08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Benedikt Sveinsson:

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) bar þungar sakir á geðveikralækninn á Kleppi. Þeim er mér skylt að mótmæla, því að þær hafa ekki við hin minstu rök að styðjast. Háttv. þm. sagði t. d., að læknirinn hefði svo lélegt eftirlit með sjúklingunum, að hann liti ekki til þeirra nema einu sinni á mánuði. Þetta er tilhæfulaust. Læknirinn hefir daglegt eftirlit með sjúklingunum, eins og þjónustufólk hælisins veit og getur sannað hvenær sem er. — Söguna um sjúklinginn, sem átti að hafa dáið í afkima, illa til reika, hafði eg ekki heyrt nefnda á nafn fyrri en áðan, en hefi nú spurst fyrir um tilefni hennar hjá kunnugustu mönnum, og fengið það svar, að fyrir henni sé enginn flugufótur, hún sé tilhæfulaus uppspuni. Skírskota eg þessu til háttv. þm. Vestm. (J. M.), sem lengi hefir verið í stjórn geðveikrahælisins og manna kunnugastur högum þess öllum, og bið hann að ósanna orð mín, ef eg fer ekki með rétt mál. — Eg býst ekki við, að háttv. 2. þm. S.-Múl.

(J. Ó.) hafi sjálfur búið til þessar sögur, heldur muni hann hafa þær frá einhverjum illgjörnum sögumanni.

Þá er að minnast á fjárveitinguna til háskólans. Þegar hún var sett í fjáraukalögin snemma á þingi var sú tilætlunin, að hægt yrði að nota alþingishúsið handa háskólanum, en til þess þurfti að flytja þingtímann til sumars. Það hefir ekki verið gert, breyt.till. um það feldar og því eru nú ekki sömu skilyrði fyrir hendi, sem gert var ráð fyrir í fyrstu. Nú er það á valdi Ed. að flytja þingtímann, og í annan stað er það og á hennar valdi, að sjá fjárhag landsins sæmilega borgið með því að samþykkja frumvarp það, sem nú er á leiðinni í þessari deild, til þess að afla landssjóði tekna. Ef Ed. fullnægir þessum nauðsynlegu skilyrðum, þá mun ekki fremur en fyr standa á mínu atkvæði með fjárveiting til háskólans. — En eins og nú stendur, er ekki hægt að segja um afdrif þessara mála í Ed., og vil eg því skora á flutningsmann till., þm. Dal. (B. J.), að taka hana aftur í þetta sinn.