08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætla að víkja nokkrum orðum að einstökum atriðum og tek eg liðina eftir þeirri röð, sem þeir eru í á atkvæðaskránni.

Þar verður fyrst fyrir mér breyt.till. við 12. gr. 4. a., styrkurinn til Andrésar Fjeldsteds augnlæknis. Um daginn var hann settur niður úr 2000 kr., sem hafði staðið í frumvarpi stjórnarinnar, og niður í 1000 kr. Nefndin fékk þá að vita, að þetta væri sama og að svifta bæði landið og Reykjavík augnlækni. Því hann hafði þegar sagt upp bústað sínum hér í bænum og var albúinn að flytja vestur, þegar hann vissi um þessar tillögur nefndarinnar. Hvort hann sættir sig við þetta veit eg ekki. En alveg ófært er að gera ekki svo við þann mann, að vér fáum haldið honum. Við 6. lið er það athugavert, að hinum tveimur sérfræðingum, er gert að skyldu að hafa aðeins ókeypis »klinik« einu sinni í hálfum mánuði. Þetta getur tæplega komið að notum, það getur verið óþægilegt fyrir fáækan mann að ganga með tannpínu í hálfan mánuð, einnig er það óþægilegt fyrir menn, sem eiga heima utanbæjar, að sæta lagi með að koma hingað einmitt á þeim tíma, þegar »klinikin« er opin, þegar svo langt líður á milli. Næst vil eg, að öllum sérfræðingunum sé gert að skyldu að hafa ókeypis »klinik« einu sinni í viku og eg mun stinga upp á því, þegar lögin koma hingað aftur.

Þá hefir nefndin lagt til, að laun læknisins á Kleppi séu hækkuð úr 2400 kr., upp í 2700 kr. Læknirinn á Kleppi hefir ókeypis húsnæði, ljós og hita; svo er hann einnig ráðsmaður, svo hann hefir að líkindum ódýran, ef eigi ókeypis matinn. Og þar sem hann hefir svo mikil hlunnindi, þá virðist vera óþarfi að hækka laun hans, sem auk þess er kornungur maður nýkominn í embætti. Allra sízt þegar maður ber það saman við það, sem læknirinn á Laugarnesspítalanum hefir. Læknirinn á Kleppi hefir einnig mjög mikla praxis hér í bænum eða að minsta kosti sér maður hann hér inn í bænum allan daginn. Hvort það er lækningapraxis eða pólitísk praxis skal eg ekki segja neitt um. En eitt er víst, að menn hitta hann aldrei þar, sem hann á að vera — á hælinu. Sjúklingar, sem komu á Klepp í haust, hafa ekki séð framan í hann síðan þeir komu; þá kvað hann hafa litið á þá allra snöggvast, en síðan ekki. Þeim manni, sem hefir svona mikið að gera og hefir auk þess fullboðleg föst laun, er óþarfi að launa hærra. Það er alveg ástæðulaust. Það er að minsta kosti ekki af þeim ástæðum, sem við höfum heyrt, og væri æskilegt, að maður fengi að heyra hinar sönnu ástæður.

Mér þótti vænt um, að háttv. S.-Þing. (P. J.) tók aftur breyt.till. sínar við 13. gr. B. VIII., B. IX. og B. X. um tillagið til veganna, því annars hefði verið nauðsynlegt að skera þær niður. Hygg hann hafi fremur gert þær í öðru skyni en því, að hann hafi búist við, að þær till. mundu hafa fylgi.

Þá er önnur tillaga við 13. gr. D. III. 8, þar sem lagt er til, að í staðinn fyrir »hraðskeytasamband« komi: loftskeytasamband. Það var samþykt hér í deildinni um daginn, þegar fjáraukalögin voru á ferðinni, að hafa loftskeyti; en nú höfðu fjáraukalögin verið tekin út af dagskrá í dag í efri deild. En það er óþarfi að taka hraðskeyti úr fyrirsögninni og setja loftskeyti í staðinn, þótt breyting sé gerð á einstökum lið. »Hraðskeyti« nær líka yfir hvorttveggja sambandið, síma og loftskeyti, svo það á mjög vel við.

