15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jón Magnússon:

Eg á hér tvær breyt.till., og gleður það mig, að háttv. fjárl.n. hefir tekið vel í aðra þeirra. En eg á bágt með að skilja, hvers vegna hún hafi ekki fallist einnig á hina.

Eg hefi farið fram á það, að frú Þóra Melsteð fái að njóta eftirlauna frá dauðadegi manns hennar, Páls Melsteðs sagnfræðings. Mér finst sem sé sjálfsagt að ef þingið veitir henni eftirlaun á annað borð, þá fái hún þau frá þeim tíma, sem hún þarf þeirra með, þ. e. frá dauða manns hennar, sérstaklega þar sem hún er orðin svo háöldruð, komin hátt á níræðisaldur. Það gæti farið svo, að ef nú ætti að fara að draga þessa styrkveitingu í 2 ár, að þá nyti hún hennar aldrei. Enda hefir stjórninni þótt þetta svo sjálfsagt, að hún hefir þegar veitt henni eftirlaun frá 1. marz 1910, og standa þau í samræmi við eftirlaun manns hennar. Það getur verið efi um það, hvort full lagaheimild er fyrir þessu, en um það skal ekki deilt. Eg ætla ekki að fara að tala um það, hvort kona þessi eigi skilið að fá þá viðurkenningu, er hér er farið fram á. Um það eru víst allir samdóma. Hún er ekkja manns, sem þjóðin á mikið gott upp að unna, og sjálf hefir hún einnig um langan aldur um 40 ár varið öllum kröftum sínum í almennings þarfir og unnið mikið verk til þjóðþrifa. Eg vona því, að menn sjái, að það er ekki nema skylt, að hún fái styrk frá þeim tíma, er hún misti manns síns við.

Að því er hina breyt.till. snertir, þá hefir fjárl.n. vikist vel við henni, eins og líka sjálfsagt er. Eg tel samt sjálfsagt að skýra nokkuð, hvernig á stendur með hana. Hún ætti að vera háttv. fjárlaganefnd kunnug, því að leitað hefir verið um höfn í Vestmannaeyjum til fjárlaganefndanna hér á þingi bæði 1907 og 1909. Árið 1909 lágu hér fyrir þinginu teikningar og áætlanir um hafnargerð frá Krabbe verkfræðingi og hefir mér ekki enn tekist að fá þeim gögnum skilað aftur síðan. Þau munu hafa lent annaðhvort hjá fjárlaganefndinni eða í stjórnarráðinu. 1908 var verkfræðingurinn í Vestmannaeyjum og mældi höfnina og gerði áætlun um kostnaðinn. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að gera mætti nokkurn veginn góða bátahöfn með um 40 þús. kr. tilkostnaði, en ef hún ætti að koma að fullum notum, bæði fyrir báta eyjabúa og hafskip, þá þyrfti til þess miklu meira fé. Fjárlaganefndin 1907 tók það til íhugunar, hvort landið sjálft, sem á allar eyjarnar, væri ekki eiginlega skyldugt til að gera þar höfn og njóta síðan hagsmunanna af henni. En peningaleysið var því til fyrirstöðu, og eg fyrir mitt leyti hefi ekki von um það, að landssjóði sé fært að leggja svo mikið til þessa fyrst um sinn, sem með þarf. Eyjabúar byggja ekki á því heldur, en hafa nú staðráðið að gera höfn fyrir alt að 60 þús. kr. Þeir treysta því, að þetta muni borga sig, því að þeir eiga bátaútveg, sem kostar um 300 þús. kr. eða meira, og hann er í hættu staddur eins og er, og þeir hugsa sér ekki að leita styrks hjá þinginu til þessa. En þeir ætlast til þess, að þeim verði veitt þessi litla upphæð til þess að rannsaka hafnarstæðið til fullnustu, því að þeir vilja ekki leggja út í þetta stórræði, nema undan sé genginn hinn nauðsynlegi undirbúningur. Annarsstaðar hefir þótt sjálfsagt, að veita ekki einungis fé til rannsókna og undirbúnings slíkum fyrirtækjum, heldur og ? hluta af öllum kostnaðinum. Það er því lítið, sem hér er farið fram á, svo að eg get ekki hugsað mér, að neitað verði um það. Hugsunin er sú, að reyna að fá álit reynds hafnarverkfræðings um málið, og getur hann að sjálfsögðu bygt álit sitt á skýrslum, sem þegar eru fengnar. Þetta kemur ekki af vantrausti á Krabbe verkfræðingi, heldur vilja eyjaskeggjar vera öruggari um það, að óhætt sé að ráðast í fyrirtækið. Eg vona nú, að eg hafi sannfært háttv. deild um það, að hér er ekki farið fram á annað en það, sem sjálfsögð skylda sé að veita. Og eg get bætt því við, að þetta er því sanngjarnara, þar sem Vestmannaeyjar njóta ekki neinna hlunninda frá landinu til samgangna, og eru ekki vanir að betla á þingið, en leggja meira í landssjóð en nokkrir aðrir, nema ef til vill Reykvíkingar. Tekjur landssjóðs af Vestmannaeyjum nema nú meira en 40 þús. kr. á ári, og það ætti þó að vega nokkuð.

