15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Eggert Pálsson:

Eg gat ekki búist við því, að umræður um þetta mál mundu taka þá stefnu, sem þær hafa tekið, sem sé, að snúast aðallega um loftskeytasamband eða talsímasamband á milli Vestmannaeyja og meginlands. Til þess virðist ekki hin hógværa og sjálfsagða brtill. fjárl.nefndar, að orðinu »loftskeytasamband« skuli breyta í »hraðskeytasamband«, gefa neina ástæðu. Brtill. bendir einmitt í þá átt, að hollast muni vera og réttast að láta aðra, sem betri þekkingu hafa á málinu heldur en háttv. þingdm. geta haft eða betri kringumstæður til að afla sér hennar leysa hnútinn; og virðist svo, sem allir hefðu mátt þar við vel una, þar öllum var með því gert jafnt undir höfði. En fyrst nú umræðurnar hafa tekið þessa stefnu, vildi eg segja nokkur orð, ekki af því að eg hafi nokkra sérþekkingu á þessu máli, hvort heldur loftskeyta- eða talsímaaðferðum, heldur af því, að eg mun flestum þm. kunnugri á því svæði, er síminn ætti að liggja um. Eg held að það hljóti öllum að skiljast, að loftskeytastöð í Reykjavík, til þess að taka við skeytum frá skipum og senda til þeirra, stendur ekki í neinu beinu sambandi við það, hvort loftskeytastöð skuli vera í Vestmannaeyjum, heldur þá að eins óbeinu. Það er enganveginn sjálfsagt, þótt hún væri sett í Rvík, að hún ætti einnig að koma í Vestmannaeyjum. Símasamband á milli Vestm.eyja og meginlands gæti og getur verið eins réttmætt fyrir því, þótt slík loftskeytastöð kæmist upp í Rvík. Og símasambandið er réttmætt, ekki hvað sízt af þeirri ástæðu, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) tók fram, að með því kæmust eyjaskeggjar í samband við alt símakerfið um land alt; þar við bætist, að Vestmanneyingar sjálfir æskja sæsímasambands en ekki loftskeytastöðvar og liggur þá í augum uppi, að réttast er að taka slíkar kröfur til greina, einkum þar sem góð reynsla er fengin fyrir notum og endingu símans hér á landi, en alla reynslu vantar um loftskeytin. Hvað viðvíkur loftskeytastöð í Reykjavík, þá er eg að vísu ekki mótfallinn því í sjálfu sér, að hún komist á fót, en hitt ber að athuga, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) benti á, hvort vér getum ekki án nokkurs fjárframlags frá vorri hlið fengið slíkar stöðvar, og tel eg þá réttara að biðloka um nokkurn tíma og leita samninga við önnur lönd því máli viðvíkjandi, áður en í það er ráðist, einkanlega þar sem ekki er sýnilegt, að nokkuð verulegt kalli þar á eftir enn sem komið er.

Eg skal svo snúa mér að því, sem eg hvarf frá, hvort heppilegra væri, þegar á alt er litið loftskeytasamband við Vestmannaeyjar eða símasamband.

Þegar um þetta er að ræða, skilst mér að einkum komi til greina 4 ástæður:

1. Stofnkostnaðurinn. Eftir því sem áætlað hefir verið, mun loftskeytasambandið,

þ. e. a. s. ef loftskeytastöð er komin upp í Rvík, verða lítið eitt ódýrara en símasamband frá Garðsauka til Vestm.eyja. En þar við er það að athuga, að síminn kemur til með að liggja um ? hluta af vegarlengdinni á landi. Nú stendur svo á, að óhjákvæmilegt verður innan mjög skamms tíma að leggja síma austur um Rangárvallasýslu alt austur í Vík í Mýrdal, því engin sanngirni virðist vera í því, að láta þau frjósömu og fjölmennu héruð, sem eru á þeirri leið vera lengur án símasambands. Verði nú sími lagður til Vestmannaeyja, þá sparast mikið á Mýrdalssímanum, svo mikið að óhætt mun vera að draga frá símakostnaðinum til eyjanna 12—14 þús. kr., svo að í raun og veru kostaði síminn út í eyjarnar, þegar það er dregið frá hinni áætluðu upphæð, sem yrði að ganga til símaálmunnar austur í Vík á þessu sameiginlega svæði, 16—18 þús. kr. Og fer þá vissulega að verða minst á mununum, hvað símalagningin yrði dýrari en loftskeytastöðin.