Nefndin hefir komið með breyt.till. á þingskjali 567 um að stjórninni veitist heimild til þess að taka lán, til þess að kaupa talsímakerfi Reykjavíkur. Þessa tillögu vona eg að deildin samþykki, því þetta er stórt gróðafyrirtæki fyrir landið, því talsímakerfið gefur nú í hreinan ágóða 15% árlega. Seinna mundi það verða dýrara, og því dýrara sem lengra líður. Einnig er leyfistími félagsins nú á enda og yrði að bíða mörg ár, ef ekki væri keypt nú, og þá yrði það miklum mun dýrara.

Næst er breyt.till. á þgskj. 536 við 13. gr. E. VIII, um að Bjargtangavitinn falli niður, en á eftir E. XI. komi nýr liður, um að byggja vita á Vattarnesi. Þótt Vattarnes sé í mínu kjördæmi, þá er þörfin þar miklu brýnni, auk þess kostar viti á Vattarnesi miklu minna en viti á Bjargtöngum. Eins og eg sagði, þá er meiri þörf fyrir vita á Vattarnesi en á Bjargtöngum, því öll skip, sem sigla til Reyðarfjarðar og frá Reyðarfirði nota hann, og fjöldi annara skipa, sem þar eiga leið um, hafa hans not.

Háttv. þm. Eyf. hafa komið með till. á þgskj. 578 um prestsmötuna á Grund í Eyjafirði. Þetta finst mér allkynleg tillaga; hún hljóðar svo:

»Prestsmatan frá Grund í Eyjafirði, 200 álnir, er nú greiðist prestinum í Grundarþingum að ? og Akureyrarprestinum að ?, veitist til viðhalds Grundarkirkju gegn endurgjaldi til hlutaðeigandi presta úr prestlaunasjóði«.

Þetta finst mér óþarfa krókaleið. Af hverju má ekki eins segja, að prestlaunasjóður taki að sér viðhald Grundarkirkju í Eyjafirði. Þetta er ekki sú rétta leið. Eigandi Grundarkirkju er allrar virðingar verður fyrir bygginguna. En eg kann ekki við þessa leið, sem hér er farin, og óviðkunnanlegt að leggja viðhald bændakirkna á prestlaunasjóð — ef það er ekki alveg ólöglegt.

Nefndin hefir hér enn komið með br.till. á þgskj. 514 við 14. gr. A. b. 4, um að veita síra J. Lynge 1200 kr. til þess að byggja baðstofu á Kvennabrekku og að »við ábúendaskifti sé skilað húsi, er sé 1200 kr. virði, auk andvirðis hinnar gömlu baðstofu með álagi«. Eg veit ekki betur, en það sé skylda að svara álagi við ábúendaskifti. Hvað hefir presturinn gert við álagið, sem hann fékk þegar hann tók við jörðunni? Hefir hann etið það upp eins og sagt var um prestinn í Móðuharðindunum? Hversvegna á landssjóður að borga honum það? Ef það hefir verið af góðsemi eða kjarkleysi, að hann gekk ekki eftir því, þá má hann sjálfum sér um kenna. Landssjóður hefir enga skyldu til þess að bæta honum það upp, þó hann hafi látið snuða sig um það, þegar hann tók við jörðinni. Og gæti ekki farið á sömu leið við næstu prestaskifti? Til hvers er annars eftirlit prófasta?

