01.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Kristinn Daníelsson:

Eg á hér 2 br.till. Sú fyrri er um Súgandafjarðarsímann. Eg fór fram á það á fjáraukalögunum að sími þessi yrði lagður gegn ? frá héraðsbúum. Og nú hefi eg komið með þetta á fjárlögunum fyrir 1912 —13, og hafði þá lækkað till. héraðanna niður í 20 af hundraði. Eg álít þetta nauðsynjamál, héraðið er blómlegt og auk þess eitt af fiskisælustu bygðarlögum. Þar hefir stundum verið fult af síld, sem hefði getað orðið að stóru gagni, ef ekki hefði bagað símaleysi.

Háttvirtur framsögumaður hafði það á móti þessu nú, að það væri ekki í samræmi við símalögin og að þessu héraði væri ekki vandara um en öðrum.

Árið 1906 var það skoðun þings og stjórnar að þessa símalínu ætti að leggja og þó að símalögin geti verið góð, þá ætti þó að mega breyta þeim, þar sem þörf þykir eða þar sem héruðin vilja leggja mikið af byrðinni á sig.

Að vísu efast eg um að þessi sími verði lagður, þó að fé verði veitt til hans, þar sem óvíst er að sýslan geti lagt fram að sínum hluta, nema sú eftirgjöf fáist, sem farið er fram á á þingskjali 813 og vil eg biðja háttvirta þingdeildarmenn að ljá eyru að því sem eg hefi um þetta að segja. Það sem eg fer fram á hér er að það fé sé endurgreitt, sem sýslan lagði til, fram yfir það sem áætlað var í upphafi.

Það var áætlað, að umrædd símalína kostaði hundrað þúsund krónur og átti sýslan að leggja fram 20% af því fé, og lagði hún það til eða 20 þús. krónur. En svo reyndist að línan kostaði ekki nema um 70 þúsund krónur, svo að tillag sýslunnar átti eftir því ekki að vera meira en 15 þúsund krónur og það sem tillagan fer fram á er að eins, að endurgreitt sé það sem ofborgað var.

Eg skrifaði símastjóranum til þess að fá hjá honum upplýsingar, og vil eg leyfa mér með leyfi hv. forseta að lesa upp kafla úr svari hans.

„Að gefnu tilefni lýsi eg því yfir að stjórnarráðið árin 1906—1907 var samdóma mér um að hæfilegt væri að hlutaðeigandi héruð greiddu 20% af kostnaði við símalagninguna frá Ísafirði til Patreksfjarðar. Línan var þá af herra Halvorsen verkfræðingi áætluð ca. 100,000 krónur og var því tillagið ákveðið 20 þúsund krónur. Það sýndi sig að línan kostaði aðeins ca. 75,000 krónur, og ætti þessvegna eftir því sjálfsagt að lækka nefnt tillag niður í 15,000 krónur“.

Þó fer ég ekki fram á að þessar 5000 krónur séu endurgreiddar, heldur að eins helmingur þeirra, það er sá hluti, er vestursýslunum ber. Þær lögðu jafnt fram og kemur því í hlut hvorrar 2500 kr.

Eg leitaði upplýsinga um, hvernig þessi lína bæri sig hjá landsímastjóranum, og tjáði hann mér, að hún bæri sig næst bezt af öllum símaköflunum. Sagði hann, að hún gæfi 5000 krónur í nettotekjur. Þó eru hér að eins talin þau skeyti, sem til Ísafjarðar koma, en ekki þau sem þaðan eru send. Ef þau væru talin með, þá mundi hér verða tvöfalt meiri upphæð, en hann áleit að að eins bæri að telja þau skeyti, sem til staðarins kæmu, og hefi eg ekki á móti að svo sé rétt að telja, enda þótt hitt geti talist að minsta kosti óbeinar tekjur. Landssjóður hefir lagt til þessarar símalínu 55 þúsund krónur, en fær 5000 krónur í tekjur af henni, eða 9%. Ef hann nú endurgreiddi það sem eg fer nú fram á, þá væru útgjöld hans til símans 60 þúsundir, og hefði hann þá samt 8% ágóða af honum, sem verður að álítast vel viðunandi.

Háttv. framsögumaður sagði, að það væri varhugavert að gefa eftir, af því að þegar gefið væri eftir á einum stað, mundu aðrir gera sömu kröfur. En hér er ekki að tala um að gefa eftir heldur að borga til baka það sem ofborgað hefir verið.

Eg hefi fengið beiðni frá sýslunefndinni um að fara fram á, að alt lánið verði gefið eftir, en það hefi eg ekki farið fram á, og geri ekki, að minsta kosti ekki að svo stöddu.