2. Starfrækslan. Beri menn saman hvort ódýrara muni vera að starfrækja loftskeytastöðvar heldur en símasamband á umræddu svæði, þá er eg fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um, að eins og hér stendur á muni starfræksla símans verða mun ódýrari. Við loftskeytastöðina í Vestmannaeyjum mundi undir öllum kringumstæðum ekki veita af 2 mönnum til þess að starfrækja hana. Og þótt það kunni satt að vera, að slíkir menn þurfi ekki að vera svo ýkja lærðir, þá mundu þeir þó heimta sitt fullkomna kaup, sem þegar er orðið allhátt fyrir hvern óvalinn mann sem er, og þá ekki hvað sízt fyrir mann með nokkurri sérþekkingu, enda hefir stjórnin ætlað til þess í frv. 3 þús. kr., og mun sízt of hátt sett. Það mun reynslan sýna. En á hinn bóginn mundi starfræksla símastöðvar í Vestmannaeyjum kosta sem annarsstaðar sára lítið, að minsta kosti verða ekki nema lítið brot af því sem starfræksla loftskeytastöðvar kostaði, jafnvel þótt símritara þyrfti að hafa þar einstöku sinnum.

3. Bilunarhætta. Eg skal játa það, að eg er ekki svo fróður í þeim efnum, að eg treysti mér til að dæma ótvírætt um, hve mikil eða lítil hún kunni að vera. Og eg held aðra þingdeildarmenn hljóti sömuleiðis að bresta slíka þekkingu. En eftir því sem símastjóri, sem fróðastur er allra manna hér á landi í þeim efnum, hefir skýrt frá, þá má fullyrða, að bilunarhætta sé ekki mikil á sæsíma, ef hann yrði lagður, enda bendir okkar eigin litla reynsla í þá átt, að bilunarhætta á sæsímum sé ekki mikil yfirleitt. Og þegar búast má við, að alt verði vandað sem bezt, þá virðist óhætt að fullyrða, að hún verði á þessu svæði sára lítil. Öðru máli er að gegna um loftskeytastöð. Hún hlyti jafnan að vera undirorpin mjög mikilli bilunarhættu, sérstaklega í Vestmannaeyjum. Þar er eins og menn vita, há og snarbrött fjöll og svipvindi mikið og stormasamt, svo að hætt er við að stengurnar brotni altaf meira og minna. Eg hugsa því, að þegar á alt er litið, megi leggja hvorttveggja nokkurn veginn að jöfnu, bilunarhættu sæsímans og bilunarhættu loftskeytastöðvanna. Önnur bilunin sjaldgæfari og kostnaðarsamari, hin tíðari en ódýrari. Hvað landtöku sæsímans á meginlandinu snertir, þá get eg af eigin reynslu dæmt um það, að það er fyllilega rangt sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) vildi halda fram, að bilunarhætta á sæsíma milli lands og Vestmannaeyja mundi verða mjög mikil á landtökustaðnum við Rangársand. Hver maður, sem þar er kunnur, veit það, að síminn mundi þegar fara á kaf í sandi og þar af leiðandi bilunarhætta nær því engin á þeim stað. Sama er að segja um það, er sami háttv. þm. vildi halda fram, að »trollarar« mundu slíta símann milli lands og eyja, að það nær heldur engri átt, og það af þeirri einföldu ástæðu, að »trollarar« »trolla« aldrei á þessu svæði, sem síminn á að liggja um, hverjar orsakir sem til þess kunna að liggja, sennilega annaðhvort það, að sandurinn sé svo mikill, að hann fylli vörpurnar eða botninn svo ósléttur eða þá hvorttveggja.