Næst er breyt.till. á þgskj. 573 við 14. gr. B. I. b. 2., um að færa námsstyrkinn við prestaskólann úr 1000 kr. niður í 800 kr. Eg veit ekki, hve margir stunda nám við prestaskólann, svo það getur verið, að þetta sé nógu mikill styrkur. Sömuleiðis er breyt.till. um að lækka námsstyrkinn handa læknaefnum úr 2000 kr. niður í 1800 kr. Eg veit heldur ekki, hve margir stunda nám við læknaskólann, en býst við að þetta sé nógu mikill styrkur. Ef það er ekki, þá er eg á móti því að lækka hann. Loks er farið fram á að lækka styrkinn til þeirra, sem stunda nám við lagaskólann úr 1200 kr. niður í 1000 kr. Það er undarlegt, að ef læknaskólinn á að hafa 2000 kr. styrk handa sínum nemendum, þá á lagaskólinn, sem hefir meiri nemendafjölda að komast af með helmingi minni styrk handa sínum nemendum. Þessu er eg á móti. Hitt játa eg, að það er ástæða til að lækka námsstyrki, þegar þeir eru misbrúkaðir. En eg álít það sé að misbrúka styrkinn, að veita syni séra Lárusar frá Selárdal, einhvers auðugasta manns í bænum, húsaleigustyrk og námsstyrk, þótt pilturinn sé efnismaður. Að öðru jöfnu, og jafnvel meir en að öðru jöfnu, þá eiga fátækari nemendur að ganga fyrir hinum efnameiri. Þetta fé er veitt sem styrkur fátækum eða efnalitlum námsmönnum, sem eru ástundunarsamir og reglusamir, en alls ekki sem verðlaun auðugum eða efnuðum mönnum, þótt efnilegir séu. Eg vona, að stjórn skólans veiti styrkinn þannig eftirleiðis, að ekki sé ástæða til þess að lækka hann aftur. Eg sé heldur ekki ástæðu til þess að veita sonum efnamanna úr sveit námsstyrk, enda þótt þeir séu góðir námsmenn, en setja hjá efnispilta fátæka, þótt þeir séu taldir til heimilis í Reykjavík, ef til vill af því að þeir eiga engan að, en veitir hér auðveldast að fá dálitla atvinnu.

Athugasemdin við B. IV. C. 13., um að húsaleigustyrkur sé að eins veittur utanbæjarmönnum, nema innanbæjarmenn hafi sjálfir fjölskyldu fram að færa, þykir mér og kynleg og ranglát. Það getur verið, að fjölskyldumaður sé atvinnurekandi eða bóndi og hafi næg efni, og samt á hann að fá húsaleigustyrk af því hann hefir fjölskyldu! En annar maður, sem er bláfátækur og umkomulaus, má ekki fá styrk, af því hann hefir enga fjölskyldu. Bæjarmenn eiga að hafa sama rétt til að njóta styrksins og utanbæjarmenn, ef þeir eru fátækir.

Eg hefi komið með breyt.till. á þgskj. 529 við B. IV. 13., um að orðin: »sé aðeins«, breytist í: sé venjulega að eins. Eg gæti nefnt foreldra, sem eiga börn í mentaskólanum, sem ekki gætu komist af án þess að þiggja af sveit, ef þeir nytu ekki góðra manna að. Eg álít, að hér sé bætt úr þessu, ef mín breyt.till. verður samþykt, um að veita venjulega að eins utanbæjarmönnum styrk.

Þá kem eg að hinni stóru tillögu frá h. 1. þm. S.-Múl. (J. J.), sem sumum hefir orðið svo bimbult af. Hann talaði mjög ljóst og greinilega fyrir þessari tillögu, eins og hans er vandi. Eg álít, að kvennaskólar eigi ekki að vera til nema fyrir sérmentun kvenna, til þess að kenna þar sérstakt kvennanám, svo sem hannyrðir og matreiðslu. Allir skólar eiga annars að vera sameiginlegir fyrir karla og konur; og konur hafa aðgang að öllum karlmannaskólum hér, þótt þær hafi ekki notað þann rétt. Stýrimannaskólanum sækir kvenfólk ekki að. Karlmenn mundu heldur ekki sækja að skóla, þar sem hannyrðir og matreiðsla yrði kend. En nú stendur svo á, að húsrúm er ekki til í mentaskólanum ef kvennaskóli Reykjavíkur yrði lagður niður. Það yrði þá að reisa nýtt hús og fjölga kennurum að miklum mun, og það yrði enn dýrara en að viðhalda kvennaskólanum. Það er því nauðsynlegt sem stendur að hafa einn kvennaskóla, og það er auðsætt, að það á að hafa þennan skóla í Reykjavík og landið á að styrkja hann, því hvergi annarstaðar er jafnmikill kostur á góðum kenslukröftum og hér. Sá skóli ætti að verða »almennur mentaskóli« fyrir konur. Eða hvar mundu beztir kenslukraftar hér á landi? Það er enginn efi á því, að tímakensla er bezt hér í Reykjavík. Blönduósskólinn hefir ekki völ á góðum kröftum til tímakenslu, og árangurinn af veru sumra stúlkna (eg segi ekki allra) á þeim skóla virðist helztur sá, að þær geta lesið danska eldhúsrómana. En hafi maður fyrir augum gagnsemi skólans, þá er betra hann kosti meira, og að kenslan komi að gagni, því að góð kensla er aldrei ofborguð, en lítil og léleg kensla alt af ofborguð. Af þessum ástæðum fylgi eg tillögu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.). Eg hefi ekki viljað drepa Blönduósskólann, heldur þótt heppilegra, að honum yrði breytt í húsmæðraskóla, og tel eg heppilegra, að hann væri í sveit. Af þessum ástæðum aðhyllist eg breytingartillöguna.

