19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Björn Jónsson):

Eg get farið mjög fljótt yfir tekjurnar. Að eins skal eg benda á nokkur atriði, sem fjárlaganefndin hefir breytt til frá frumv. stjórnarinnar.

Hækkanirnar eru eins og segir í nefndarálitinu á síðasta lið 2. gr., og leggur nefndin til að 18., 19. og 20. lið sé slengt saman. Aðalástæða til þess er, að okkur finst hégómi að vera að reikna þá sérstaka liði. Höfum við einnig lagt til að við þann lið bætist sektir fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi, sem síðastliðið ár nam fullum 60,000 kr. en þrátt fyrir það teljum vér eigi ráðlegt að áætla það hærra en 30,000 hvort árið. Liðurinn verður þannig hjá oss 36 þús. á ári. Þá hefir nefndin fallist á að slengja saman 1. lið. a. b. og kalla hann ábúðar- og lausafjárskatt, eins og alt af er gert í daglegu tali. Þann lið hefir stjórnin áætlað 94,000 kr. en nefndin hefir leyft sér að færa hann upp í 100 þús.

Þá er húsaskattur. Hann hafði síðastliðið ár orðið miklu ríflegri en áætlað var, og finst oss því sannsýnt að áætla hann 12 þús. í stað 11, sem stjórnin gerir ráð fyrir.

Á einum stað hefir fjárlaganefndin leyft sér að lækka áætlun stjórnarinnar, en það er tekjur af símum landsins, en oss stendur á sama hvort það verður látið halda sér eða ekki.

Pósttekjur álítur nefndin að ofdjarflegt sé að áætla 100 þús. kr., þótt þær hafi orðið það síðastliðið ár, og vill áætla þær 75 þús. kr. á ári.

Breytingar nefndarinnar á tekjunum færa þær því alls upp um 38 þús. kr. fyrra árið, en 33 þús. síðara árið. Þetta drýgir tekjurnar ekki svo lítið, en þó ekki nærri nóg, því útgjöldin verða mikil.

Nú geri eg ráð fyrir að margan muni langa til að vita eitthvað um fjárhagshorfurnar. Um það skal þó ekki mikið sagt að sinni, en þó skal eg benda á það, að ef tillögur fjárlaganefndar fá að standa óbreyttar, sem eg raunar geri mér alls enga hugmynd um — þá yrði tekjuhallinn 50 þús. kr. minni en stjórnarfrumv. gerði ráð fyrir. Það er vitanlega lítilfjörleg lækkun, en þó skal eg benda á það, að það er örsjaldan að fjárlaganefnd hefir skilað fjárlögunum með minni tekjuhalla en stjórnin hefir gert ráð fyrir.

Hins vegar er þess að gæta, að eg held að fjárlaganefnd hafi aldrei borist jafnmikið af allskonar fjárbeiðnum, óefað 7—800 skjöl, sem legið hafa fyrir nefndinni. Eg held því að nefndin, þótt henni hafi verið brugðið um það, þurfi alls ekki að blygðast sín fyrir ódugnað.

Þá hefir nefndin komið sér saman um að athugasemdir, sem standa hingað og þangað innan um frumv. við ýmsar greinar þess, verði allar færðar aftur fyrir og safnað þar saman í eina heild, í eina grein og vitna svo í hverja gr. frv., sem hver aths. á við. Við álitum þetta miklu einfaldara og hagkvæmara heldur en að hafa alt í graut eins og verið hefir.