15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Sigurður Gunnarsson:

Eg ætla að drepa á viðaukatillögu mína á þgskj. 199. Það lítur út fyrir, að vinur minn háttv. 2. þm. S. Múl. (J. Ó.) sé sorglega sjóndapur og heyrnarsljór, því ekki vil eg geta neins lakara til. Hann hefir ekki getað lesið viðaukatillöguna, því að hann sagði, að hún færi fram á 5500 kr., en hún fer að eins fram á 3000. Ennfremur virðist hann ekki hafa heyrt orð mín og er því líklega orðinn heyrnardaufur, því að ekki vil eg gizka á það, að hann hafi talað á móti betri vitund. Eg tók það fram, að venja væri að brúa torfærur á þjóðvegum og það getur hann séð, ef hann t. d. ferðast um Mýrasýslu, því á þjóðveginum þar er hver spræna brúuð, hversu lítil sem hún er. Eg hefi aldrei sagt, að þær ár, sem hér um ræðir, væru neinar stórár, en samt er mér kunnugra um þær en háttv. 2 þm. S.-Múl. (J. Ó.). Hann hefir víst ekki ferðast um þetta svæði, nema einu sinni. Það var víst þegar hann var að bjóða sig fram til þings hérna á árunum. (Jón Ólafsson: Þetta er misskilningur). Það mun rétt vera, að eg fari hér rangt með, en á ferðalagi var hann eitt sinn þar vestra. Hann kveðst þá hafa séð þessar ár í leysingu í júnímán., en eg vil geta þess, að í júnímán. er aldrei vöxtur í neinum þeirra, hvorki Bakkaá, eða hinum. En það getur h. 5. kgk. þm. (L. H. B.) borið um með mér, að þessar ár geta að vetrarlagi verið vondur farartálmi, og svo er þess að gæta, er eg tók áður fram, að engin mynd er á því, að skilja eftir óbrúaðar ár á þjóðvegi árum saman.

Fyrst eg stóð upp á annað borð, ætla eg að minnast á viðaukatill. frá h. þm. N.-Þing. (B. Sv ). Eg vil mæla með þeirri fjárveitingu, því að hér er um stórt svæði að ræða, sem hefir farið á mis við fjárveitingar hingað til og því mjög sanngjarnt, að þingið hlaupi þar undir bagga.

Hvað loftskeytin snertir, þá hafa margar gildar ástæður verið færðar fyrir þeim, svo að eg býst við því að menn hafi þegar myndað sér sannfæringu um það mál, en eg vil aðeins benda á það, hve mikill kostnaður yrði við það að gera við sæsíma til Vestmanneyja, ef hann bilaði. Það þyrfti hjálp frá útlöndum, sem bæði mundi kosta margar þús. kr. og auk þess taka mikinn tíma. Eg býst annars við, að menn hafi þegar myndað sér skoðun um málið og skal því ekki fara lengra út í það.