15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Björn Jónsson:

Það er um loftskeytasambandið aðallega, sem eg ætla að tala. Eg hygg, að það sé það eina rétta, sem velja beri í þessu máli. Ráðunautur stjórnarinnar hér í símamálum, landsímastjórinn, er gallharður móti loftskeytum. Ef sími yrði lagður til Vestmannaeyja, mundi það bráðlega koma í ljós, að því fé væri algerlega á glæ kastað, og að nauðsynlegt yrði að setja upp loftskeytastöð alt um það, bæði vegna tíðra bilana á sæsímanum milli lands og eyja, eins og í Færeyjum, og vegna skipa, sem hafa loftskeytatæki. Þar að auki er búist við, að skip, sem koma við á Bretlandi og hafa 15 farþega eða fleiri verði þá og þegar skylduð með lögum til að hafa loftskeytatæki. Enn er það, að »Islandsfalk« hefir þegar fengið sér þessi tæki, og sjá allir, hversu nauðsynlegt er, að varðskipið geti notað þau hér vegna botnvörpuveiðanna. Ennfremur er mér sagt, að brezki fiskiflotinn hér við land muni vera kominn á flugstíg að koma sér upp loftskeytatækjum.

Af þessu er auðsætt, að loftskeytasamband hér yrði mjög fljótt næsta arðsamt fyrirtæki, því að skip mundu brátt taka upp loftskeyti og með tímanum mundi skifta hundruðum skipin, sem notuðu sambandið. Þegar eg átti tal við forstjóra mikla norræna símafélagsins um þetta efni í vetur (Suenson) var hann í fyrstu andvígur því, en er eg lýsti fyrir honum, hversu mikill tekjuauki þetta yrði fyrir millilandasímann, félst hann á, að rétt væri að setja upp loftskeytastöð í Vestmannaeyjum.

Nú hefir því verið varpað fram af símastjóranum hér, að hentast væri að leggja síma til Vestmannaeyja, en hafa loftskeytastöð hér í Reykjavík, og heldur hann, að loftskeytastöðin yrði starfrækt með sama fólki, sem hér er á símastöðinni. Ef þetta ráð væri tekið, og koma ætti síðan Skaftafellssýslum í loftskeytasamband við Reykjavík, kostaði hvorttveggja 60—65 þús. kr., og mun þó vera lágt talið; í stað þess mundi loftskeytasambandið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja kosta í mesta lagi 40 þús. kr. Sá er ennfremur munurinn, að með loftskeytasambandi til Vestmannaeyja er fengið samband við alt landið, meira að segja við allan heiminn Þingið má ekki taka mark á óskum einstakra manna eða þingmálafunda í einu héraði; þetta snertir alt landið. Þingmálafundir eru ekki neitt yfir-alþingi, þótt sumir kunni að líta svo á. Það fer upp og niður hverjir sækja þingmálafundi, sumir eru merkismenn, en misjafn sauður í mörgu fé vitanlega; þar um ræður tilviljun mestu. En þótt þingmenn leggi áherzlu á, að talað verði um land frá Vestmannaeyjum, þá er því til að svara, að með loftskeytum má nú orðið tala í 40 rasta fjarlægð. Það er með öðrum orðum upp á Rangárvelli, og loftskeytalistin er á svo miklu framfarastigi, að búast má við að eftir örfá missiri verði hægt að tala miklu lengra.

Enn er eitt ótalið, sem ríða á baggamuninn, en það er það, er sagt hafa mér sérfróðir menn, að eins og illviðri á landi hafa þau áhrif á símasamband þar, hvernig sem á því stendur, að oft heyrist mjög illa, þegar talað er langa leið, þá er að sögn enn meiri tálmi að slíku á sjó (brim), auk þess sem símanum yrði mjög hætt við slitum, og yrði það ekki lítið fé, sem til þess færi. Um sundið milli Frakklands og Englands kvað vera oft ókleift að tala, þótt tala megi viðstöðulaust aðra eins vegalengd og er frá Berlín og suður í Róm.