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) hélt því fram, að mjög mikill munur væri á, hve vel barnaskólar væru útbúnir, og las upp skýrslu, er átti að sýna, að sumir skólar (t. d. í Múlasýslum) hefðu keypt lítið af áhöldum, síðan fræðslulögin komust á, og væru því illa útbúnir. Las hann lista upp yfir hvað einn skóli hefði keypt árið 1910. Þetta sannar ekkert. Sumir skólar hafa átt mikið, áður en kenslulögin komust á. Er þetta því út í bláinn.

Þá er tillaga á þgskj. 584 um að fella niður 600 kr. ferðastyrk til umsjónarmanns fræðslumála. Þetta virðist óskiljanlegt. Er það til lítilla nota, að skylda hann til að hafa umsjón með kenslumálum, en gera honum svo ómögulegt að framkvæma hana. Landinu er skylt að borga þau ferðalög.

Eg hljóp yfir 19. lið á bls. 3, nefnilega breyt.till. 571 við C. 1. Að undanförnu hefir það ekki verið nefnt í fjárlögunum við hvern skyldi gera samning um gufuskipaferðir. Hugsum okkur, að samningurinn frá 7. ágúst 1909 félli í burtu af þeim ástæðum, þótt eg telji það ekki líklegt, að félagið yrði gjaldþrota, eða af hinu, sem ekki er óhugsanlegt, að það brjóti af sér samninginn og hætti að flytja póst, þá yrðu ferðirnar að falla niður, af því að þá væri óheimilt að semja við aðra í staðinn um ferðir. Eg skil ekki, hvað þetta á að þýða. Hitt liggur í hlutarins eðli, að þeim greiðist féð, er samninginn hefir.

(Hlé).

Herra forseti! Eg mun hafa verið kominn að 15. gr. þegar hléið varð. Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) leggur til, að stofnanir landsins verði uppnefndar. Býst eg við, að þær tillögur hans fari sömu leið og áður. Þó er ein þeirra, sem eg get greitt atkvæði. Það er sú tillaga, að Fornmenjasafnið sé kallað Þjóðmenjasafnið, og er það eðlilegra. Upphaflega, þegar safnið var stofnað, þá var svo ákveðið, að það skyldi heita Forngripa- og þjóðmenjasafn. Öllum hinum tillögunum mun eg verða á móti.

