15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jón Sigurðsson:

Eg ætla að segja fáein orð um breyt.till. á þgskj. 211. Það eru 3 þús. kr. til Borgarfjarðarbrautar, sem hér er farið fram á. Þessi vegur hvílir á landssjóði, en fé það, sem var fyrir hendi er nú þrotið, og svo stendur á, að vegarspottinn endar í ófærri mýri. Hér liggur nú fyrir ósk frá eigendum landsins og hlutaðeigandi sýslumanni um það, að fé sé veitt til þess þegar á þessu þingi, að brúa mýrina. Það er hin brýnasta nauðsyn, að það verði gert þegar á næsta sumri, því að nú er hún ekki fær nema á klaka, svo að annars verður að fara um tún og engjar, svo að brautin kemur ekki að notum, nema hún sé lengd upp í holt, sem er fyrir ofan mýrina.

Eftir lauslegu samtali við verkfræðing landsins býst eg við, að þetta mundi kosta 3 þús. kr., en eg get búist við því, að breyt.till. háttv. fjárln., sem fer fram á 2 þús. kr., hafi meira fylgi, og að þar sem tilgangurinn er sá sami, þá verði hún samþykt. Hún verður borin upp fyrst, og ef hún nær fram að ganga, þá er mín till. þar með fallin. En samkvæmt upplýsingum frá háttv. framsögumanni nefndarinnar, vænti eg að minsta kosti þess, að ekki verði nein fyrirstaða fyrir að fá það, sem þar er farið fram á.

Eg skal ekki að svo vöxnu máli blanda mér mikið inn í það, sem hér er til umræðu um loftskeytin til Vestmannaeyja. En eftirtektavert þótti mér það, að nú skuli það enn vera viðurkent af meðmælendum loftskeytanna, að þau séu enn þá á tilraunastiginu. 1905 var því sama haldið fram, en þá var sagt, að þau væru í svo mikilli framför, að eftir 2—3 missiri væru þau alfullkomin. Nú heyrum vér hið sama, og það segja fylgismenn þeirra. Enn er það ekki víst, hve stórt svæði þau ná út yfir. Eg álít það því hyggilega gert af háttv. fjárl.n, að leggja það að landsstjórninni verði falið að velja um, hvort heldur skal taka loftskeyti eða sæsíma, þá er hún hefir kynt sér hvorttveggja, eftir þeim upplýsingum, sem hún getur aflað sér. Sérstaklega er það rétt að fela stjórninni þetta nú, því að vér höfum stjórn, sem vér getum treyst og ekki er ástæða til að taka fram fyrir hendurnar á. Skal eg svo ekki tefja umræðurnar meira að þessu sinni.