Milli Þórshafnar og Suðureyjar á Færeyjum slitnaði síminn 13 sinnum árið sem leið, og er voði að hugsa til þess, ef hér þyrfti að bæta símann, þótt ekki væri nema helmingi sjaldnar. Eða hví skyldi hættan vera minni hér en í Færeyjum, einkum er við bætist sú hætta, sem stafar af botnvörpunum hér við land. Ef farið væri að leggja sæsíma til Vestmannaeyja yrði að halda áfram símanum austur um Skaftafellssýslu. En margfalt ódýrara væri að hafa loftskeytasamband við Vestmannaeyjar. Loftskeytastöðvar á 5 stöðum í Skaftafellssýslu, Vík, Þykkvabæ, Kirkjubæ, Öræfum og í Hornafirði, með sambandi við Vestmannaeyjar, mundu ekki kosta meira en venjulegur landsími ekki lengri veg en frá Garðsauka til Víkur í Mýrdal. Það sjá því allir, hvílíkt óvit það er, að taka ekki loftskeytasambandi vegna þessa svæðis eins, þótt ekki væri annað. Þar við bætist, að landslagi í Skaftafellssýslum er svo háttað, að ókleift er að leggja þar landsíma vegna vatna og jökla.

Þá eru ekki smáræðishlunnindi að loftskeytastöð, meðal margra annara, að þær geta orðið til að bjarga lífi manna, eins og mörg dæmi eru til.

Það er ábyrgst, að loftskeytastöð í Vestmannaeyjum mundi draga 350 enskar mílur. Um Ástralíueyjar, Azoreyjar og Canaríeyjar eru alstaðar notaðar loftskeytastöðvar.

Mér hefir verið svo frá sagt af fróð um mönnum, að ein símabilun mundi ekki kosta landið minna en 10 þús. kr. Látum nú svo vera, að þessi sæsími ætti að vera traustari en allir aðrir sæsímar. Þótt hann slitnaði ekki nema 10 sinnum á ári, þá yrðu það 100 þús. kr., og landssjóð munar um minna en það.

Þetta tilboð, sem stjórninni hefir verið gert, er yfirleitt svo ódýrt og aðgengilegt, sem frekast verður á kosið, og er það sjálfsagt mjög að þakka landa vorum, hr. Vilhjálmi Finsen. Félag þetta býðst til þess að reisa þessar stöðvar nú síðari part sumars og að starfrækja þær, landinu að kostnaðarlausu það sem eftir er árs þá. Þeirri grýlu hefir óspart verið fyrir sig brugðið hér og af miklu kappi, að það kosti svo afarmikið að starfrækja þessar stöðvar, og tekin dæmi frá Noregi. Þeir sem þá töluðu höfðu nú víst reyndar enga þekkingu á þessu, nema hvað þeir höfðu lesið það í einhverju blaði, að það hefði kostað 3—4 þús. kr. á ári að starfrækja eina stöð á Hálogalandi. En það vill nú svo til, að þessi stöð var hálfu dýrari en annarsstaðar gerist, af því að henni var svo óhaganlega fyrir komið. Þar unnu 3 menn, þar af 1 yfirmaður, stöðin var opin dag og nótt og 8 tíma vaka. Þess vegna varð þetta svo dýrt. Aðrar stöðvar, sem síðan hafa verið reistar þar, hafa reynst meira en helmingi ódýrari.

Eg hygg, að þessi skýrsla ætti nú að vera nóg til þess, að engum ætti að detta í hug að fleygja jafnmiklu fé í sjóinn af þessari ástæðu. Að vísu geta menn nú reynt að segja — því »þau tíðkast hin breiðu spjótin« — að þetta sé tilbúningur, að eg segi ekki lýgi, og eg fer nærri um það, að sumum kunni að þykja það vel við eiga, þegar eg á í hlut. En eg skal benda á það, að hægt mun vera að fá fulla sönnun fyrir hverju atriði, sem hér er sagt, á undan 3. umr.