Þá er breyttill. á þgskj. 577 frá 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) við 8. lið, um að orðin »alt að« falli burtu. Sé eg ekki af hverju þau orð mega ekki standa. Mun eg greiða atkvæði móti þeirri till. Tillagan um að fella styrkinn til Bernersambandsins gengur í sömu átt og áður, og er eg henni mótfallinn af þeim ástæðum, sem eg hefi áður tilgreint. Svo höfum við, eg og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) komið fram með þá breyt.till. við 15. lið 15. gr., að fella styrkinn til Good- Templara niður. Eg var á móti honum við 2. umr. vegna þess, að félagið hefir misbrúkað hann í vetur og notað til pólitískra agitationa. Í launbréfi frá stórritara reglunnar var öllum félögum skipað að greiða atkvæði eftir hans fyrirmælum. Var þeim skipað að ræða það mál ekki á mannfundum, en að eins hlýða blint. Þessi jesúítaháttur er hættulegur. Mönnum er skipað að hlýða blint, en bannað með öllu að hugsa. Slíkt leyniveldi í ríkinu er og hefir hvarvetna verið mesti voði — og sízt af öllu eru slík vélræði við löggjafarvaldið styðjandi af almannafé. Þetta var ástæða þess, að eg var á móti styrknum við 2. umr. Eg hefði þó ekki farið að taka þetta mál upp aftur, ef ekki hefði annað nýrra við borið. Það sem eg nú segi um stjórn reglunnar, það segi eg ekki um regluna sjálfa. Good-Templarareglan er gott og göfugt félag, ef hún heldur sér við sitt málefni. En komist stjórn þess í hendur grunnhygginna og flasfenginna manna, þá getur það orðið háskalegt. Sú ástæða sem eg hér á við, er hótunarbréf það, sem stjórn reglunnar hefir sent öllum þingmönnum. Það er stílað til alþingis, og með því segir reglan alþingi stríð á hendur. Hún segir, að það sé verið að segja sér stríð á hendur, en það hefir ekkert komið fram af þingsins hálfu, sem henni gerir miska. Þetta er altítt, að þeir sem ráðast á aðra að fyrra bragði, segja — án allrar ástæðu — að það sé verið að segja sér stríð á hendur. Þetta er tómt ofbeldisverk. Eg er bannlagamaður, en við bannlagamenn skoðum okkur jafn misboðið og hinum. Þetta bréf, sem svo er orðað, heyrir undir 229. gr. hinna almennu hegningarlaga, er ræðir um þá, sem í skjölum til konungs, stjórnarráðsins eða alþingis viðhafa ósæmileg ummæli. Þó má búast við því, að þingmenn fyrirlíti þetta svo, að þeir vilji ekki reka réttar síns, en aðferðin er söm fyrir það.

Good-Templarareglan ætti ella sjálf alt gott skilið, en nú verður hún að gjalda þess, að hún hefir óhreint höfuð. Er henni það og fyrir beztu, að við strykum þennan styrk út, svo hún gæti sín betur eftirleiðis og velji betri stjórn. Er það ósæmilegt fyrir þingmenn að þola það, að nokkur dirfist að snúa sér til alþingis og segja: Ef þið ekki greiðið atkvæði eins og við viljum, þá segjum við ykkur stríð á hendur. Skal eg svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. Við atkvæðagreiðsluna má búast við, að verði nafnakall. Fá menn þá að sjá, hversu sómakærir þingmenn eru.

Þá er tillaga á þgskj. 574, frá háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.). Er hún í þá átt, að liðirnir 20—29, 33, 35—38, 45 og 46 falli burt, en í þeirra stað komi: Til vísinda og lista 17000 kr. hvort árið. Eg kom með líka tillögu í Ed. 1905, en hún féll. Svo var upphaflega eftir að þingið fékk löggjafarvald, að landsstjórninni var veitt fé í heilu lagi til bókmenta og lista. Var svo fram til 1883 eða þar um bil. Þá var ekki þingræðisstjórn sem nú. Var oss þá stjórnað af dönskum ráðherra og landshöfðingja, sem enga ábyrgð báru fyrir þinginu. Þess skal þó getið, að landshöfðingi var vanur, þegar um þetta fé var að ræða, að bera sig saman við fjárlaganefnd og heyra hennar tillögur, sem hann jafnan fylgdi. En svo fór að koma óánægja milli stjórnarinnar og þingsins um ýmsar veitingar á þessu fé og varð það orsök til þess, að þingið fór að draga inn undir sig flesta þá hluti, sem það gat eitt haft ráðin yfir. Síðan hefir stjórnin ekki haft yfir þessum styrkjum að ráða, en að eins ráðið menn til samningar kenslubóka.

Mér þykir óviðkunnanlegt, að þingið fari að kjósa nefnd til að úthluta þessu fé, sem svo sé skipuð eftir flokkaskiftingu á þinginu. Þetta gefur enga tryggingu fyrir, að styrkurinn verði óhlutdrægt veittur og auk þess er það hálf óviðfeldið, að þingið skuli ekki trúa sjálfu sér og stjórninni fyrir þessu. Það hefði verið sök sér, ef till. hefði verið orðuð svo, að landsstjórnin veitti styrkinn, en leitaði fyrst álits háskólaráðsins. En eins og till. nú er, get eg ekki greitt henni atkvæði. Mér eru heldur ekki vel kunnar ástæður háttv. fl.m, nema hvað annar þeirra sagði, að það væri óviðkunnanlegt, að vera að ræða mikið um verðleika manna. En þeir verða nú samt að hafa það, því að blöðin ræða um það og almenningur talar um það. Þess er líka að gæta í málinu, að fáar veitingar munu vera veittar með eins litlu tilliti til flokksfylgis og einmitt þær, sem hér um ræðir, svo að eg álít, hvað það snertir, málinu eins vel borgið hjá þinginu sjálfu, eins og hjá sérstakri nefnd.

