04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Bjarni Jónsson:

Eg á hér litla breyt.till. við 12. gr. út af málaleitun viðvíkjandi styrk til þess að halda sérstakan lækni í Bolungarvík. Það ákvæði fór frá þessari deild með sama hætti og eg vil að það verði sett inn aftur. Eg flyt þessa till. hér vegna beiðni, sem eg hefi fengið frá aðstoðarlækninum í Ísafjarðarsýslu, Eiríki Kjerúlf. Hann tjáði mér, að sér væri stofnað í hættu með Ed. ákvæðinu. Eg skal ekki fara út í það að færa ástæður fyrir, hvers vegna hann telur sér þetta ákvæði til hnekkis. Hann býst við að bíða efnalega tjón af því, hann muni verða minna sóttur úr Djúpinu og kostnaður við flutning verði hærri. Hann vill því alls ekki ganga að þessum skilyrðum. (Pétur Jónsson: Þá getur einhver annar gert það). Já, það er einmitt það sem eg sting upp á, að sérstakur læknir verði skipaður þar — en Eiríkur Kjerúlf sé ekki neyddur til þess að flytja þangað sjálfum sér til stórtjóns.

Þá hefi eg komið fram með breyt.till. við 13. gr., þess efnis, að 3000 kr. séu lagðar til vegagerðar milli Hrútafjarðar og Gilsfjarðar. Það hefir verið unnið að þeim vegi um skeið. Hann er mjög nauðsynlegur, bæði fyrir norður-Dali, Bitruna og vestustu héruðin í Strandasýslu.

Ennfremur hefi eg lagt það til, að fé sé veitt til þjóðvegarins milli Hjarðarholts og Ljárskóga. Af því ætti að geta sparast svo mikið, að hægt væri að brúa Ljá um leið, sem er stórhættuleg, þar sem í henni er kaldavermsl, sem sprengir af sér ís og verður mörgum manni að bana. Eg get sýnt mönnum vottorð um þetta bæði frá mönnum, sem búa þar nálægt og póstinum. Eg vona því, að deildin samþykki þetta aftur, þó að Ed. feldi það burt, líklega af misskilningi.

Enn hefi eg lagt það til, að tekin sé upp á fjárlögin 6000 kr. fjárveiting til starfrækslu við loftskeytasamband milli Reykjavíkur og Vestmanneyja, og 2000 kr. við stöðvarnar í Skaftafellssýslu. Þetta er í samræmi við það, sem samþykt hefir verið í loftskeytamálinu hér í deildinni og kemur fyrir sameinað þing og gengur þar vonandi í gegn. Eg skal ekki að þessu sinni fara að tala um, hvort heppilegra sé loftskeytasamband eða ekki loftskeytasamband, en þessi till. stendur og fellur með því, sem samþykt verður eða felt í sameinuðu þingi og skaðar því ekki þótt till. verði samþykt hér, enda þótt loftskeytasambandið gengi ekki í gegn.

Þá hefi eg komið með breyttill. við 14. gr., sem fer fram á að laga ákvæðið um styrkveitingu til blindra barna. Í frumv. er aðeins tekið fram, að hún skuli vera til blindra barna í Danmörku. En eg gæti hugsað mér, að fólk hér þekti fólk annarsstaðar og vildi þess vegna koma börnum sínum fyrir þar. Auk þess eru stofnanir víða eins góðar og í Danmörku. Svo hefi eg komið með breyt.till. um að skilyrði verði sett fyrir fjárveitingunni til Hvítárbakkaskólans. Eg er mótfallinn því, að fjárveitingar til skóla séu bundnar skilyrðum. En þegar aðrir skólar hafa orðið að sæta slíku, er ekki ástæða til að gera þessum skóla hærra undir höfði. Eg er alls ekki að leggja skólastjórann í einelti, en eg vil ekki, að honum sé gert hærra undir höfði en öðrum. Vona eg, að þeir háttv. þm., sem hafa verið með því að binda fjárveitingar til skóla skilyrðum, verði einnig með þessari tillögu, enda fer hún ekki fram á annað en það, sem er sjálfsagt, að stjórnin skuli hafa eftirlit með skólanum.

Eg hefi ennfremur komið fram með brt. um að hæsta styrkveiting til unglingaskóla skuli vera 1200 kr., en ekki 1000 kr. Það er ekki líklegt, að slíkt verði notað. En þó gæti það komið fyrir, og væri þá óheppilegt, ef stjórnin hefði að eins heimild til þess að veita 1000 kr. Reyndar er styrkurinn til unglingaskóla mjög lítill, þar sem hann er ekki nema 8000 kr. En eg hefi þó ekki viljað koma með till. um hækkun á honum, enda þótt slíkar stofnanir séu einhverjar þær nytsömustu allra stofnana, af því að eg vissi að hún mundi ekki ganga fram. Að því er snertir breyt.till. mína um 1500 kr. styrk hvort árið til síra Ólafs í Hjarðarholti, til þess að halda unglingaskóla, skal eg geta þess, að eg hefi miðað upphæðina við þá upphæð, sem veitt er unglingaskóla Ísafjarðar, Seyðisfjarðar og Hvítárbakka. Séra Ólafur hefir bygt nýtt hús á staðnum, og undirbúið alt til skólahalds. Hann er maður greindur, stiltur og góður til þess að vera kennari. Börn hans eru vel mentuð. Meðal annars leika þau á hljóðfæri, svo þar mundi verða góð söngkensla. Vona eg, að háttv. deild samþykki þessa fjárveitingu, og láti síra Ólaf njóta þeirrar sanngirni, að verða ekki hornreka fyrir mönnum, er standa honum langt að baki.

Eg skal geta þess, að eg er hlyntur styrkveitingunni til Guðjóns Samúelssonar. Maður þessi er greindur vel; mér er það kunnugt, því að hann hefir lært hjá mér. Háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.) tók réttilega fram, að skömm væri að því að hafa ekki mann hér, sem vit hefir á húsagerð fram yfir venjulega trésmíði. Þessi fjárveiting er því nauðsynleg, þar sem hún kemur í góðar þarfir.

Að lokum vildi eg minnast á brtill. um botnvörpusektirnar. Eg vona, að háttv. deild haldi fast við fyrri gerðir sínar í þessu máli. Annars er þetta útrætt mál og því óþarft að fjölyrða um það.

Eg skal svo geta þess, að þar sem eg er á till. ásamt öðrum háttv. þm., ætlast eg til að þeir rökstyðji þær. Skal eg láta hér staðar numið, því eg hefi minst á allar mínar tillögur.