Annars kemur þessi málaleitun frá sýslunni fram, af því að sýslusjóður er mjög illa staddur. Eg vil út af þessu leyfa mér með leyfi háttvirts forseta að lesa upp lítinn kafla úr bréfi sýslunefndarinnar til mín, skrifuðu af séra Böðvari Bjarnasyni á Rafnseyri:

„Sé litið á fjárhagshliðina, verður krafa vor engu síður sanngjörn, í fyrsta lagi varð línan miklum mun ódýrari en gert var ráð fyrir, en eigi varð tillagið frá sýslufélögunum minkað fyrir það. — Í öðru lagi mun lína þessi gefa mjög góðar tekjur.“

Og á öðrum stað segir hann:

„Þá er að líta á, hve þungar búsifjar útgjöld þessi veita sýslusjóði, og er þá skjótt yfir sögu að fara, þau hafa etið upp sýslusjóðinn nú á tveimur árum og eigi unt að standast útgjöldin, nema með óhæfilegri hækkun á sýslusjóðsgjaldinu. Sýslusjóðsgjaldið er nú um hálft þriðja þúsund krónur, en í norðursýslunni rúm tvö, og munu þó gjaldendur þar fast að helmingi fleiri. Gjaldabyrði þessi heftir þannig framfarir sýslunnar og gerir henni ómögulegt að styðja ýms þarfleg fyrirtæki.“

Eg skal ennfremur benda á, að nokkurrar ívilnunar mætti vænta af því að þessi lína kemur sýslunni ekki að fullum notum, þar sem vantar að leggja koparsímann frá Borðeyri til Ísafjarðar.

Alt bendir á, að sýslan eigi sanngirniskröfu, ef ekki réttarkröfu, að staðið verði við það, sem áður er um samið.

Eg vil taka það fram, að þetta kemur ekki til útborgunar, heldur er ætlast til að þetta verði dregið frá láni því, sem sýslan hefir fengið úr viðlagasjóði.

Úr því eg stóð upp, ætla eg að minnast nokkrum orðum á annað mál, þó að eg viti, að þau ummæli geti ekki haft nein áhrif, en það er viðkunnanlegra, að það sé ekki að eins rætt frá annari hliðinni.

Þetta mál er breytingartillaga sú, sem háttv. 4. konungkjörni kemur með á þingskjali 821 viðvíkjandi trollarasektunum.

Enda þótt hugur minn stefni að því, að eg vilji láta borga fyrir Ísland það sem fyrir það er gert, og það hefir gagn af, þá get eg ekki verið með þessari tillögu.

Eg er þeirrar skoðunar, að hér sé ekki að ræða um neinn samning, sem við höfum gert við Dani, svo sem haldið hefir verið fram. Hér er að eins um fjárlaga-ákvæði að ræða, sem ekki getur skoðast sem neinn samningur. Háttvirtur flutningsmaður tillögunnar sagði, að Danir settu þetta upp, ef þeir ættu að halda strandvörnunum áfram.

Eg vil í þessu sambandi benda á orð Neergaards forsætisráðherra, þar sem hann sagði, að Danir ættu að gera þetta og ekki væri undir því komið, hvað einstakur hluti ríkisins, svo sem hann orðaði það, legði að mörkum, heldur væri þetta skylda og hvað hinn einstaki ríkishluti legði til þess, gæti ekki haft áhrif á það.

Við Íslendingar viljum setja það upp á móti, að Danir viðurkenni að við eigum landhelgina.

Þegar við getum sagt með sanni, að það sé fyrir okkur gert, en ekki það sé skylda gagnvart Dönum, er öðru máli að gegna.

En eg treysti mér ekki til með svo vöxnu máli að greiða Dönum þetta.

Það sem flutningsmaður sagði með töluverðri áherzlu, að jafnvel engin önnur þjóð gæti treyst orðum Íslendinga eftir þetta samningsrof, álít eg ekki á neinum rökum bygt.

Orsökin er aðeins sá ágreiningur, sem er milli þjóðanna og ekki er til neins að neita, og þar sem háttvirtur flutningsmaður segir, að Danir muni kippa hendinni að sér, þá vil eg segja, að þá er að taka því.

En það er als ekki hægt að gera ráð fyrir því.

Þar sem háttvirtur flutningsmaður talar um hið mikla gagn, sem fiskiveiðarnar hér syðra hafi af þessari strandgæzlu, þá vil eg ekki neita því, að gagn sé að því, en það er sára lítið og gjarnan minst þegar mest á ríður. Eg gæti sagt háttvirtum deildarmönnum margar sögur af því, hvernig því gagni er varið, þar sem eg bý á þeim stað, sem iðulega sést til trollaranna, en eg skal ekki fara út í það, en eitt sinni, er oss var mjög áríðandi að fá varðskipið og símuðum til stjórnarinnar í því skyni að fá það, þá kom það svar, að það þyrfti að vera allan ágústmánuð norður á Siglufirði og gæti ekki sést á Faxaflóa þann tíma.

Eg er ekki með þessu að álasa foringjum varðskipsins, þeir hafa margir verið duglegir menn og haft áhuga á starfi sínu.

(Lárus H. Bjarnason: Bölvað slúður er þetta).

Þar sem háttvirtur flutningsmaður sagði, að við ættum ekki að reita Dani til reiði, þá vil eg það ekki heldur, en það er ekki svo að við reitum Dani til reiði, þó ágreiningur sé um mál á milli okkar.

Menn ættu að muna eftir dönsku pressunni á síðustu tímum.

(Steingr. Jónsson: En íslenzka pressan). Íslenska pressan er að tala um íslensk mál en ekki að ráðast á Dani.

(Lárus H. Bjarnason: Er ekki fjárlögin, sem um er að ræða?)

Að síðustu skal eg taka undir það, að það er óheppilegt að við séum í skuld við Dani, og eg vildi stuðla að því, að því yrði kipt í lag. Eg álít rétt að við reyndum að komast út úr því skuldasambandi með tilliti til þess, að við höfum annað undir þá að sækja.

Mér þótti síður við eiga að ekki væri rætt um þetta nema frá einu sjónarmiði.