Þá kem eg að brtill. okkar háttv. þm. Dal. (B. J.), sem er 70. liður á atkv.skránni neðst á bls. 8, um styrk til magisters Ágústs Bjarnasonar til þess að gefa út síðasta bindið af »Sögu mannsandans«, 3 bindi eru þegar prentuð. Hingað til hefir honum verið veitt 1200 kr. á fjárhagstímabilinu til þessa starfa en nú hefir háttv. fjárlaganefnd lagt til, að honum yrðu að eins veittar 600 kr. og það var samþykt við 2. umr. Þessar 600 kr. eru ekki nægilegar, nema til ½ bindisins, sem eftir er; hann getur ekki komið bókinni út, ef styrkurinn til þessa síðasta bindis verður lægri en til hinna hefir verið veitt. Það er því ekki annað fyrir þingið að gera, en að stryka fjárveitinguna út, eða færa hana upp í 1200 kr. Eg býst við, að þessi breyt.till. okkar fái góðan byr í deildinni, því að eg held, að það hafi stafað af misskilningi háttv. fjárlaganefndar, að styrkurinn var ekki settur hærra en 600 kr. fyrir síðustu umræðu.

Breyt.till. mín, 74. liður bls. 9 á atkvæðaskránni, er ekki annað en orðabreyting, svo eg get slept henni.

Breyt.till. á þgskj. 561. við 3. lið 16. gr., um fjárveitingu til Torfa í Ólafsdal í heiðursskyni fyrir langt og þarflegt starf fyrir þjóðina mun eg greiða atkvæði með.

Þá kem eg að breyttill. á þgskj. 497 við 24. tölulið 16. gr., um styrk til hæfs manns til þess að ferðast til Englands og kynna sér verkun og flokkun á ull, og ferðast síðan um landið og gefa mönnum ráð og leiðbeiningar í því efni. Eg vil leggja mikla áherzlu á það, sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) sagði, að þótt hér um bil öll íslenzk ull sé seld til Liverpool, þá fer þó mest af henni til Ameríku. Henni er blandað saman við innlenda ull þar og notuð mest í gólfábreiður. Sá maður, sem færi til þess að kynna sér meðferð á ullinni, yrði því að fara þangað. Mér er kunnugt um, að nú á síðustu árum hefir Ameríkumaður ferðast hér um landið og keypt ull, en hvort hann um leið hefir gefið mönnum nokkrar leiðbeiningar um meðferð hennar og verkun, veit eg ekki. En eigi nú að fara að kosta mann til Ameríku, þá eru 1200 kr. svo hlægilega lítið, að þær nægja ekki einu sinni fyrir fargjaldinu fram og aftur, svo að alveg gagnslaust er að samþykkja þessa tillögu.

Þá vil eg mæla með till. okkar háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), um fjárstyrk til Reynis Gíslasonar, til þess að fara utan og nema söngfræði. Hann hefir sýnt hreina undragáfu í þeirri list frá því hann var ungbarn, og þótt eg hafi kannske ekki mikið vit á því, má taka orð 1. þm. G. K. (B. Kr.) trúanleg, því að hann hefir manna bezt hér í deildinni vit á þessu efni. Öllum ber saman um, að þessi piltur sé frábærlega gæddur músikgáfu og virðist því sjálfsagt að láta svo góða hæfileika ekki fara forgörðum. Eg vona því, að þessi breyt.till. verði samþykt.

Seinast en ekki sízt vil eg mæla með brtill. háttv. þm. Dal. (B. J.) á þgskj. 579 við B. I. 3. um laun háskólakennara. Hún er ekkert annað en afleiðing af því, sem nýlega var samþykt hér í deildinni með 19 atkv. með nafnakalli og þessi till. fær vonandi ennþá fleiri atkvæði, þar sem nú er afráðið í báðum deildum á aukafjárlögunum að stofna háskólann.