15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Sigurður Gunnarsson:

Eg á viðaukatillögu á þgskj. 199 um að veita 3 þús. kr. til brúargerðar á Bakkaá og Síki í Helgafellssveit. Eg skal taka það fram, að á þgskj. stendur 3500 kr., en það á að vera 3000 kr. Á síðasta þingi fór eg fram á það eftir ósk kjósenda minna, að nægilegt fé væri veitt til þess að brúa þverárnar á þjóðveginum norðan Snæfellsness; fjárlaganefnd neðri deildar tók vel í málið, en féð, sem háttv. efri deild veitti varð þó ekki meira en svo, að það nægði að eins til þess að brúa aðra af þessum ám, en eftir er að brúa aðra þeirra, Bakkaá, og auk þess hið svonefnda Síki. Það sjá allir, að það er mesta ómynd að láta þjóðveginn, sem á að vera akvegur, vera slitinn í sundur af tveim torfærum. Ferðamenn, sem leið þessa þurfa að fara, verða einatt á vetrardag að taka á sig stóra króka og mæta oft hrakningum við torfærur þessar. Og það eru ekki meira en 2—3 ár síðan, að pósturinn við annan mann varð úti einmitt við aðra þessa á nálægt Kerlingarskarði, Hefði hann komist yfir ána, hefði hann komist af, því það er ekki nema 15 mínútna leið til næsta bæjar. Það er annars furða, að árnar skuli ekki hafa vera brúaðar þegar um leið og vegurinn var lagður, því eins og nú er, eru ekki nærri full not að honum. Það ber líka að gæta að því, að þetta er eini vegurinn á öllu Snæfellsnesi, sem landssjóði ber að annast. Og þessi vegur á að sjálfsögðu tilkall til þess, að landssjóður kosti hann að öllu leyti. Framsögum. tók liðlega í þessa tillögu mína, en fann henni það til foráttu, að upplýsingar vantaði. Nú hefi eg aflað mér upplýsinga hjá verkfræðingi landsins og hann hefir tjáð mér, að brúa megi ána og Síkin fyrir 3 þúsund kr. Eg vonast nú til, að hin háttv. deild sjái sanngirni í því að hafa þessar torfærur ekki lengur þarna þversum á veginum. Eg skal líka geta þess, að það eru liðin 11 ár síðan byrjað var á vegagerðinni, og henni er enn ekki komið lengra en svo, að hún nær yfir einn hrepp sunnanfjalls og þó tæplega, og tæpa tvo hreppa norðanfjalls. Eg veit margir ætla að tala, svo eg skal vera stuttorður úr þessu. En þá von mína læt eg í ljósi, að þingdeildarmenn styðji ekki að eins tillögu fjárlaganefndarinnar um að leggja veg meðfram Ingólfsfjalli heldur og tillögu mína um að brúa Bakkaá og Síki.

Um merkilegasta málið á fjáraukalögunum, þ. e. sambandið milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur hefir þegar töluvert verið rætt. Eg skal ekki fara neitt nánar út í þau atriði, en að eins geta þess, að eg í því máli hallast að skoðunum hins háttv. þm. Barð. (B. J.) og hins háttv. þm. Dal. (B. J.). Og eg veit það með vissu, að hinn háttv. þm. Barð. (B. J.) hefir gert sér mikið far um að afla sér upplýsinga í þessu máli, og eg ætla að lýsa yfir því, að eg mun greiða atkv. með loftskeytasambandi.

Eg get tekið undir með hinum háttv. þm. Vestm. (J. M.), að nauðsyn beri til þess að rannsaka hafnarstæði í Vestmannaeyjum, og er margt, sem mælir með því, sem eg ekki skal fara frekar út í en að taka fram, að eg vil styðja svo sem fært er alt sem miðar að því að efla og tryggja atvinnuvegina, en eitt af því eru hafnamálin.

Afstaða mín í háskólamálinu hygg eg sé hinum háttv. deildarmönnum svo kunn, að eg þurfi ekki að fara mörgum orðum um það mál. Að eins skal eg taka það fram, að eg er þar alveg á sama máli og háttv. þm. Dal. (B. J.). Annars mun eg með atkv. mínu sýna afstöðu mína til hinna ýmsu atriða frumvarpsins.