17.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Björn Jónsson):

Eg get leitt minn hest hjá því að þrasa við háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), ef hann hefir ekki annað fyrir sig að bera en þetta. Að vera nú að lasta það, að umr. séu keyrðar áfram — einmitt þegar búið er að fallast á að þær bíði til föstudags og laugardags, það verð eg að kalla vindhögg og ekki annað.

Þá gat hann þess, að minni hlutanum gæfist ekki kostur á að kynnast nefndarálitinu, þar sem ekki yrði frekara framhald 1. umr. En þetta er ekki réttmæt aðfinsla, með því að aðalumræðurnar eru við 2. umr., og tíminn því nægur þangað til, enda sagðist honum svo fyrir skemstu, að nefndarálítið væri ekki það stórvirki, að ekki verði yfir það komist.

Þar sem virðul. þm. var að hreyta því, að meiri hlutinn gæti skorið niður umræðurnar — og mundi það gera þegar honum sýndist, þá finst mér sú aðdróttun hans mjög óviðurkvæmileg og að engu hafandi.

Eg sé ekki, að hér geti verið um neitt það að ræða, er geti verið athugavert af hálfu nefndarinnar, með því líka að engum nefndarmannanna hefir fundist neitt aðfinsluvert í þessu efni, ekki minni hlutamönnum í nefndinni fremur en hinum.

Um það má auðvitað lengi deila, hve mikilsvert starfið sé, ef sitt sýnist hverjum. En ef það gerir sitt gagn — þá er nóg.