23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Sigurður Sigurðsson:

Eg hefi leyft mér ásamt tveim öðrum háttv. þm. að koma fram með breyt.till. á þgskj. 265, viðvíkjandi háskólanum. Breyt.till. fer fram á það, að háskólinn taki ekki til starfa fyr en 1. okt. og fjárhæðin miðuð við það.

Eg hafði ætlað mér að minnast á þetta atriði, háskólann, við 2. umr. fjáraukalaganna, en umræðurnar voru þá, eins og kunnugt er, skornar niður. En undir umræðunum benti háttv, 2. þm. Rang. (E. J.) á það, að ástæðulaust væri að ákveða laun handa kennurum háskólans yfir sumartímann frá 17. júní til 1. okt. , þann tíma, er engin kensla ætti sér stað, og er það rétt athugað. En afstaða mín til þessa máls er sú, að eg álít að háskólinn hefði átt að hvíla þetta næsta fjárhagstímabil. Það er svo margt annað, sem kallar að og síður þolir bið. Eg hefi hvergi orðið var við neinar óskir um að háskólanum yrði komið á fót svo brátt, nema hér í Reykjavík. Úti um landið láta menn sig það engu skifta, þótt það drægist um nokkur ár, að hann tæki til starfa. Flestir munu telja það skaðlaust landi og lýð, þótt svo yrði, og óneitanlega hefir það allmikil útgjöld í för með sér að stofnsetja skólann. Launaviðbótin ein nemur 15—20 þús. kr. á ári. Það munar um minna. Fyrir það fé mætti brúa 3—4 smáár, eða byggja 4—5 rasta braut. Hér er ekki um neina brýna þörf að ræða, að koma skólanum á fót, síður en svo. Það eru að eins nokkrir reykvíkskir embættismenn og embættislausir menn, sem er það kappsmál, að háskólinn byrji sem fyrst. Það er launaviðbótin og launavonin hjá þessum mönnum, sem kallar að, og ekkert annað. — Við 2. umr. var viðhaft nafnakall um fjárveitinguna til skólans. Það hefir átt að knýja menn til að vera með henni. Það hreif. Fjárveitingin var samþykt, og það með allmiklum atkvæðamun. Það eru þeir háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), sem mest hafa gengist fyrir þessari háskólastofnun á þessu þingi. En nú er mér sagt, að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sé orðinn linari í sókninni, en áður, og vilji nú helzt að stofnun háskólans sé frestað. Hvað veldur þeim sinnaskiftum? — Eg sé líka hér er komin breyt.till. við breyt.till. okkar þrímenninganna, þar sem farið er fram á að fella í burtu 4. deild háskólans, og mér er sagt að þessi till. eigi rót sína að rekja til háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), en um það skal eg ekkert fullyrða. En gagnvart þessari breyt.till. vil eg segja það, að eg hefi ávalt litið svo á, að það yrði einmitt þessi 4. deild háskólans, er héldi nafni hans á lofti út á við. Og ef það er annars meiningin, að háskólinn eigi að hefjast nú í ár, þá virðist mér fara bezt á því, og vera í mestu samræmi við tilgang háskólalaganna, að allar deildir hans taki til starfa undir eins. Ef 4. deildinni er slept, heimspekisdeildinni, og að eins sameinaðar — á pappírnum — hinar 3 deildirnar: læknaskólinn, lagaskólinn og prestaskólinn, þá virðist mér eins gott að fresta alfarið stofnun háskólans. Annaðhvort er að fresta stofnun skólans, eða búa svo um, að allar deildir hans geti byrjað undir eins. Og mín skoðun er nú sú, að stofnun háskólans hefði átt að bíða, bæði þetta ár og næsta fjárhagstímabil. En ef hann á að byrja á annað borð, þá virðist mér lang eðlilegast, að allar deildir skólans taki til starfa samtímis.