4. Notagildi. Það hlýtur hverjum manni að liggja í augum uppi, að notagildi símans hlýtur að verða miklu meira en notagildi loftskeytastöðva. Og af hverju? Af því að ef sími yrði lagður komast, eins og tekið hefir verið fram, Vestmannaeyingar í samband við alt landið og aðrir landsmenn við þá. Að vísu má segja, að slíkt samband geti komist á, þótt að eins loftskeytastöðvar verði reistar. En slíkt samband liggur í augum uppi að hljóti að verða afardýrt, eigi að eins fyrir landssjóðinn með tilliti til starfrækslunnar, heldur einnig fyrir hina fáu notendur þar. Fyrst yrði að greiða gjald fyrir loftskeytin og síðan fyrir símskeyti með símanum, auk þess sem talsímabandið er þar með alveg afskorið, og er það þó eflaust það sem mönnum finst þægilegast og mest er notað. Og þörfin fyrir slíkt samband er ekki síður brýn hér en annarsstaðar á landinu. Vestmannaeyjar er bæði verzlunarstaður og stórt fiskiver. Úti í Vestmannaeyjum eru æfinlega vetur og vor fjöldi manns af meginlandi, sem þarf að hafa samband sem greiðast við menn í landi og aðrir við þá. Aftur á móti á sumrum er fjöldi af Vestmanneyingum, konum og körlum, í landi í kaupavinnu og við heyskap, svo að viðtölin yrðu þannig dagleg á báða bóga, fólkinu til þæginda og landssjóði til afarmikilla tekna. En þessum þægindum yrðu menn að mestu leyti sviftir, ef loftskeytaaðferðin yrði tekin fram yfir talsímann og landssjóður þar með einnig tekjunum. Vegna alls þessa er eg því að svo vöxnu máli því hlyntari, að símasamband heldur en loftskeytasamband verði sett á stofn á milli Vestmannaeyja og meginlands, en játa þó takmörkun þekkingar minnar í þeim efnum, og get því felt mig við þá tillögu, að stjórninni sé falið að ráða fram úr þessu eftir ráði vitrustu og beztu manna, treystandi því, að hún geri það sem réttast er í þessu efni og blandi því á engan hátt inn í stórpólitíkina eða undangenginn stjórnmálaágreining. Og að flestir háttv. þingdm. geti sætt sig við það, tel eg líklegt. Eg undantek háttv. þm. Barð. (B J.). Ef hann hefði sjálfur setið í ráðherrastólnum mundi hann ekki hafa haft mikið á móti svona lagaðri breyt.till. En þegar hann er þar eigi lengur, er skiljanleg afstaða hans gagnvart breyt.till. Hún er skiljanleg af manni, sem á öllu þykist hafa vit og einn vill öllu ráða. En þótt hann beri ekki traust til þeirrar stjórnar, sem nú höfum vér, þá getur hann nú máske huggað sig við það, að hún verði ekki svo langgæð — eftir því sem vindurinn virðist nú blása hjá hinum háttv. meiri hluta. Verði vantraustsyfirlýsing sú samþykt, sem þeir herrar í meiri hlutanum hafa nú borið fram, getur vitanlega svo farið, að vér allir verðum sendir heim með sóttgæzlufrumvarpið eitt, sem samþykt lög til að hampa framan í kjósendur og aðrir menn komi því til að fjalla um málið, svo að í raun og veru kunni því á sama að standa, hvort vér samþykkjum hér nú þráðar- eða þráðlaust samband milli Vestmannaeyja og lands. En hvað sem ofan á kann að verða, held eg þó að bezt fari á því, að breyt.till. fjárlaganefndar verði nú samþykt. — Og eg fyrir mitt leyti er ekki hræddur við að við gerum okkur hlægilega í augum seinni þinga fyrir að fela þetta mál til úrlausnar þeim, sem bezt hafa skilyrðin til þess að þekkja hið rétta.

Viðvíkjandi hinum öðrum breyttill., hvort heldur fjárlaganefndar eða annara, skal eg ekki fjölyrða. Að sjálfsögðu fylgi eg stefnu fjárlaganefndar, sem h. frsm. (B.Þ.) hefir tekið fram, í flestum efnum, en tel mig samt óbundinn í sumum atriðum, sem sjást mun af atkvæðagreiðslunni.

En fyrst eg stóð upp, þá vildi eg jafnframt lítillega minnast á athugasemdina í nefndaráliti fjárlaganefndarinnar við síðustu gr. frv. áhrærandi Markarfljótsfyrirhleðsluna. Þótt eg fyndi ekki ástæðu til, hennar vegna, að skrifa undir álitið með fyrirvara, þá er eg samt ekki alls kostar ánægður með hana. Ekki af því að eg telji hana skaða, heldur af því, að eg tel hana lítt framkvæmanlega og þar af leiðandi gagnslausa. Það sem upp á kann að vanta áskilið fjárframlag hjá Fjallamönnum, stendur að minni hyggju eingöngu hjá jarðeigendunum en ekki hjá hreppsbúum eða hreppsnefnd. Og eg þekki engan veg til þess, að jarðeigendurnir verði þvingaðir til þess að láta nokkurt fé af hendi í þessu skyni á móti vilja sínum. En sé það hægt, skal eg ekkert á móti því hafa. En ef til þess kemur, að landeigendur leggi fram fé í þessu skyni, þá vona eg að ekki standi á fjárframlagi úr landssjóði fyrir hönd jarða þeirra, er honum heyra — að minsta kosti óbeinlínis — til, sem eru kirkjujarðir Holtsprestakalls og æði margar eru að tölunni og flestallar undiropnar meiri eða minni eyðileggingu, ef fljótið hefði fengið að ráða.