15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Benedikt Sveinsson:

Eg ætla að fara fám orðum um viðaukatill., er fer fram á fjárveitingu til þess að brúa Hölkná í Þistilfirði. Á seinasta þingi var samþykt hér í deildinni að veita fé til þess að brúa þessa á og Sandá, en háttv. Ed. vildi ekki veita fé nema til brúargerðar á Sandá. Var þó bent á, að þetta væri ósanngjarnt og óheppilegt vegna þess, að mikið fé hefði sparast við það, að báðar árnar yrðu brúaðar í einu. Það er einnig bráðnauðsynlegt að fá sem fyrst brú á Hölkná líka, því að öðrum kosti kemur hin brúin ekki að tilætluðum notum. Eg get rifjað það upp fyrir mönnum, sem eg sagði í fyrra, að á þessi er ill yfirferðar vor og haust, rennur eftir miðri sveit, og póstur hefir oft tafist við hana. Kostnaður við brúargerðina yrði ekki meir en 4500 kr., því að brúarstæðið er ágætt. Málið fékk góðar undirtektir á síðasta þingi hér í deildinni, og vil eg því vona, að háttv. deild sinni því ekki síður nú. Eg get mint á það, að talsvert fé hefir sparast við vitann á Rifstanga, svo að það er ekki mikið fé, sem landssjóður veitir til héraðsins. Þetta mál er áhugamál allra héraðsbúa og hefir verið samþykt með öllum atkvæðum á þingmálafundum þar, að óska þessarar fjárveitingar.

Um loftskeytasambandið ætlaði eg ekki að fara mörgum orðum, en vil þó nota tækifærið til þess að leiðrétta dálítinn misskilning, sem kom fram í orðum háttv. þm. Mýramanna (J. S.). Hann sagði, að loftskeytin væru ennþá á tilraunastigi. Þetta er ekki rétt, heldur þvert á móti Þau eru notuð um allan heim og standast fullkomlega samkepni við eldri aðferðirnar — þráðlaus viðtalstæki eru á tilraunastigi, en loftskeytin eru ekki á tilraunastigi lengur, þótt þau séu á framfarastigi og menn geti með hverjum deginum sem líður sent loftskeyti yfir lengra og lengra bil.