nefndarálitið koma svo seint. Eg veit, að framsm. nefndarinnar er svo vel ritfær og starfsamur, að honum hefði verið innan handar að láta álitið koma svo sem degi fyr. En þetta flaustursverk get eg ekki kallað annað en að taka fyrir munninn á minni hlutanum.