04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Sigurðsson:

Það er ein breyt.till., sem eg ætla að minnast á. Eg er svo heppinn, að hún er ekki frá mér, heldur frá háttv. þm. Snæf. (S. G.). Þessi breyttill. er á þgskj. 884 og er um Borgarfjarðarbrautina. Hún kom hér fram í deildinni við 2. umr. Efri deild leitaði álits verkfræðings um þetta mál. Hann var því eindregið meðmæltur, að þetta yrði sett aftur inn, því annars mundi brautin enda á svæði, sem væri mjög ilt yfirferðar. Eg vil leyfa mér að benda hinni háttv. deild á, að það er ekki sparnaður að fella þetta burtu, því eins og mönnum mun kunnugt, þá er þetta lögákveðið, að landssjóður geri brautina. Það eru víða kaflar, sem ekki eru búnir enn, og því er ástæða til þess að halda áfram með brautina. svo hún komi að fullum notum. Og þegar þessi braut er fullgerð, þá eru margar aðrar brautir, sem þarf að gera, og þá breytist gamla aðferðin, að við hættum að flytja alt sem við þurfum á hestbaki, en notum vagna, og það er stór hagnaður. Menn ættu ekki að skera við neglur sér fjárframlögin til flutningabrautanna. Landsmenn munu ekki sjá eftir því fé, sem varið er til flutningabrautanna, þegar þeir sjá, hversu mikill hagur er að þeim. Það er talsvert meiri ástæða til að sjá eftir því fé, sem þjóðinni er ekki til þrifa. En ef þetta fé verður veitt til Borgarfjarðarbrautarinnar nú, þá er hægt að fullgera hana, og þá er að eins eftir stuttur kafli, sem kostar 10,000 kr., og svo er hún frá. Í sambandi við þetta skal eg geta þess, að Borgarfjörður er ágætishérað, miklu betra en Snæfellsnes. En hann á ekki að gjalda þess. Löggjafarvaldið á ekki fyrir þá sök að kippa úr vexti hans og viðgangi, það er ekki hyggilegt. En eg vil ekki þreyta menn lengur, því eins og 1. þm. Húnv. (H.G.) tók fram, þá hefir atkvæðið meira gildi en löng ræða.