23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jón Magnússon:

Eg vildi víkja með nokkrum orðum að breyt.till. minni á þgskj. 278 um styrkinn til frú Þóru Melsted. Eg talaði nokkur orð fyrir samskonar till. við 2. umr., og álít ekki þörf á að taka hér upp aftur það sem eg sagði þá. Eg skal að eins minna á það, að hér á ekki einungis í hlut ekkja heiðursmanns, sem þing og þjóð hefir verið samdóma um, að unnið hafi til sérstakrar viðurkenningar fyrir starf sitt í almanna þarfir, heldur og kona, sem á það sjálf skilið, að henni sé sómi sýndur fyrir margra ára ósérplægna starfsemi til sannra þjóðþrifa, því að frá því árið 1858 hefir hún sífelt lagt fram alla sína krafta í þjónustu málefnis, sem alþingi hefir ætíð talið mjög þarft, en það er kvennaskólamálið. Hún kom því máli fyrst á hreyfingu, og síðan lagði ekki einungis hún, heldur og maður hennar að miklu fram krafta sína í þarfir þess á síðari árum. Það er vitanlegt, að fjárhagur þeirra hefir verið heldur þröngur alla æfi. Samt sem áður réðst þessi maður í það, að byggja stórt og dýrt hús handa kvennaskólanum, auðvitað mest í skuld, og af þessu leiddi það, að hann gat ekki séð svo vel fyrir ekkjunni, sem hann vildi, gat t. d. ekki lagt fé í ekknasjóð. En hann treysti því stöðugt, að alþingi mundi sjá það við hana. — Eg sé nú að háttv. fjárlaganefnd hefir ekki fundið ástæðu til þess að virða þetta svo sem að neinu. Eg veit þó, að stjórnin hefir álitið, að konu þessari bæri lagalega um 220 kr. lögmælt eftirlaun, og hefir úrskurður hennar fallið í þá átt. Hér er nú ekki um annað að ræða, en dálitla viðbót í örfá ár. — Þar sem h. framsm. (B Þ.) spurði, hvort eg vildi eigi þiggja fyrir hennar hönd 180 kr. viðbót í ár, móti því að sleppa öllu frekara tilkalli, — þá skil eg ekki, hvernig mönnum dettur í hug að koma fram með annað eins. Þetta gæti verið hreinasti búhnykkur fyrir þingið, nema hún eigi því skemur eftir ólifað. Ef hún lifir nokkur ár enn, sem eg vona að verði, þá er henni þetta strax á næstu árum 200 kr. skaði. Þegar eg sá till. fjárlaganefndar um þessa niðurfærslu, þá datt mér fyrst í hug að taka tillögu mína aftur, heldur en að þiggja svo litla viðbót, en eg gerði það ekki, því að eg vissi að þegar er þörf aukins styrks. Það er satt, að þessi kona á dálítið í kvennaskólahúsinu, sem eitthvað kynni að fást fyrir, ef það seldist, en nú sem stendur er sú húseign fremur til byrði, en hitt. Sannast að segja hélt eg, að menn mundu veita þetta ljúflega, svona lítið, og það þegar konan er komin fast að níræðu. Og þótt það sé satt, að hagur landsins sé þröngur, þá er það ekki svo, að mjög muni um 3—400 kr. meira eða minna. En eitt vil eg taka fram: Þessi kona hefir þegar ráðstafað öllu eftir sinn dag til almennings þarfa.

Eg verð að segja það, að eg á bágt með að betla, þegar undirtektirnar eru svona stirðar og viðurkenningin svona lítil, en eg get ekki skilið, hvað háttv. fjárlaganefnd gengur til, nema ef vera skyldi það, að hún áliti að hér eigi engin viðurkenning við, af því að kona á í hlut. Mér er nær að halda, að hefði það verið karlmaður, þá hefði varla heyrst nokkur rödd á móti þessu. Og ef það er alvara hjá háttv. fjárlagan., að halda fram sinni viðbót, þá vil eg heldur leggja til, að alt sé tekið aftur. Það verða þá vonandi einhver önnur ráð til þess að hjálpa þessari konu á einhvern annan hátt þann stutta tíma, sem hún á eftir ólifað.