15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Björn Jónsson:

Eg skal ekki fara langt út í það að bera mig saman við ofurmennið 1. þm. Eyf. (H. H.) að gáfum til, það yrði ef til vill til þess, að hann gerði sig að enn meira ofurmenni, og mig að enn meiri óvita. Hann heldur að eg, sem kyntist talsíma fyrir 10—11 árum ímyndi mér, að talað sé þar gegnum pípu!

Eg skal benda á það, að mér sýnist það kátlegt, að þegar allar aðrar þjóðir sendast á loftskeytum yfir sund og höf, þar sem það á betur við en sími, og setja upp ótal loftskeytastöðvar um allan hnöttin — þá förum við að leggja sæsíma. Danir fyrirmyndarþjóðin — hafa nú reynt sæsíma um nokkur ár í Færeyjum, og nú eru þeir að taka þar upp þráðlaus hraðskeyti! Eins og eg gat um áður, er engin leið til þess að gera við símann, þegar hann bilar, nema fá skip til þess frá öðrum löndum (Skotlandi) og það er mælt að kosti 10,000 kr. í hvert sinn. Hinu geri eg ekki mikið úr, þótt tekist hafi að nota til þess vélarbáta inn á mjóum, lygnum fjörðum. Það hefir sagt mér maður, sem vel hefir vit á, að algengur vélarbátur taki ekki nema 200 stikur af slíkum síma. Auk þess þarf sérstök áhöld til þess að finna hvar sæsími er slitinn, og þau eru mjög dýr. Það er meira að marka, hvað sérfræðingar segja um þetta, en skáld.

Öllum agentsbrigslum virðulegra mótstöðumanna minna, verð eg vísa frá mér sem einberum hégóma, og það er því kátlegra, þegar slíkt kemur frá manni, sem hamaðist gegn loftskeytunum, er vér áttum kost á þeim fyrir 5 til 6 árum með vildarkjörum, en vildi heldur leggja landið að nauðsynjalausu undir fjárhagsok annarar þjóðar með dýrum ritsíma.

Hér er um það að ræða, að annað fyrirkomulagið kostar 40 þús. kr., en hitt 65 þús. kr., og sambandið við Vestmannaeyjar er þannig valið vegna þess, að þá má spara sæsímann. Eg veit vel, að senda má skeyti frá skipum samtímis til Rvíkur og Vestmannaeyja. En séu þau yfir 350 enskar mílur héðan fyrir handan Vestmannaeyjar, þá koma skeytin þangað, en ekki hingað, og ef reisa á loftskeytastöð í Rvík, þá þarf þar að auki að veita fé til sæsímans. En það tel eg hið mesta óráð, að fleygja þannig peningum í sjóinn, að taka 40 þús. kr. til sambands, sem er ótrygt, og búast má við miklum viðhaldskostnaði á, ef til vill 100 þús. kr. á ári vegna símslita. Og þótt sumir geri lítið úr þeirri hættu, þá vona eg að virðul. þm láti ekki blekkjast af því, því að þetta gæti orðið hreint og beint voðafyrirtæki. Þess ber að gæta, að það er ekki von, að stjórnin hafi vit á svona máli, heldur fer hún væntanlega eftir skýrslum annara, og notar líklega mann, sem mun hafa nauðalítið vit á loftskeytaaðferðinni og má því varla heyra hana nefnda.

Þegar alt annað þrýtur, þá er brugðið fyrir sig óskum eyjaskeggja sjálfra um talsíma. Eg veit nú reyndar ekki, hversu sterkar þær óskir muni vera. En líklega eru þeir þó svo miklir föðurlandsvinir, að þeir muni fallast á það, að fleygja eigi slíku stórfé í sjóinn, þegar þeir komast í réttan skilning á því, hvílíka kosti þetta fyrirkomulag hefir til að bera fram yfir símann. Annað mál væri ef hér ætti að fara að traðka rétti þeirra á einhvern hátt, en það er alls eigi gert, síður en svo. Við loftskeytaaðferðina er lítill sem enginn annar kostnaður en að reisa stöðvarnar. Síminn er algerlega sparaður. Og þess hefir verið getið hér í dag, að viðhaldskostnaðurinn gæti numið mörgum hundruðum þúsunda, ef til vill, þegar til lengdar líður. Eg skil því ekki, hvernig nokkurt mannsbarn getur verið stundu lengur í vafa um, hverja aðferðina ætti heldur að nota. Og ef þingið væri nú svo fljótrátt og grunnhyggið, að velja sæsímann, þá mundi það sannast eftir nokkur ár, að það hefði verið hið mesta glapræði.

Um það, sem sagt var um smádýrin við Færeyjar, skal eg ekkert fullyrða, en mér er nær að halda, að það sé tómur misskilningur og ekkert annað. En skyldi nú nokkuð vera hæft í þessu, eru þá þessir menn vissir um það, að hér séu engin smádýr, sem gætu nartað í símann þeirra? Að minsta kosti skil eg ekki annað, en botnvörpur gæti hæglega grandað honum.

