23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Fyrir hönd fjárlaganefndarinnar skal eg fara nokkrum orðum um þær breyt.till., sem fram hafa komið við frv., og tek eg þær í sömu röð sem þær standa.

1. brt. er um að veita stjórnarráðinu heimild til að selja Miklaskála. Tilboð hefir verið gert í húsið og kaupin nokkurn veginn afgerð af stjórnarráðinu, en heimild þarf til sölunnar frá þinginu. Nefndin mælir með þessu og gengur út frá því vísu, að þingd. samþykki það.

Næsta till. er á þgskj. 265, tilkomin út af fjárveitingu til háskólans, sem samþykt var við 2. umr. Eg álít nú, að engin þörf hafi verið, eins og fjárhag landsins er háttað, að fara strax að rjúka í að veita fé til háskóla, og mig furðar á því, að bændur skuli greiða atkvæði með slíku. Það er annað mál um Reykvíkinga, sem vænzt geta frama og fjárauka fyrir sig sjálfa eða ættingja sína og venzlamenn við það. En eg býst ekki við, að við þetta verði ráðið, og því er meirihluti nefndarinnar með breyt.tillögunni, sem fer fram á það, að háskólinn byrji 1. október í stað 17. júní, eins og samþykt var við 2. umr. Átti það að vera til minningar um vorn mikla þjóðskörung Jón Sigurðsson. Eg get ekki séð, að minning þessa merkismanns græði nokkuð við það, að menn hirði laun sín, eti og drekki upp á landssjóðs kostnað í 3½ mánuð.

Breyt.till. á þgskj. 277 er svo til komin, að við 2. umr. var samþykt 4500 kr. fjárveiting til brúar á Hölkná. Eg gat ekki svarað flutningsm. þeirrar fjárveitingar þá, af því að umr. voru skornar niður. Nú leggur nefndin til, að landið veiti 3000 kr. til brúar á nefnda á, eða ?, en ? leggi sýslan eða hreppurinn, sem áin rennur um. Áin er ekki á þjóðveginum, heldur á aukapóstvegi, og ber því landssjóði engin skylda til að veita fé til brúarinnar. En af því að áin er ill yfirferðar og seinasta þing veitti fé til brúar á á nálægt þessari, sem ekki getur komið að fullum notum, nema Hölkná verði brúuð, þá vill nefndin veita þessa ívilnun.

Þá er hér breyt.till. á þgskj. 278, sem er náskyld annari breyt.till., er kom fram áður hér í deildinni og féll við 2. umr. Það var till. um eftirlaun til ekkjufrúr Þóru Melsteð, 500 kr. fyrir árið 1910, en 600 kr. fyrir árið 1911.

Nefndin hefir nú ekki átt kost á að ræða þetta, en hafði þó hugmynd um að það mundi koma fram, og þá hefir mér og meirihl. fjárlagan. komið saman um að lækka þennan lið niður í 400 kr. Það er alkunnugt, að hér er um sæmdarkonu að ræða, sem unnið hefir mikið og gott starf sjálf, og er auk þess ekkja góðs og merks manns. En þinginu hefir áður farist mjög vel við þann mann, og það er þó ekki ástæða til þess að óska frekari eftirlauna handa ekkjunni, að maðurinn hefir verið hálaunaður meðan hann lifði. Ekki ástæða til að gera neinn rétthærri, þótt vel hafi verið farið með hann áður.

Það kom fram hjá háttv. flutningsm. þessarar till., að konan væri gömul og óvíst að hún þyrfti styrks með oftar, ef hann fengist ekki nú. Eg álít líka, að það sé sanngjarnt, að hún fái 400 kr. þetta ár, þótt það hafi ekki verið sannað, að hún sé sérlega þurfandi. Það eru sómasamleg eftirlaun handa ekkju, sem ekki á fyrir neinum að sjá, einkum ef litið er til eftirlauna margra embættismanna vorra. Einungis vildi eg þá óska yfirlýsingar háttv. flutningsm. um það, hvort hann vilji ekki gera sig ánægðan með þetta, og heimta ekki meira á fjárlögunum. Ef svo er, þá er eg ánægður og vil mæla með því við háttv. deild, að hún veiti þessar 400 kr.

Svo er breyt.till. á þgskj. 279 frá háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), sem er að mestu leyti uppvakningur frá 2. umr. Munurinn er að eins sá, að þá var farið fram á 400 kr., en nú 350 kr. Mér er nú ekkert kappsmál um þessa breyt.till. Eg veit það, að þörf muni vera fyrir þetta fé til að greiða fyrir ferðum í Austur-Skaftafellssýslu. En það var bent á það við 2. umr., að þessa upphæð mundi mega fá af því fé í gildandi fjárlögum, er veitt er til gufubáta og mótorbátaferða. Þessu mætti koma að á fjárl. Eg get nú ekkert fullyrt um það, hvernig nefndin muni taka í þetta, en eg sé að því er haldið til streitu, og vil því ekki fyrir hönd nefndarinnar vera að mæla á móti því.

Þá er breyt.till. á þgskj. 281. Það er um byggingarstyrk til kvennaskólans á Blönduósi. Þessi till. er hingað komin á síðustu stundu, svo að fjárlagan. hefir eigi haft tíma til þess að bera sig saman um hana. Eg tala því hér einungis fyrir sjálfan mig. Og eg verð að segja, að eg hefði kunnað betur við það, ef þetta hefði verið kallað styrkur til skólahússbyggingar, því að annars binda menn hendur sínar, ef þetta verður samþykt. Fjárl.nefndin hefir enn ekki tekið afstöðu til kvennaskólamálsins, hún hefir ekki haft tíma til þess, en hún hefir samþykt í tillögum sínum við fjárl. 10—12 þús. kr. lánsheimild til skólahúss á Blönduósi, og í samræmi við það hefði þessi breyt.till. átt að orðast. Af þessum ástæðum get eg eiginlega hvorki verið með þessu né móti.

Þá eru nú ekki eftir fleiri breyt.till., nema ein á þgskj. 284, sem ekki er nema orðabreyting, og sem eg álít alveg rétta.