04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætla að eins að segja örfá orð um einn eða tvo liði.

Eg sé að háttv. þm. í »dragsúgnum« hefir komið með tillögu um að fella burtu Vattarnesvitann; eg vona að sú tillaga hans hafi ekki framgang hér fremur en svo margar aðrar af tillögum hans. Það er því von mín, að þessi tillaga hans eigi sömu forlögum að sæta og banaráð hans við háskólann og fleiri af okkar beztu málum.

Þá vil eg minnast nokkrum orðum á tillöguna um að veita P. M. Bjarnarson 50,000 kr. lán til niðursuðuverksmiðju sinnar á Ísafirði. Þegar hann byrjaði á þessu fyrirtæki, þá var hann stórefnaður maður, en setti alt, sem hann átti í það að koma á fót þessari verksmiðju. Hann var óheppinn í byrjuninni og varð fyrir óhöppum, af því hann vantaði reynslu. Sessunautur minn sagði í dag, að hægt hefði verið fyrir hann að fá mann, sem kynni þetta. En það er síður en svo. Fyrst og fremst eru sárfáar verksmiðjur, sem eru eins og þessi og þær fara með sínar aðferðir eins og mannsmorð. Þegar Japanar fyrir nokkru settu á stofn hjá sér niðursuðuverksmiðju, þá sendu þeir menn til Norðurálfunnar til þess að kynna sér þetta. Þeir komu til Skotlands. Verksmiðjustjórarnir tóku vel á móti þeim, buðu þeim inn á skrifstofur sínar og voru hinir kurteisustu við þá, en það var ekki nærri því komandi, að þeir fengju að skoða verksmiðjurnar. Þeir fóru einnig til Stavanger, en þar eru niðursuðuverksmiðjur beztar í heimi. Það fór alveg á sömu leið. Menn voru hinir kurteisustu við þá en þegar þeir fóru þess á leit að skoða verksmiðjuna, þá fengu þeir afsvar. Pétur fékk mann frá Noregi til að byrja með. Eitt af þessum niðursuðufélögum mælti með manni, sem hafði verið hjá þeim í fjölda mörg ár, en maður þessi reyndist samt sem áður öldungis ónýtur maður til þessa starfa.

Nú er verksmiðjan loksins komin í gott horf og farin að framleiða beztu vörutegundir. Einnig og einmitt þess vegna eru pantanir farnar að koma til hans utan úr heimi, þar á meðal bæði frá Asíu og Afríku. En það bagar, að verksmiðjuna vantar rekstrarfé. Meðal annars hefir verksmiðjan fengið pöntun á 1 miljón punda af síld, en þar sem ekki var nægilegt fé fyrir hendi til að kaupa síldina og tilreiða, þá gat verksmiðjan ekki fullnægt pöntuninni. Er eg fullviss um, að fé því sé vel varið, sem veitt er til niðursuðuverksmiðju þessarar og mundi útflutningur á ýmsum ísl. afurðum stórkostlega aukast, ef verksmiðjan hefði nægilegt starfsfé. Eg er einnig sannfærður um, að fá eða engin iðnaðarfyrirtæki hér, hafa eins góð skilyrði til að verða arðberandi landinu, eins og einmitt niðursuða. Mæli eg fastlega með og vona að þingið sjái sér fært að veita hið umbeðna lán.

Loks ætla eg að snúa mér að síðustu tillögunni.

Fyrir nokkrum árum var eg að þýða bók eftir Macleod. Hann segir þar, að sósíalistar haldi því fram, að ríkið sé skylt að kaupa þá framleiðslu manna, sem þeir eigi geti selt öðrum. Læknir eigi heimting á, að ríkið borgi sér fyrir »recept«, þótt enginn vilji verða til að sýkjast og leita hans; apotekarinn heimti að ríkið kaupi af sér pillur, þótt enginn þurfi að laxéra, ritsmíðabaglarar, sem enginn vilji lesa neitt eftir, eigi heimtingu á að ríkið kaupi af sér rit sín. Og það er ef til vill ekki versta fjarstæðan, segir hann, því að það mætti hafa þau not af þessum vitlausu og leiðinlegu bókum, að þegar glæpamaður er svo heilsulaus, að hann þolir ekki hegningarvinnuna, sem hann er dæmdur í, þá mætti refsa honum með því að láta hann lesa slíkar bækur. Eins er líklega með bók þá, er háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hefir gefið út um Jón Þorkelsson stofnanda Thorkilliisjóðs. Bók þessi er þannig úr garði gerð, að hún er öldungis ólesandi, og nú fer höfundur bókar þessarar fram á, að skylda alla barnaskóla til að kaupa þessa dýru bók (10 krónur?); og ætlast hann þá líklega til, að hún verði notuð til að láta óknytta-krakka, sem ekki þola flengingu, eða eru upp úr henni vaxnir, lesa þessa ritsmíð sína í skammarkróknum.

Tillagan er sú fáránlegasta og lýsir sér sjálf svo vel, að eg vona, að þessi ummæli mín verði henni nægur banabiti.