04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Hannes Hafstein:

Eg á að eins eina brt. við fjárl.frv. í þetta sinni, um 300 kr. fjárveitingu handa háöldruðum heiðursmanni, Sighvati fyrrum alþingismanni Árnasyni. Hann er nú á 88. ári. Hann hefir setið á fleiri þingum en nokkur núlifandi Íslendingur. Alls hefir hann setið á 18 þingum, kom fyrst á þing 1865, en sat síðast á þingi 1902. Störf hans á þingi eru svo alkunn, að eg þarf ekki að lýsa þeim. Hreppstjóri var hann í 34 ár, sýslunefndarmaður 30 ár og sáttanefndarmaður 34 ár. Það er orðlagt, hversu honum fór vel úr hendi sáttaumleitan; á öllum þeim árum, sem hann var sáttasemjari, var að eins eitt mál úr sáttaumdæmi hans, sem gekk til dómstólanna. Hann settist að hér í Reykjavík 1901; átti hann þá nokkrar eignir, en þær munu nú að mestu gengnar upp. Hann hefir haft 25 kr. á mánuði fyrir bókavörzlu alþýðulestrafélagsins. Þetta starf missir hann nú. Safnið er opið á kveldum, en hann þolir ekki útivist svo síðla dags og hefir læknir hans bannað honum það. Til uppbótar fyrir þennan tekjumissi hefi eg nú lagt til að veita honum 300 kr. á ári. Eg ímynda mér, að eg þurfi ekki að mæla frekara með tillögunni. Eg skal að eins geta þess, að börn hans eru ekki svo efnum búin, að þau geti séð fyrir honum, enda ekki skemtilegt fyrir hann að vera kominn upp á annara náðir á gamals aldri.

Háttv. fjárlaganefnd leggur til að fella burtu þær 400 kr., sem háttv. Ed. bætti við »pensión« Matthíasar Jochumssonar. Eg ímynda mér, að flestir þm. hafi lesið umsókn séra Matthíasar, sem liggur frammi á lestrarsalnum. Pensiónin var honum veitt aðallega sem skáldstyrkur, þegar hann fór frá embætti sínu sem prestur á Akureyri en sérstök eftirlaun af prestakallinu hefir hann aldrei fengið. Væri eftirlaunin rétt reiknuð, þá væri viðbótin, sem hann nýtur sem skáldastyrks, ekki meiri en skáldalaun, sem sumir aðrir höfundar fá, og gæti þessi upphæð, sem hér er um að ræða, verið til uppbótar fyrir það. En aðalatriðið er það, að hann þarf þessarar litlu viðbótar með. Vér eigum að eins einn Matthías, og er enginn hans jafnoki þeirra skálda, sem nú eru uppi, en oss er það mikil skömm að láta hann lifa í kröggum á gamals aldri. Hann er enn fjölskyldumaður, verður að sjá fyrir börnum og nokkrum barnabörnum, og getur því ekki komist af með þeim eftirlaunum, sem hann hefir nú. Mér finst þingdeildin ekki geta verið þekt fyrir, að fella burt aftur þessa litlu uppbót, sem efri deildin hefir samþykt orðalaust, í einu hljóði. Eg skil ekki í því, að háttv. fjárlaganefnd skuli geta fengið af sér að amast við þessum litla virðingarvotti, og mun syndapoki þessa þings nógu digur fyrir því, þó að ekki bætist enn við í hann sá smásálarháttur, að synja Matthíasi Jochumssyni um annað eins lítilræði, og hér er um að ræða.

Eg skal ekki lengja frekar en orðið er umræður um botnvörpusektamálið. Eg er á þeirri skoðun sem áður, að alþingi sé ekki vanvirðulaust að stryka út þá fjárveitingu, eins og hún er til komin, og oft hefir verið útskýrt. Það mun ekki þýða að endurtaka röksemdirnar. Það mun vera ráðið fyrirfram, hvernig atkvæði verða greidd. Eg endurtek það að eins, að það er ekki sæmdarauki fyrir þingið og ekki traustsauki fyrir landið, að þessi þingdeild enn á ný, þrátt fyrir atkvæði efri deildar, gangi á móti endurteknum samþyktum undanfarinna þinga, að eins af einhverjum mikilmenskureigingi gagnvart Dönum.

Hér er till. á þgskj. 930 um 1200 kr. fjárveitingu til forseta sameinaðs þings, til að mæta fyrir alþingis hönd á 1000 ára hátíð Norðmandís í sumar. Eg vil leyfa mér að spyrja um það, hvort háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir sótt um þennan styrk eða ekki, og hvort þm. þyki ekki kappnóg, að sá maður fari, sem Ed. hefir fyrir sitt leyti veitt styrk til fararinnar og sótt hefir um það. Alþingi getur nægilega leyst hendur sínar með því að senda samfagnaðarkveðju í bréfi eða símskeyti. Mér er ekki kunnugt um það, hvort háttv. þm.

N.-Ísf. (Sk. Th.), sem nú er forseti sameinaðs þings, er svo vel að sér í frönskunni, að hann geti t. d. haldið ræðu á frönsku. Það má vel vera, að svo sé, og að hann þyki að öðru leyti vel til slíks erindis fallinn. Þetta og annað, sem till. snertir, væri gott að fá upplýst.