17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Ráðherrann (B. J.):

Eftir þessu frv. er farið fram á rúmra 100 þús. kr. fjárveiting fyrir ýmsan kostnað fram yfir það, sem veitt er í fjárlögunum. Er eins og vant er þörf á slíku, bæði af fyrirsjáanlegum og ófyrirsjáanlegum atvikum. Um þetta læt eg mér nægja að vísa til athugasemdanna við frumv. Eg skal að eins benda á eina fjárveitingu, 40 þús. kr. til fyrirhugaðs loftskeytasambands milli Reykjavíkur og Vestmanneyja. Um það hefir verið gerður samningur upp á væntanlegt samþykki alþingis. Mun eg gefa nefnd þeirri, fjárlaganefndinni, er um málið mun fjalla, skýrslu um það. Um árskostnaðinn við rekstur stöðvarinnar skal eg taka það fram, að hann er nokkuð settur af handahófi í fjárlögunum og mun vart reynast nákvæmur. Stafar það af því, að stjórninni höfðu ekki borist nægar skýrslur um þetta efni, er fjárlagafrv. var úr garði gert. Eg þykist mega fullyrða, að árskostnaðurinn verður nokkuru minni, en ráð er fyrir gert í fjárlagafrv. stjórnarinnar, einkum við stöðina í Reykjavík. Eg mun á sínum tíma gera nefndinni grein fyrir því.