Það, að sæsímasambandið sé öruggara, er naumast svaravert. Það var það ef til vill áður en loftskeytin tóku þeim framförum, er nú hafa þau tekið. Nú veit það hvert barnið, að loftskeytasambandið getur ekki bilað, nema stöðvarnar eða áhöldin á þeim, og eins og þar er vel um alt búið, sjá þó allir, hvort það muni eigi verða margfalt fágætara en hitt, að símar bili. Það er er því hæpið, að varpa fram öðru eins og þessu, þótt vér höfum nú þegar átt því að venjast í ekki svo allfá ár.

Eitt var það í óyndisúrræðavörn virðulegra mótstöðumanna minna, að litlar mundu verða tekjur af loftskeytunum, af því að svo fá skip hefðu loftskeytaáhöld. Veit eg það, að þau eru fá nú, en þeim mun óðum fjölga og stórum, óðara en líður. Eftir nokkur missiri mundu þau skifta hundruðum. Nokkur eru þegar komin, en það er ekkert móts við það sem verða mun. Margir þýzkir botnvörpungar, sem hér koma, hafa nú þegar fengið sér þessi tæki, og póstskipin eru að eins óbúin að fá þau.

Því, sem sagt var af virðul. þm. um reksturskostnaðinn, geri eg ekki mikið úr. Það var eins og annað úr þeirri átt, að eins bygt á ágizkunum og spádómum. Og þegar svo hið hávirðulega fyrnefnda ofurmenni spyr mig, hvort eg haldi að sæsíminn sé pípa, af því að eg hafði haldið því fram, að brimhljóðið gæti skemt fyrir símasamtali, þá þykist eg ekki þurfa að fara langt út í slíkt. Það er líkara skrípalátum, en alvarlegum þingræðum.

Ekki þarf að eyða mörgum orðum að því, hvílíkur háski gæti stafað af því, að fela stjórninni þetta mál. Hún mundi auðvitað ekkert annað gera, en fara að ráðum landsímastjórans, þótt allir viti, að hann hafði enga þekkingu á loftskeyta-aðferðinni, þegar hann kom hingað. Og í samræmi við það hefir nú líka hinn þingflokkurinn víst þegar afráðið að greiða atkvæði, svo að þessar ræður gera ekki mikið af eða á. Það munu líka hvort sem er allir skynbærir menn vera orðnir forviða á öðru eins hjali og því, að símtal sé öruggara en loftskeyti, þar sem það er margstaðreynt, að þrásinnis heyrist ekkert af því, sem talað er í sæsíma. Og þegar svo er, að við ekkert er að berjast nema hvert öfugmælið ofan í annað, þá álít eg rétt að eyða ekki tímanum í það lengur, heldur láta hér við lenda. En eg vil ítreka það, að eg vona að mikill meirihl. deildarinnar sé svo óháður, að hann taki það eina sjálfsagða og rétta, sem eru loftskeytin.

Þá vil eg minnast fám orðum á eina fjárveitingu. Það er styrkur til íslenzks listamanns, Sveinbj. tónskálds Sveinbjörnssons, til þess að gefa út á íslenzku bók, kontrapunktfræði. Fróðir menn í þeirri grein segja, að meðan oss vanti hana, geti engin fullnýtileg söngkensla farið fram hjá oss, hún sé þá öll á sandi bygð. Menn munu nú segja, að þessi maður sé svo efnum búinn, að hann mætti við því, þótt hann tapaði á útgáfunni. Það getur verið, en þótt svo væri, þá er það hart, að láta hann þurfa að gefa okkur þetta úr sínum vasa. Hann er maður, sem hefir gert oss sóma erlendis, er nú kominn á elliár, og leitar varla til þingsins aftur, og finst mér því að sæmilegt væri að veita honum þetta.

Þá er síldarmatsmaðurinn, sem virðul. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) kvaðst hafa spurt mig um á prenti. Eg hefi nú ekki séð þetta prent hans, fremur en margt annað, sem er svo algengt úr þeirri átt. Það sem mest reið á, var það, að maðurinn yrði fær um að dæma um það, sem hann átti að meta um, og þegar hann hafði búið sig undir starfa sinn bæði í Svíþjóð, Hollandi og í Hamborg, þá kvað hann þá ferð ónýta, nema hann færi líka til Ameríku, sem og útgerðarmenn við Eyjafjörð (Akureyri) fóru fram á. Þá, varð það að ráði, að styrkja hann til þessa. Maðurinn sjálfur var og er hrekklaus, og ef þessi styrkveiting þykir ósvinna, þá er ráð að leggja það mál fyrir landsdóm. Nú hefir maðurinn farið ferðina, svo að ef fara á að rekast í því, þá verður að höfða mál á móti mér fyrir það, að hafa eytt fé landsins að óþörfu.