Eg hefi ekki komið fram með brtill. viðvíkjandi hraðskeytasambandinu við Vestmannaeyjar, þótt eg fyrir mitt leyti álíti það sjálfsagt að koma þar á sæsímasambandi. Eg skal ekki rengja skýrslur háttv. fyrv. ráðherra (B. J.), það sem þær ná, en geta skal eg þess, að eg hefi ekki mikla trú á því, að stórar tekjur fáist af loftskeytasambandinu við farþega- eða fiskiskip. Það er vitanlegt, að símatekjurnar koma mestmegnis frá kaupmönnum og öðrum, sem hafa samskonar viðskifti. Og þótt nokkur fiskiskip kynnu að útvega sér slík tæki, þá mundu tekjurnar ekki aukast mjög mikið við það. Nú sem stendur hafa varla nokkur fiskiskip, þeirra er koma hér við land, loftskeytaáhöld. Það getur verið, að ný skip fái sér þau, en það mun kosta eitthvað 3—5 þús. kr. Það er völt ágizkun að byggja mikið á slíku. Ennfremur efast eg um, að reksturskostnaður við loftskeytin sé áætlaður nógu hátt. Það má vel vera, að þetta sé í boði nú, en ekki er ólíklegt, að félagið bjóði svo lágt meðan það er að smeygja sér inn, en hækki svo seinna, þegar það er komið vel á laggirnar hér. Það tjáir ekki að mæla á móti því, að loftskeytasamband er mikið ófullkomnara. Þótt hægt sé auðvitað að senda loftskeyti milli eyja og lands, hvað er það þó á móti því, að geta talað í síma um alt landið? Eg held, að allar ástæður háttv. þm. Barð. (B. J.) séu óábyggilegar. Sú ástæða hefir oft komið fram, að sæsími milli eyja og lands sé altaf í mikilli hættu vegna bilana, en eg skal nú reyna að sýna fram á, að sú ástæða er ekki mikils virði. Eg efast ekki um, að upplýsingar háttv. þm. Barð. (B. J.) um símann í Færeyjum séu réttar; en þar er ólíku saman jafnað. Bæði er mikill straumur milli eyjanna í Færeyjum, sem oft getur valdið skemdum, en milli Vestmannaeyja og lands er eigi tiltakanlega mikill straumur, og líka eru í sjónum við Færeyjar talsvert af smádýrum, sem geta eyðilagt þræðina, en slíkra dýra verður ekki vart hér. Við verðum að byggja á okkar eigin reynslu, en ekki annara. Líka höfum við hingað til haft betra efni í símunum og munum hafa sama efni framvegis. Símastjóri hefir getað gert við sæsíma á mótorbát og því þarf ekki svo mjög að óttast, að viðgerð verði óframkvæmanleg fyr en eftir langan tíma eða mjög dýr. Það hefir verið sagt, að auðvelt væri að hafa loftskeytasamband milli Vestmannaeyja og Skaftafellssýslu. Það er að vísu satt, en þó er ekki samjöfnuður á því fyrir héruðin og talsímasambandi. Loftskeytasambandið yrði að eins milli tveggja stöðva eða fárra að eins, en talsímanetið nær um alt landið. Það er ekkert álitsmál, að sæsíminn er sjálfsagður. Eg hefi ekki komið fram með neina breyt.till. Eg vil vita, hvort ekki sé hægt að sætta sig við breyt.till. nefndarinnar. Ef svo verður ekki, þá er hægt að breyta við 3. umr. Eg skal svo ekki þreyta menn lengur. Þetta mál er margrætt áður og eg vona að menn séu nú búnir að átta sig á því og sjá það eina rétta.