04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Eg ætla ekki að segja margt, og mundi alls ekki hafa tekið til máls, ef eg hefði ekki verið búinn að biðja um orðið áður en háttv. þm. S.-Þing.

(P. J.) talaði. Hann hefir tekið fram flest, það er eg vildi sagt hafa. Eg vil að eins fá því slegið föstu, fá það svart á hvítu í þingtíðindunum, hversu greinileg fjárhagsstefna flokkanna kemur fram í breyt.till. Frá sjálfstæðismönnum liggja fyrir till. um hækkun útgjaldanna, að upphæð 187550 kr. Frá heimastjórnarmönnum er að eins ein till. um 600 kr. hækkun. Frá utanflokksmönnum engin. Auk þess eru allar breyt.till. nefndarinnar; en hún er samsett af báðum flokkum og sleppi eg því þeim till. þótt sjálfstæðismenn séu þar í meiri hluta og ráði því mestu. Þetta tek eg fram til þess, að það komi skýrt fram í þingtíðindunum, hver flokkur það er, sem nú ræður mestu um þá niðurstöðu, er verður á fjárlögunum. Það er þess vert að fá því slegið föstu nú, þegar allir hrópa upp um það, að fjárhagurinn sé slæmur og nauðsyn sé að tekjurnar »ballanceri« við útgjöldin. Hér sést, hver flokkur því veldur, að tekjuhallinn mun verða meiri en dæmi eru til áður.