01.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Gunnar Ólafsson:

Eg á hér eina litla br till., sem eg vildi leyfa mér að fara um nokkrum orðum Og vil eg þá fyrst geta þess að einn háttv. nefndarmanna, hv. 5. kkj. hafði lofað mér að þessi till. skyldi ekki verða samþykt. Háttv. 5. kkj. hefir víst heldur aldrei verið sérlega ant um að græða upp landið. Annars var það ekki ásetningur minn að ýfa hans góða skap! Þessu máli er svo varið að einn hreppur í Vesturskaftafellssýslu á við þau kjör að búa, að eyðileggjast þá og þegar af sandfoki; en það er svæðið á milli Eldvatns að austan og Kúðafljóts að vestan; þetta er stórhættulegt fyrir héraðið, og þess vegna skrifuðu menn umboðsmanni og báðu hann að sjá svo um, að stjórnarráðið léti skoða landsvæði þetta. Á þinginu 1903 voru veittar 4500 kr. til sandgræðslu þarna, gegn jafnmiklu framlagi annarstaðar frá, en það fékst ekki og því komst þessi sandgræðsla ekki í framkvæmd. Umboðsmaðurinn skrifaði síðan Stjórnarráðinu og skógræktarstjóri landsins hefir gert mælingar og áætlanir um kostnaðinn, leggur hann eindregið til, að þessu verki verði sem fyrst komið í framkvæmd. Ef vatni er veitt á sandana, þá hindrar það sandrokið allmikið, og í stað þess að fá vatnið úr Eldvatni, sem áætlað var að kosta mundi 9000 kr., má nota Ásakvíslar, og mundi þá vatnsveitan ekki kosta nema 3500 kr. og eg verð að líta svo á, að það sé bein skylda þings og stjórnar að koma þessu nauðsynjaverki í framkvæmd sem allra fyrst. Búnaðarfélag Íslands hefir haft nokkur afskifti af málinu, hefir t. d. sent ráðunaut sinn Sigurð Sigurðsson austur, og telur hann þetta hið mesta nauðsynjamál.

Málið er ekki flókið og eg vona að hv. deild líti á það sanngjörnum augum, og eg efa ekki að þingið vilji styðja að velferð bændanna jafnframt því, að verja eigur landsjóðs fyrir skemdum, því að svo sem kunnugt er, er það svæði, sem hér um ræðir, landsins eign.