23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Benedikt Sveinsson:

Háttv. fjárlaganefnd hefir komið fram með brt. á þgskj. 277 og leggur þar til, að fjárframlagið til þess að brúa Hölkná í Þistilfirði sé fært niður í 3000 kr. úr 4500 kr. og landssjóður beri ekki meira en ? hluta kostnaðarins við brúargerðina. Brtill. byggist á því, að hér sé eigi um þjóðveg heldur um aukapóstveg að ræða. En þó að svo sé, þá fyrirbyggir það alls ekki, að landssjóður kosti brúna. Greining vegalaganna á þjóðvegum og öðrum vegum er á margan hátt ósanngjörn. Um mörg héruð liggur þjóðvegur þver og endilöng, en í öðrum héruðum er enginn þjóðvegur. Það sjá allir, að úr fjárveitingunum verður hið stakasta ranglæti, ef undantekningar eru ekki gerðar við og við. Eg vil benda á það, að þetta hérað er fátækt, víðlent og strjálbygt og mun alls eigi vera fært um að leggja fram ? hluta kostnaðarins við brúargerðina. Þegar ennfremur er á það litið, hve lítið héraðið hefir fengið úr landssjóði og þetta er eina beiðnin þaðan, sem fram kemur á þessu þingi, þá er sannarlega ekki ósanngjarnt, að héraðið fái þessar 4500 kr. Mörg önnur héruð fá stórfé á ári til ýmsra fyrirtækja, sem sýslurnar sjálfar leggja ekki eyrisvirði til. Eg get líka gefið mönnum þær upplýsingar, að þó að brtill. nefndarinnar verði feld, sem eg vona, þá verða aukin útgjöld fyrir landssjóð til brúargerðanna í Þistilfirði samt ekki meira en 3000 kr., því að eftir því sem landsverkfræðingurinn hefir sagt mér, þá gengu 1500 kr. af við brúargerðina á Sandá, og má verja þeim til þessarar brúar. Eg býst því fastlega við, að deildin sýni þá sanngirni, að fella þessa brtill. nefndarinnar.