04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Hannes Hafstein:

Eg þóttist skilja það á háttv. forseta samþ. (Sk. Th.), að hann vildi gjarna, að sér væru veittar þessar 1200 kr. til þess að sækja 1000 ára hátíðina í Normandí fyrir alþingis hönd. Það gleður mig, hvað hann treystir sér vel. Ekki mundi mig fýsa að fara þessa för, ef eg væri í hans sporum. En það er nú víst líka nokkur munur á frönsku-kunnáttunni okkar. Mín er víst ekki beysin, ef það er satt, sem hann lagði svo mikla áherzlu á, að eg hafi í veizlu fyrir foringja á franska herskipinu látið »chefinn« sjálfan sitja sem lengst frá mér við borðið! En eg held að líka megi skilja þetta atriði á annan veg. Háttv. þm. hefir ef til vill ekki heyrt þess getið, að það er sumstaðar talin kurteisi, að vísa heiðursgestinum til sætis í heiðurssætinu við hlið húsfrúarinnar, án þess að húsbóndinn klíni sér þar hjá. Hann hefir þá oftast sitt sæti hinumeginn við borðið og lætur sér nægja að setja þann næst æzta hjá sér. Mér þykir ekki ósennilegt, að háttv. þm. kynnist einhverjum mannasiðum í þessa átt, ef hann fer þessa Frakklandsför, sem hann fýsir svo mjög til og í öllu falli vona eg, að hann verði búinn að læra það, áður en hann kemst í hið langþreyða ráðherrasæti — ef það á fyrir honum að liggja — og fer að halda »franskar veizlur« eða önnur heimboð. Eg vil að eins benda á annað atriði þessu viðvíkjandi. Það stendur, að þessar 1200 kr. eigi að notast í sumar, þó er lagt til að taka upphæðina á fjárlögin 1912—1913, löngu eftir að hátíðin verður um garð gengin. Hvernig hugsa menn sér, að upphæðin geti komið í landsreikningunum 1911? Eg held, að þessi till. hafi komið óvart fram hér, eða vanhugsað. Tillagan hefði átt að koma fram við aukafjárlögin frá 1910 —1911, eins og styrkveitingin til magisters Guðm. Finnbogasonar. Af hverju það hefir ekki verið reynt veit eg ekki. Nú er eftir þingsköpum ómögulegt að koma þessu að í fjáraukalögum lengur, því þau eiga að eins eftir að fara í sameinað þing, og þar komast nýjar tillögur ekki að, eins og kunnugt er. En eins og nú er komið, skil eg ekki, hvernig þessi fjárveiting kemur að gagni á fjárlögum fyrir næsta fjárhagstímabil, nema því að eins að sendiherrann kosti ferðina úr sínum eigin vasa og eigi svo endurgreiðslurétt á því fé, þegar fjárlögin 1912—1913 eru komin í gildi.